1764 - Hofsstaðir

„Hvers vegna er ekki hægt að ganga frá grátandi hvítvoðung sem skilinn hefur verið eftir á árbakka?“ Spyr Teitur Atlason í blogg-grein sem margir tala vel um. Mér finnst greinin full af rangfærslum og minna á predikun frekar en blogg. Miðhugmynd hennar finnst mér samt felast í spurningunni sem vitnað er til hér í upphafinu.

Spurning spurninganna er og hefur lengi verið hvort maðurinn sé góður eða illur í sjálfu sér. Það er þaðan sem sögnin um baráttuna milli góðs og ills er tilkomin og það er sú spurning sem trúarbrögðin snúast að meira eða minna leyti um. Richard Dawkins heldur því fram að hið illa sé frá genunum komið. Afneitar samt sem áður hefðbundnum trúarbrögðum. Af mörgum er Darwinismi talinn vera á þann veg að öll lifandi fyrirbrigði (og maðurinn þar með) hugsi fyrst og fremst um eigin hag. Dawkins gerir manninn að viljalausu verkfæri genanna.

Teitur messar mjög í bloggi sínu og verður tíðrætt um Djöfulinn. Auðvitað finnst honum hann hafa verið allsstaðar á kreiki í undanfara Hrunsins. Orðræða af þessu tagi hjálpar ekki til við endurreisn Íslands, sem þó hlýtur að vera takmark okkar allra.

Á sínum tíma fylgdist ég vel með blogginu hennar Nönnu Rögnvaldardóttur sem hún kallaði: „Konan sem kyndir ofninn sinn“. Þar varð henni tíðrætt um Sauðargæruna sem hún kallaði svo. Þar var að ég held um lítinn ömmustrák að ræða sem Úlfur hét og heitir vafalaust enn. Margt gullkornið féll í frásögnum hennar af gærunni en af einhverjum ástæðum er mér minnisstæðast þegar strákur sagði við hana: „Amma, af hverju veist þú allt?“ Þetta hélt hann án efa í raun og veru og hún sagði ekki frá neinni leiðréttingu á því.

Anna Einarsdóttir frá Holti skrifar um flækjustigin í lífinu og af hverju hlutirnir geti ekki verið eins og í gamla daga þegar allir hjálpuðu öllum. Sjálfum er mér mjög minnisstætt hvernig málum var fyrirkomið í Miklaholtshreppi á þeim tíma sem hún hlýtur að vera að tala um. Kjartan á Hofsstöðum var að byggja sér nýtt íbúðarhús. Þegar steypa skyldi upp húsið mættu allir verkfærir menn úr sveitinni á staðinn og hjálpuðu til allan liðlangan daginn. Ef Kjartan hefði boðið einhverjum greiðslu fyrir ómakið hefði það verið stórkostleg móðgun.

Á ég þá að blogga án þess að minnast á stjórnmál? Það er erfitt. Hvort var það Framsókn eða Sjálfstæðisflokkurinn sem var að tala um 100% húsnæðislán, fíkniefnalaust Ísland og flatan 20% niðurskurð á allar skuldir? Nei, við skulum vara okkur á loforðum sem hugsanlega er engin innistæða fyrir. Framkvæmum frekar það sem mögulegt er. 

IMG 1594Pollur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband