1720 - Ef ég fer, þá fer ég ber

Untitled Scanned 05Gamla myndin.
Bjössi 4.

Skáldsöguruglið í mér virðist einkum ætla að verða lykill að fyrirsögnum og vissri röðun í blogginu. (Hugleiðingar um hitt og þetta + dægurmálefni, sem kannski er lítið að marka.) Við svo búið má helst ekki standa. Verð að reyna að taka mig á. Eitt af því fáa sem ég hef grætt á þessu er að nú „þorir“ helst enginn að kommenta hjá mér.

Segja má að það sé bættur skaðinn þó fáir kommenti. Þeir hafa aldrei verið margir nema ég hafi sérstaklega reynt það. T.d. með því að blogga um trúmál. Hrannar Baldursson í Noregi (don.blog.is) bloggar oft skemmtilega og ég kommenta stundum hjá honum. Hann er allur í heimspeki og trúmálum og oftast eru margir sem kommenta hjá honum. Gaman að því.

Hinn möguleikinn er auðvitað að hætta þessari vitleysu og skrifa bara áfram eins og ég er vanur og hafa fyrirsagnirnar stundum heilmikið útúr kú. Eiginlega lítur sá möguleiki betur út.

Veit ekki af hverju ég hamast alltaf svona við að blogga. Skil það eiginlega ekki, en mun eflaust halda því áfram meðan Moggabloggið heldur því statt og stöðugt fram að talsvert margir lesi þetta. Ímynda mér ekki að það sé bara vegna þess að mér tókst að komast (kannski með svindli) á stórhausalistann. Kannski eru það einkum ættingjar og vinir sem lesa þetta og svo getur vel verið að einhverjir hafi svipuð áhugamál og ég.

Eitt af leyndarmálunum við að blogga svona mikið er að láta flest flakka. Ef mér dettur eitthvað sæmilega snjallt í hug skrifa ég um það strax en hugsa ekki sem svo að gott væri að geyma það og nota síðar. Þá verð ég nefnilega búinn að gleyma því. Ef ég væri ekki svona hæfilega gleyminn yrðu bloggin mín sennilega miklu lengri. Ennþá get ég a.m.k. hætt þegar það er kominn tími til þess.

Einu sinni var Moggabloggið svo merkilegt að menn (Stefán Pálsson) létu sig ekki muna um að bölva því daglega. Nú er öldin önnur og Mogginn virðist skammast sín fyrir að hafa breytt blogglandslaginu á Íslandi. Reynir eftir megni að fela aðganginn að blogginu frá þeim sem álpast á mbl.is af öðrum ástæðum.

Á myndinni af knattspyrnuliðinu sem ég birti í gær er ég í markmannshlutverkinu. Tvær ástæður (jæja, kannski þrjár) voru einkum fyrir því að ég kunni betur við mig í markinu en annars staðar á vellinum 1. Ég átti hnjáhlífar sem ég veit ekki hvernig ég komst yfir. 2. Ég gat spilað þó ég ætti enga knattspyrnuskó. 3. Ég var viðbragðsfljótur. Hefur t.d. aldrei þótt neitt merkilegt þó menn geti gripið það sem þeir missa áður en það lendir á gólfinu.

Fyrstu og jafnvel mestu töffararnir sem ég man eftir úr Hvergerði voru Dóri Höskulds (sonur Höskuldar Björnssonar, listmálara) og Haukur prestsins (sonur séra Helga Sveinssonar). Eitt sinn keyrðu þeir fram og aftur um þorpið og sungu hástöfum og með ýmsum tilbrigðum (jafnvel í falsetto) eftirfarandi:

Ef ég fer,
þá fer ég ber.
Annars ekki.

Ekki veit ég af hverju þeir gerðu þetta, en ég man vel eftir að hafa heyrt þetta.

Það er bara venjulegt skilst mér að veðurfarið sé óvenjulegt. Ástæðulaust að gera sér rellu útaf því. Annars er óþarfi þessa dagana að fara í eithvað utan yfir sig ef maður skreppur út. Þægilegt það. Mætti vera oftar. Þetta er Kanaríeyjaloftslag núna, en jörðin ekki nærri eins skrælnuð.

IMG 0910Vatn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband