26.6.2012 | 10:09
1706 - Hvaða frambjóðendur má bjóða þér?
Gamla myndin.
Áhorfendur við sundlaugina. Þakið á húsi Hjartar frá Núpum í baksýn fyrir miðju og svo Laugaskarð.
Hannes: Vonlaus, en ágætt að fá hann inn í íslenska pólitík.
Ari Trausti: Kannski traustur en hefur ekki mikla von.
Andrea: Þekki hana ekki og veit lítið um hana. Vonlausust allra.
Herdís: Forsetaleg og hætt við að hún líkist Ólafi með tímanum.
Ólafur: Kominn á síðasta söludag.
Þóra: Landsmóðurleg og vill vera það.
Ertu ekki búin(n) að velja? Þá verður þú að flýta þér. Þeir gætu farið að verða uppseldir. Nei, þessar kosningar eru ekkert spennandi. Snilldin hjá Ólafi var að fá Davíð til að styðja sig. Kannski vinnur hann útá það. Þóra gæti samt látið hann finna fyrir sér.
Þóra er ekki kristinnar trúar segir í fyrirsögn í einum fjölmiðlinum. Allt í einu er það farið að skipta mestu máli. Ætli hinir frambjóðendurnir séu allir kristnir? Ef áróðurinn breytist í hefðbundnar trúarbragðadeilur ætti Þóra ekki að þurf að örvænta. Íslendingar eru nefnilega alls ekki kristnir. Eftir því sem líður á þessa undarlegu kosningabaráttu er ég farinn að vorkenna Þóru meira en öðrum að þurfa að standa í þessu skítkasti. Í upphafi baráttunnar fékk maður á tilfinninguna að henni væri í meira mæli en hinum frambjóðendunum att út í þetta. Andstæðingar hennar túlka þetta eflaust þannig að stjórnmálaflokkarnir (Samfylkingin) hafi gert það, en ég held að það hafi verið stuðningmennirnrir (fésbókin) sem gerði það.
Maður verður víst að fylgja straumnum og skrifa aðallega um forsetakosningarnar. Mér leiðast þær og þær eru ásamt með fótboltanum búar að setja allt sem venjulegt er úr skorðum. Eiginlega ætti maður að stuðla að því að fók gleymi sér í smástund og hætti að hugsa um þessa vitleysu alla saman. Þessvegna er ég að hugsa um að setja hérna í lok bloggsins gamla sögu sem ég fann hjá mér. Sennilega er ég búinn að birta hana áður, en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Mýs og kisur eru líka alltaf í tísku.
Einu sinni var lítil músarstelpa sem hafði komið undir í þvottahúsinu hjá Indriða G. Þorsteinssyni við Borgarhraun í Hveragerði. En förum ekki nánar úti það.
Nú var hún semsagt stödd úti á túni að leika sér og leita að einhverju til að borða. Mamma hennar hafði sagt henni að hún væri orðin svo stór að hún gæti séð um sig sjálf. Sumir bræður hennar og systur höfðu þegar yfirgefið hreiðrið og ekki komið aftur. Mýsla hafði ekki hugmynd um hvernig þeim hafði reitt af.
Allt í einu var stór og ljótur köttur kominn alveg að henni. Jæja, kettir eru svosem aldrei ljótir nema þeir séu eyralaus og örótt gömul fress. Þetta var grönn og myndarleg þrílit læða sem greip hana í kjaftinn og hljóp með hana inn í næsta hús. Þar setti hún hana frá sér og fór að leika sér að henni. Mýsla litla var stjörf af hræðslu og ef hún ætlaði að koma sér í burtu var loppan á kettinum óðar komin í veg fyrir hana.
Loksins tókst henni þó að komast undir kommóðu sem þarna var. Kötturinn nennti ekki að gá að henni og fór að hugsa um eitthvað annað enda saddur vel.
Eftir nokkra stund ákvað Mýsla að gá að undankomuleið og reyna að komast út. Þegar hún var nýkomin undan kommóðunni varð hún vör við fólk. Það sá hana víst líka því nú hófst mikill eltingaleikur. Mýsla endasentist undir allskyns húsgögn en þar var enginn friður og hún var hrakin þaðan jafnóðum.
Á endanum kom mannkertið sem þarna var með pappahólk einn mikinn og langan og setti á gólfið upp við vegg. Mýsla hljóp að honum og skaust inn í hann. Þá tók ekki betra við því hann tókst á loft og var samstundis lokað beggja megin. Eftir drykklanga stund var annar endinn opnaður og hinn settur í háaloft. Mýsla átti því ekki annars kost en að fara út úr hólkinum þeim megin sem opið var.
Þá tók ekki betra við. Hún lenti ofan í flösku sem var rétt nægilega víð að ofan til þess að hún kæmist þar niður. Á botninum var flaskan samt rúmbetri og þar gat mýsla litast um. Forvitin augu störðu á hana úr öllum áttum. Fólkið var samt ekkert ákaflega margt og innan tíðar kom ostbiti fljúgandi niður í flöskuna. Mýsla nartaði aðeins í hann fyrir siðasakir en hún var satt að segja of skelfingu lostin til að geta borðað.
Allt í einu segir mannkertið sem þarna var við litlu manneskjuna sem líka var þarna:
Viltu ekki bara fara með hana með þér í skólann og sýna krökkunum hana?"
Jú, jú."
Ekki er að orðlengja það að flöskunni var nú skutlað í skólatösku og litla manneskjan valhoppaði af stað í skólann.
Þegar þangað kom störðu allir á Mýslu. Nú voru miklu fleiri viðstaddir sýninguna. Heill krakkahópur sem starði á þetta furðudýr. Síðan kom þvílík skæðadrífa af ostbitum, káli, gulrótum og allskyns dóti að Mýsla litla varð logandi hrædd. Reyndi samt að narta í eitthvað af því sem til hennar kom því henni skildist að hún ætti að gera það.
Kennarinn kom nú á vettvang og var sömuleiðis stórhrifinn af Mýslu litlu. Allir störðu opinmynntir á hana og fylgdust með þegar hún reyndi að fá sér að borða.
Svo urðu krakkarnir leiðir á þessu og einhver stakk uppá því að sleppa músinni. Það var strax samþykkt og krakkaskarinn marséraði útí móa og sturtaði músinni þar úr flöskunni. Mýsla var svolitla stund að átta sig á frelsinu en tók svo undir sig stökk og svo annað og annað og annað.
Krakkarnir sem höfðu ætlað að fylgjast vel með því hvað músin tæki sér fyrir hendur misstu fljótlega af henni. Mýsla þorði samt ekki annað en halda áfram að stökkva fram og aftur milli þúfnanna þangað til hún fór að þreytast.
Allt í einu sá hún yndislega holu milli nokkurra steina og skaust þangað. Þegar inn var komið varð hún fljótlega vör við að einhver átti heima þarna. Þrátt fyrir myrkrið varð hún nefnilega vör við þrusk þar inni.
Hver er þarna?" Tísti Mýsla litla.
Það er bara ég," var tíst á móti.
Mýsla heyrði að þetta var líka mús og varð allshugar fegin. Hljóp inn eftir holunni, hitti músina og fann strax að þetta var músastrákur. (Hann var nefnilega svo illa rakaður.) Þau fóru svo strax að fást við að búa til músarunga og í fyllingu tímans fæddust í holunni sex músarungar en þessi saga fjallar ekkert um þá.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.