1726 - Er fésbókin óttalega 2007?

Sú djúphugsaða speki birtist nýlega einhvers staðar á netinu að eftir því sem maður borðaði meira því feitari yrði maður. Semsagt meira að marka það hve mikið væri borðað en hve hreyfingin væri mikil. Slæm tíðindi fyrir líkamsræktarstöðvarnar og jafnvel stórmarkaðina líka. Brennslan er ekki vitund hraðari hjá þeim sem hreyfa sig mikið. Ávinningurinn af skokkinu núllast semsagt út með rjómatertunni (eða kálblöðunum) sem maður fær sér á eftir. Að neita sér um gotteríið er lykilatriði. Áður fyrr höfðu bara svo fáir efni á að éta á sig gat.

Mér finnst einna neikvæðast við Olympíuleikana að þeir skuli eiga sig sjálfir. Spillingin sem þrífst í skjóli þeirra er ótrúlega mikil. Einstakar ríkisstjórnir ráða þar engu. Setningarathöfnin er orðin alltof löng og leiðinleg. Kannski ég líka. Sennilega skemmta sjónvarpstökumennirnir sér best á OL því þeir eru þó á kaupi. Góðir samt.

Fésbókin er að mestu orðin einhver „kjaftavettvangur“ og ekkert verri fyrir það. Þangað er fyrirhafnarlítið að skjótast til að spjalla við kunningjana ef þeir skyldu vera við tölvu á þeim tíma. Sem þeir eru oftast. En skelfing er þetta „overfladiskt“. Myndbirtingar, tilvísanir og almenn leiðindi eru að verða allsráðandi. Bloggið er líka að breytast í eitthvert samfellt tuð. Og ég tek þátt í því. (Setningar mega ekki byrja á „og“.)

Það er langauðveldast að blogga þannig að maður vaði úr einu í annað eins og ég geri yfirleitt. Málæðið má þó ekki verða of yfirþyrmandi. Ekki þarf að segja frá neinu. Sögur eru leiðinlegar, nema þær séu skemmtilegar. Þá eru þær ekki leiðinlegar.

Baggalútshúmor er bráðskemmtilegur. Sporgöngumenn þeirra eru aftur á móti hundleiðinlegir. Svo leiðinlegir að sumir trúa þeim!! Nefni engin nöfn. Gæti verið hættulegt.

Vel er hægt að eyða tímanum þessa dagana við sjónvarp frá Ólympíuleikunum. Að hugsa sér samt hve miklum peningum er eytt í þessi ósköp. En maður ræður svosem engu um það. Eins gott að horfa á þetta fyrst maður getur.

Einu sinni fannst manni að maður þyrfti að sjá allar íslenskar kvikmyndir og „Stella í orlofi“ var þar á meðal. Af einhverjum ástæðum er hún minnisstæðari en margar aðrar. Kannski horfi ég á hana í sjónvarpinu í kvöld.

IMG 0977Ég er bara að hvíla mig aðeins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband