16.9.2012 | 20:19
1763 - Zamperini
Meðal margra annarra bóka sem ég hef byrjað á að undanförnu eru þrjár mér minnisstæðastar. Líklega er ég verri með það en flestir aðrir að byrja á bókum en klára þær ekki. Fjölyrðum ekki um það núna, en þessar þrjár bækur ætla ég að bera svolítið saman.
Bækurnar eru: Unbroken eftir Lauru Hillenbrand, Konan við 1000 gráður eftir Hallgrím Helgason og Mensalder eftir Bjarna Harðarson. Enga þessara bóka hef ég klárað og þessvegna er þessi dómur minn um þær afar ófullkominn.
Unbroken fjallar um Bandaríkjamanninn Louis Zamperini og samkvæmt formálanum er hún samansafn staðreynda og ekki á nokkurn hátt skáldskapur. Ljóst er þó að langir kaflar í bókinni eru byggðir á frásögn eins eða mjög fárra manna og þessvegna fyrst og fremst túlkun höfundarins. Louis Zamperini var allfrægur hlaupari fyrir síðari heimsstyrjöldina. A.m.k. var hann það í Bandaríkjunum. Tók meðal annars þátt í Ólympíuleikunum í Berlín 1936 og stóð sig allvel þar. Hann tók síðan þátt í Kyrrahafsstyrjöldinni sem flugmaður, var skotinn niður og lenti í fangabúðum Japana eftir mikla hrakninga. Heimkominn varð hann fljótlega alkóhólisti en frelsaðist síðar eftir að hafa farið á samkomu hjá Billy Graham.
Konan við 1000 gráður er skáldsaga, en byggir á æfi sonardóttur Sveins Björnssonar fyrsta forseta Íslands eins og flestir vita.
Mensalder er skáldsaga, en byggir á æfi Mensalders Mensalderssonar að Húsum í Holtahreppi (skammt frá Hellu). Mensalder þessi lést á seinni hluta síðustu aldar og hafði átt fremur illa æfi og búið við mikið basl og erfiðleika.
Fyrstnefnda bókin af þessum þremur finnst mér langbest. Aðallega er það vegna þess að hún er sönn en ekki ímyndun einhvers sem vill láta kalla sig rithöfund. Segja má að hún sé dæmigerð ævisaga. Báðar hinar bækurnar líða fyrir það að höfundarnir þurfa að koma fjölmörgum smáatriðum að og haga frásögn sinni í samræmi við það. Hallgrímur gerir það þó af meiri íþrótt og orðkyngi en Bjarni, sem mér finnst fyrna málfar sitt að óþörfu. Samt eru þessar tvær bækur um margt keimlíkar. Engin leið er að sjá hvað er raunveruleiki og hvað er hugarburður höfundanna. Endurtekningar eru margar og hlaupið er fram og aftur í tímanum eftir því sem höfundum þykir henta. Þeir eru greinilega ekki ánægðir með þær heimildir sem þeir hafa og finnst þeir þurfa frelsi til að gera það sem þeim sýnist.
Í fyrstu bókinni er sagan rakin í réttri tímaröð. Höfundur hefur greinilega haft úr afar miklu efni að moða en gerir því góð skil. Statistik um stríðið og margt annað er dreift um bókina en lesandanum leiðast þær tölulegu staðreyndir ekki vitund, þó slík fræði séu oftast nær afar þurr og leiðinleg.
Fyrir allnokkru var fjallað mjög í fréttum um erfðamál Roberts James Fischers og meðal annars sagt frá stúlku einni frá Filippseyjum sem sagt var að væri dóttir hans. Móðir hennar hélt þessu fram og lögfræðingur fyrir hennar hönd var svo aðgangsharður að lík Fischers var grafið upp, samkvæmt úrskurði hæstaréttar, til að ganga úr skugga um réttmæti kröfunnar. DNA-rannsókn leiddi í ljós að hún var það ekki. Lögfræðingur þessi var samt ekki af baki dottinn og hélt því fram að áreiðanlega hefði verið skipt um lík í gröfinni. Þá misstu dómstólar trú á manninum og fjölmiðlar hættu einnig að fjalla um málið. Sömuleiðis var efast um að Japanir kynnu að gefa fólk saman í hjónaband á þann hátt að íslenskir dómstólar gætu sætt sig við það. Svona starfa íslenksir dómstólar og fjölmiðlar.
Rekstraraðilar hóta að loka Kattholti. Samkvæmt frétt á mbl.is er bæjarstjórnum Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar kennt um þessa þróun mála. Þær styrki þá starfsemi sem þarna fer fram ekki nægilega mikið. Mér þykir sorglegt ef svo fer að ekki verði lengur hægt að snúa sér til neins ákveðins aðila með yfirgefna eða týnda heimilisketti og ketti sem af einhverjum ástæðum er nauðsynlegt að lóga. Lögreglan skilst mér að sé stikkfrí eins og flestir aðrir. Stofað hefur verið til söfnunar af minna tilefni.
Athugasemdir
Minnimáttar útigangs dýr og manneskjur eru víst ekki háttskrifaðar sálir hjá elítunni allsráðandi og samviskudeyfðu.
Söfnun fyrir útskúfuðum, væri svo sannarlega í anda mannúðar og skilyrðislauss kærleika. Var það ekki kirkjan sem eitt sinn boðaði skilyrðislausan kærleika? Mig minnir að ég hafi einhvertíma heyrt það!
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 17.9.2012 kl. 00:10
Takk, Anna.
Sæmundur Bjarnason, 17.9.2012 kl. 02:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.