1735 - Flippaðar fullyrðingar

Allt orkar tvímælis þá gert er. Þetta er mjög áberandi varðandi byggingar. Nefna má Perluna, Ráðhús Reykjavíkur, Óseyrarbrúna, Þjóðarbókhlöðuna, Hringbrautarvitleysuna o.s.frv. Þegar frá líður þykja þessar byggingar mjög góðar og í mesta lagi er hægt að halda því fram að ráðist hafi verið í þær á röngum tíma. Svipað verður vafalaust með tímanum hægt að segja um Hörpuna, Hátæknisjúkrahúsið og Vaðlaheiðargöngin. Sagt er að allir vildu Lilju kveðið hafa.

Óspart er nú vitnað til Einars Þveræings og Grímseyjar þegar Núpó málið ber á góma, þó ekki sé hægt að segja að málin séu sambærileg. Smám saman snýst þetta svo yfir í venjulega þjóðrembu og verður að lokum að röksemd í ESB-deilunni. Sú deila verður áberandi og kann að skipta verulegu máli í næstu alþingiskosningum. Getur jafnvel haft mikil áhrif innan flokkanna og á prófkjörin sem e.t.v. hefjast strax í haust eða vetur. Ekkert bendir samt til að af inngöngu verði að þessu sinni.

Hættið að blogga og komið á fésbókina, þar er fjörið, sagði rithöfundurinn Sigurður Þór Guðjónsson fyrir nokkru á Moggablogginu, en nú virðist hann vera á fésbókinni öllum stundum og setja þar fram flippaðar eða fréttatengdar fullyrðingar á statusinn sinn. Einhver hirð er þar sem mjög oft svarar honum. Mér finnst líka eins og ég þekki hann, þó ég hafi aldrei hitt hann, en skrifa ekki oft á fésbókina hans. Hann er eiginlega jafnmikill holdgervingur Meistara Þórbergs og Davíð Oddsson er eftirmynd De Gaulles sáluga.

Ofgnótt fjölmiðlunar. Það er engum ætlandi að fylgjast með öllu þvi netblaðri, blöðum, bókum, ljósvakamiðlum o.s.frv. sem á boðstólum er. Það er ekki einu sinni möguleiki að fylgjast sæmilega með því sem áhugi manns beinist að hvað þá öðru. Svo koma Ólympíuleikarnir ofaná allt þetta og vinnan einnig hjá þeim sem á þeim aldri eru. Það er eins gott að ég skuli vera hættur að vinna. Samt næ ég ekki að fylgjast með nærri því öllu sem ég gjarnan vildi.

Jarðbundinn og fúll. Já, það er ég. Hvernig á eiginlega að vera öðruvísi og er það æskilegt? Eiginlega er allt öðruvísi en það ætti að vera. Ekki mundi ég hafa heiminn svona ef ég væri Guð. Samt er flest í einhverju undarlegu samræmi við allt annað.

Verð líklega að fara að lesa dánarfréttir enda ætti ég að vera orðinn nógu gamall til þess. Las um það á bloggi Önnu Kristjánsdóttur að Gaggi Mikk væri dáinn. Um daginn var líka jörðuð hér í Reykjavík dóttir Erlendar Magnússonar frá Eldborg í Hveragerði, en hann kannaðist ég dálítið við frá æskuárum mínum og dóttir mín þekkti vel þessa dóttur hans. Yfirleitt frétti ég seinastur manna um svona lagað og reyni eftir mætti að forðast jarðarfarir. Kemst þó líklega ekki hjá að mæta í mína eigin þegar þar að kemur.

IMG 1130Hengirúm af stærri gerðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband