1743 - DoctorE

Já, já. Ég held að það verði kannski einhver bið á því að ég setji upp nýtt blogg. Mér dettur nefnilega ekkert í hug.

Þetta Assange-mál er þannig vaxið að bresk stjórnvöld ættu sem minnst að skipta sér af því. Sporin hræða. Ef það heldur áfram svona lengi enn getur það farið að hafa pólitísk áhrif.

Hver er doctor e? Það er spurningin. Annars skiptir hún mig engu. Mér finnst allt í lagi að menn noti dulnefni. Auðvitað er samt hægt að misnota þann rétt eins og annan. Það er a.m.k nauðsynlegt að halda þeim möguleika opnum að menn geti sagt frá afbrotum fyrirtækja (t.d. í mengunarmálum) án áhættu fyrir sjálfa sig. Áreiðanlega verða alltaf einhverjir sem vilja gera mönnum það kleift.

Á sínum tíma ákvað ég að minnast reglulega á málið um Sögu Akraness og Kögunarmálið hans Teits. Bæði þessi mál eru farin að eldast og lítið gerist í þeim. Harpa Hreinsdóttir lætur okkur líklega vita ef eitthvað sérstakt gerist varðandi Sögu Akraness. Eflaust verður upplagt að rifja það mál stuttlega upp fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar. Stór hópur kjósenda kýs þó alltaf eins svo kannski er það til lítils. Teitur Atlason bloggar reglulega um Kögunarmálið og þar gerist lítið líka. Þó er því haldið vakandi en í stóra Akranesmálinu virðast allir vera hættir við málshöfðanir.

„Karlmaður um fertugt sem laminn var með glasi í miðborginni á Menningarnótt stökk út úr sjúkrabílnum þegar verið var að flytja hann undir læknishendur. Þrátt fyrir leit fannst maðurinn ekki aftur. Klukkutíma síðar var óskað eftir aðstoð lögreglu og hafði þá maðurinn snúið aftur á vettvang. Hann var mjög blóðugur eftir árásina. Í annað skiptið var honum komið í sjúkrabíl og tókst það í annarri tilraun að koma manninum á slysadeild.“

Þessi klausa er af mbl.is og þó ég sé búinn að stytta hana talsvert má vel stytta hana meira. Annars er það ekki þessvegna sem ég birti hana hér heldur er þetta greinilega ágætisefni í langa smásögu eða jafnvel skáldsögu. Takið eftir stóra M-inu í Menningarnótt. Þetta er nefnilega mjög menningarlegt.

Fór á bókasafnið áðan og fékk lánaðar jafnmargar hljóðbækur og lesbækur. Konuna við 1000 gráður fékk ég bæði sem hljóð og les. Er ekki enn búinn að gera upp við mig hvort ég nota. Ef ég held mig þá ekki við kyndilinn og ensku bækurnar. Er í mestu vandræðum með að velja mér bækur til að lesa. Byrja á mörgum en klára fáar.

Úr því sem komið er læt ég mér nægja að blogga. Undarlegur sá siður margra að gera lítið úr blogginu. Man vel eftir að hafa lesið á sínum tíma bloggið hans Ágústar Borgþórs og hann gerði jafnan lítið úr blogginu í samanburði við þau alvarlegu skrif sem hann fékkst við. Hef samt örugglega lesið mun fleiri blogg eftir hann en smásögur.

IMG 1360Er njólinn að taka yfir?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband