1725 - Núpó á Fjöllum o.fl.

Er eiginlega kominn í hálfgerð vandræði varðandi gömlu myndirnar. Dálítið stefnulaust að birta bara einhverjar slíkar. Ætla að íhuga málið svolítið betur. Á engar alveg tilbúnar eins og er.

Mikið er óskapast útaf Núpó og Grímsstöðum á Fjöllum. Hef sennilega sjálfur skrifað eitthvað um það mál. Sumum finnst þó alls ekki nóg fjallað um það. Í mínum augum er Núpó ósköp venjulegur útrásarvíkingur. (Að vísu kínverskur). Hvað gert verður við landið kemur svo bara í ljós. Braskað verður með það ef hægt er. Einhverjir græða og einhverjir tapa. Hvort framkvæmdir verða þar eða ekki fer bara eftir aðstæðum í framtíðinni. Hvort áhrif Núpós (og kínversku stjórnarinnar) á íslenska löggjöf verða mikil eða lítil kemur svo bara í ljós og verður sennilega á endanum pólitísk braskákvörðun.  

Eftirlauna- lífeyrissjóðs- og ellistyrksmál öll eru óhóflega flókin. Samspil skatta- tryggingar- atvinnuleysismála, lífeyrissjóða og banka er ekki auðvelt reikna út með vissu og auk þess þarf að gera ráð fyrir ýmsu og allskonar breytingum svo erfitt er að sjá fyrir hvernig best er að haga sér varðandi þau mál öll. Ekki dugir að fljóta sofandi að feigðarósi því margs konar réttindum (jafnvel flestum) verður að bera sig eftir. Nú er ég að verða sjötugur og ekki seinna vænna fyrir mig að reyna að gera mér grein fyrir þessum málum öllum.

Fór á bókasafnið í dag og fékk lánaðar ýmsar bækur. Meðal annarra „Truntusól“ eftir Sigurð Guðjónsson. Held jafnvel að ég hafi ekki lesið þá bók á sínum tíma. Veit samt um hvað hún fjallar.

Vissulega er hægt að setja saman heilu bækurnar og kvikmyndirnar um tómt rugl. Þannig er píramýdafræðinni farið og t.d. hugmyndum Eriks von Daniken um hina guðlegu geimfara. Ég trúi einfaldlega alvöru vísindamönnum, eins og Carli Sagan og Richard Dawkins, betur en þeim sem búa til sín fræði frá grunni (og leyfa engar efasemdir). Deilurnar milli stuðningsmanna þróunarkenningarinnar og sköpunarsögunnar eru þó um margt athyglisverðar. Svo enginn sem þetta les velkist í vafa, þá er ég fylgismaður þróunarkenningarinnar og styð alls ekki að þetta tvennt sé lagt að jöfnu og fái álíka mikið vægi í skólum.

Sumir sem andmæla þróunarkenningunni og syngja hjáfræðum allskonar og gervivísindum lof hafa brynjað sig með allskonar efni og mæla með hverskyns útgáfum og túlkunum á sköpunarsögunni. En hvers virði er guðstrúin og sköpunarsagan ef allar túlkanir eru jafngildar?

Þó séra Sveinn Víkingur (blessuð sé minning hans) hafi spurt með þjósti einhvern tíma í Menningarsögutíma á Bifröst hvort nokkur í bekknum tryði því í alvöru að lífið hafi orðið til fyrir einhverja tilviljun (fremur en vegna guðlegrar forsjónar) hafði ég ekki uppburði í mér þá til að andmæla honum og hefði farið mjög halloka í rökræðum um slíkt. Engu að síður var trú mín þá, hafði verið lengi og er enn, að guðræknishjalið í fólki væri oftast afskaplega innantómt og lítils virði.

Sé hægt að tala um ópíum fólksins hefur trúin verið það í gegnum tíðina. Illvirki sem framin voru í nafni kirkjunnar fyrr á öldum skipta samt afar litlu máli í dag. Ofbeldi einstaklingshyggjunnar sem kristallast í nútíma hryðjuverkum, er ekkert betra en blind fylgni við kennisetningar. Í stjórnmálum er það miðjumoðið sem er hjálpræðið. Ofbeldi af öllu tagi, hvort sem það kemur frá vinstri eða hægri er fordæmanlegt.

Með úrskurði sínum um ógildingu stjórnlagaþingskosninganna má segja að hæstiréttur hafi opnað það ormabox (eða Pandórubox - eins og Ingibjörg Sólrún sagði svo eftirminnilega) sem erfitt sé að loka. Hér eftir má búast við því að allar kosningar verði kærðar til hæstaréttar hvort sem þær líkjast stjórnlagaþingskosningunum eða ekki.

IMG 0971Listsýning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef meiri áhyggjur af íslenskum útrásaraulum, þeir hafa sýnt að ekkert er þeim heilagt*...

* Heilagt smeilagt ;)

DoctorE 27.7.2012 kl. 09:31

2 identicon

Alveg er þetta ágæt sýning!

asben 29.7.2012 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband