1708 - Um forsetakjörið (í síðasta sinn - væntanlega)

Untitled Scanned 19Gamla myndin.
Áhorfendur við sundlaugina í Laugaskarði.

Setti umfjöllun um SEO á bloggið fyrir nokkru og einhverjar hugleiðingar um það sem ekki má nefna hér. Áslaug var að brenna gler í leirofninum í gærkvöldi (fyrrakvöld), en ég gat ekki beðið eftir að sjá það og nú er hún sofandi. Fæ samt áreiðanlega að sjá það á eftir. Já, já. Það tókst bara bærilega. Sumir bakkarnir eru alveg ágætir.

Held ég hafi sagt það áður, en mér finnst íslensku forsetakosningarnar skipta afskaplega litlu máli. Hins vegar eru forsetakosningar í haust sem skipta verulegu máli. Þar á ég við forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Sennilega er Obama samt öruggur með að sigra Romney þar. Man að ég hneykslaði einhvern mikið með því að segja á sínum tíma að ég sæi margt líkt með kosningabaráttu Obama og JFK forðum daga. Mörgum vinstri manninum finnst Obama hafa brugðist, en mér finnst það ekki. Hugsunarhætti Bandaríkjamanna verður bara ekki breytt á svipstundu.

Mér finnst að þeir sem skrifa langlokur (eða stuttlokur) um forsetakosningarnar þurfi að upplýsa lesendur sína í lokin um hvern þeir ætli að kjósa. Oftast fer þetta ekki milli mála en sumar greinarnar eru þannig að kostur og löstur er sagður á hverjum einasta forsetaframbjóðanda. Kjósendur (og greinarhöfundar líka) hafa bara um þrjá kosti að velja: Kjósa einhvern frambjóðendanna, gera atkvæði sitt ógilt eða sitja heima. Ef fólk leggur sig niður við að lesa greinar um þessi mál finnst mér það eiga heimtingu á að vita afstöðu greinarhöfundar.

Óþarfi er að rífast fram og aftur um Icesave núna. Það mál er frá og engin hætta á að það komi aftur. Er samt ekki að fullu lokið. Skiptir ekki máli varðandi þær kosningar sem nú standa fyrir dyrum. Íslendingar munu standa saman í því máli. Engin hætta er á öðru. Sumir virðast þó gera ráð fyrir að það mál hjálpi sínu forsetaefni. Svo er ekki. Hættan á öðru eins máli er nánast engin. Afskiptasemi eða afskiptaleysi forsetans um stjórn landsins er nánast það eina sem skiptir einhverju máli.

Eitt enn varðandi forsetakosningarnar. Ég þekki Eirík Jónsson svolítið. Les jafnvel stundum bloggið hans, þó ég sé hættur að nenna því nema endrum og eins núorðið. Það hvernig hann lætur útí Þóru Arnórsdóttur herðir mig í þeirri fyrirætlun að kjósa hana. Forsetakjörsumfjöllun lokið. Punktur.

„Þau eru súr“, sagði refurinn og lallaði í burt þó hann næði ekki til vínberjanna sem hann langaði samt svo mikið í. Minnir að þessi saga sé úr Dæmisögum Esóps (Aesop´s fables). Man vel eftir þeirri bók frá því ég var lítill. Sennilega eru margar siðferðisviðmiðanir manns þaðan komnar.

Þegar maður var með timburmenn eftir fyllirí í gamla daga var manni sagt að besta ráðið til að losna við þá væri að drekka brennivín ofan í þá. Þegar svo stóð á var áfengi það síðasta sem mann langaði í og þessvegna þurfti karlmennsku til að koma þeim fjára ofan í sig. Þetta var samt sagt fullum fetum en ekki látið fylgja, það sem flestir þóttust þó vita, að með slíku væru mörg skrif stigin á væntanlegri drykkjumannsbraut. Annað sem gjarnan var rifist um var hvort menn væru betri bílstjórar aðeins hífaðir eða ekki. Ég man að ég aðhylltist þá skoðun að á vissu stigi drykkjuskapar væri maður betri bílstjóri en ella en hefði tæpast sjálfur andlega burði til að ákveða hve lengi maður væri mátulega fullur fyrir slíkt.

Fór á bókasafnið í gær og fékk fullt af bókum. Get kannski um þær hérna seinna meir. Þarf að lesa þær fyrst. Les samt lítið af íslenskum bókum þessa dagana, kyndillinn á hug minn allan.

IMG 0684Þarna er Evrópufanturinn sjálfur á ferð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband