25.6.2012 | 11:32
1705 - Þrælahald nútímans
Gamla myndin.
Áhorfendurnir, Fagrihvammur, Þráinshús og barnaskólinn í baksýn.
Þrælahald nútímans er talsvert öðruvísi en áður var. Það er og verður ætíð þannig í því kerfi sem við búum við, að einungis mjög lítill hundraðshluti fólks getur orðið yfirstétt. Lífskjör hér á Vesturlöndum hafa batnað svo mikið (á kostnað annarra heimshluta) að þrælarnir í dag hafa það eins gott og jafnvel betra efnalega séð en þrælaeigendurnir eða yfirstéttin hafði það áður.
Eðli kerfisins breytist þó ekkert. Þrælagreyin ráða ósköp litlu þó stöðugt sé reynt að láta þá halda að þeir ráði öllu. Það er ennþá hægt að reka þá úr vinnu og ráðskast á fjölbreyttan hátt með líf þeirra. Já, og gera næstum hvað sem er við þá. Auðvitað er samt ekki lengur hægt að drepa þá og pína nema sérstök ástæða sé til.
Ef yfirstéttin eða þrælahaldararnir halda t.d. að veldi sínu sé ógnað skirrast þeir ekki við að finna einhverjar tylliástæður til að láta lögin sín gera kleyft og leyfa að drepa og pína eða gera óskaðlega þá sem þörf er á. Uppljóstrun um raunverulega hegðun þrælahaldarann er t.d. afar illa séð.
Engu máli skiptir hvað kerfið er kallað sem notað er. Þrælarnir hafa fundið upp kerfi sem byggist ekki á jafnflóknum umbununaraðferðum og jafnvel reynt að láta það taka við af hinu. Það hefur samt ekki tekist vel og ófullkomleiki mannkynsins er slíkur að frumskógarlögmálið þar sem hver reynir að drepa annan, sem mildilegast þó, virðist á margan hátt henta betur.
Í örstuttu bloggi er auðvitað ekki hægt að minnast á öll heimsins vandamál en vandamál þrælahaldarana koma líka öðru hvoru í ljós. Umbununarkerfi þeirra, sem byggist á peningum, hagvexti, stórfyrirtækjum, blokkamyndun, náttúrueyðingu og þess háttar er ekkert sérstaklega traust og kreppur hrjá það reglulega. Þá geta komið tímabil þar sem þrælahaldararnir neyðast til að hafa hægt um sig um sinn, en þeir halda jafnan völdunum og gæta þeirra mjög vel. Fyrr eða seinna ná þeir svo tökum á umbununarkerfinu aftur og geta þá haldið leiknum áfram.
En er nokkuð verra að vera þræll en þrælahaldari? Um það má deila. Þrælahaldararnir hafa sínar þyrlur og þotur en þurfa líka að sjá um að viðhalda kerfinu. Ef lífskjör þrælanna eru nógu góð þurfa þeir litlar áhyggjur að hafa af þrælahöldurunum. En hvenær eru þau nógu góð? Þar liggur efinn. Og hver túlkar og skilgreinir það? Eiga sem jöfnust lífskjör allra eitthvað betur við mannkynið? Hægt er að hræra endalaust í fólki með trúarkenningum og hverskyns hindurvitnum og fá það jafnvel til að trúa því að jöfnuður sé óæskilegur.
Fésbókin er verkfæri andskotans. Það hef ég reyndar alltaf sagt en það er sífellt að renna betur og betur upp fyrir mér. Nú er t.d. næstum ómögulegt að komast útúr henni aftur ef maður hefur álpast þangað einu sinni. Tölvukerfið hangir bara og gerir ekki neitt ef valin er þar skipun sem segir tölvunni að fara útúr fésbókarkerfinu og gera eitthvað annað. Auðvitað er engin nauðsyn að fara útúr kerfinu nema manni sé eitthvað illa við fésbókina. Eins og mér. Ennþá er lítill vandi að loka öllum gluggum og byrja bara uppá nýtt. En það er ekki aðferð sem hugnast fésbókarliðinu. Helst á hanga þar öllum stundum. Heimsyfirráð eða dauði er mottó þeirra sem þar ráða.
Stórfyrirtækin vilja ráða tölvuhugsun fólks ekki síður en öðru. Þar er barist um stærðina fyrst og fremst. Þegar tölvufyrirtæki, eða svosem hvaða fyrirtæki sem vera skal, er orðið nógu stórt (samkvæmt eigin skilgreiningu) reynir það að stækka enn meir með því að hætta að borga skuldir sínar. Sé það orðið mun stærra og öflugra en sá sem lánar því, getur það látið hann sitja og standa eins og því sýnist.
Núna einhverntíma á næstunni, eða a.m.k. á næstu árum eða áratugum, mun þessi frumuhópur sem ég hef vanist að kalla mig gefast upp á streðinu og hætta að virka. Hvað tekur þá við? Hvað verður þá um sjálfið sjálft? Það er milljón dollara spurningin. Er nokkur leið að komast að því? Það virðist ekki vera. Samt vilja allir fá sem gleggstar upplýsingar um þetta atriði. Um það hverfist næstum allt. Trú, trúleysi, himnaríki, helvíti o.s.frv. Einu sinni héldu menn að vísindin mundu skera úr um þetta. Sú trú virðist á undanhaldi. Sennilega fáum við aldrei að vita það.
Forsetakosningarnar snerta mig undarlega lítið. Mér finnst litlu máli skipta hver verður forseti. Finnst þetta eins og hver annar leikur. Forsetinn ræður engu. Að hafa Ólaf áfram gerir leikinn kannski pínulítið auðveldari hjá útrásarvíkingunum, en er það nokkuð verra? Er ekki bara ágætt að láta þá halda að þeir geti eitthvað?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.