31.5.2012 | 09:21
1681 - Óli og Þóra
Þessi mynd er frá Garðyrkjustöð Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi. Þarna er horft í gegnum tvö gróðurhús og vinnuskúrinn sem var áfastur þeim. (8 og 9) (líklega eru þá 10 og 11 til hægri).
42 % vilja leigja Huang Nubo segir í stríðsletursfyrirsögn í Fréttablaðinu. Sennilega er þetta alveg rétt. Ég hugsa að ég mundi vilja taka hann á leigu ef leigan væri ekki of há. Ætli hann sé örugglega til leigu? Ég hef nefnilega mjög gaman af að snúa útúr fyrirsögnum. Þeir sem þær semja hugsa oft ekki mikið. A.m.k. ekki um hvernig misskilja megi þær. Það finnst mér samt vera næstum aðalatriðið. Það er nefnilega ekki nóg að muna hvernig krydsild á dönsku varð að kryddsíld á íslensku, heldur er oft fróðlegt að reyna að setja sig í fótspor þeirra sem bara lesa fyrirsagnir.
Leðjuslagurinn milli Óla og Þóru heldur áfram. Hann kallaði hana puntudúkku eða eitthvað í þá áttina og núna segir hún að hann sé helsta vandamálið í íslenskum stjórnmálum. Það er nú óþarfi að láta svona. Trúi því ekki að margir taki mark á svonalöguðu. Frá mínum bæjardyrum séð vill Ólafur breyta íslensku stjórnarfari á þann veg að forsetinn ráði sem mestu. Þóra vill aftur á móti að fólk muni eftir Kristjáni Eldjárn og Vigdísi Finnbogadóttur og afskiptaleysi þeirra. Um það finnst mér málið snúast. Þó Alþingi Íslendinga sé ákaflega misheppnað um þessar mundir, er ekki þar með sagt að þingræði eigi að vera úr sögunni. Beint lýðræði getur ekki þrifist í nútímaþjóðfélagi. Þá er fulltrúalýðræðið skárra. Forsetinn á að vera öryggisventill, en aðallega þó til skrauts.
Aðstoðarmaðurinn (sem kann á Akraneseldavélina) er ekki ánægður með að vera bara kallaður aðstoðarmaður, enda svosem engin furða því hann (hún) ber ábyrgð á flestöllu sem ég læt ofan í mig og þar með líka á því að ég skuli enn vera lifandi þrátt fyrir háan aldur. Þetta datt mér í hug áðan þegar ég sat í bílnum (okkar) og maulaði kartöfluflögur sem ég hafði keypt (í leyfisleysi).
Svo var mikill Satans kraftur
að saltaðir þorskar gengu aftur.
Þetta skilst mér að Grímur Thomsen hafi ort. Kannski hann hafi búið á Bessastöðum þá. Krafturinn á Bessastöðum virðist vera mikill. Margir vilja a.m.k. komast þangað. Þegar Valbjörn stökk á stöng, þá var ei til Bessastaða leiðin löng. Var það annars Sveinbjörn en ekki Valbjörn sem stökk á stöng? Man það ekki með vissu, en held endilega að Þórarinn Eldjárn hafi ort eitthvað um þetta og líka Möve-kvæðið. Þar var margt vel sagt.
Sem ég var farinn að halda að ég hefði sérhæfileika til bloggskrifta fékk ég orðsendingu frá Þóru Arnórsdóttur um að hún samþykkti vinarbeiðni mína á fésbók. Man samt ekki eftir að hafa óskað eftir fésbókarvináttu hennar. Hef lent nokkrum sinnum í svipuðu undanfarið en er fyrir löngu hættur að safna fésbókarvinum. Sennilega ætti ég frekar að safna fésbókaróvinum. Ha ha, þessi var nokkuð góður. Sukkerberg væri varla ánægður með mig nema þá helst fyrir sykurneysluna. Hún er oft ótæpileg.
Jæja, þetta er nú orðið gott. Búinn að sofa á þessu öllu eins og vera ber. Förum sennilega til borgar óttans í dag og þá auðvitað í gegnum rörið. Annars eru miðarnir í það að verða búnir og Hvalfjörðurinn fallegur í blíðunni.
Athugasemdir
Skella sér bara á hann Ara, er hann ekki minnst steiktur.. eða kannski að halda í óla til að spara peninga. Við höfum ekki efni á að halda uppi stóði af súperofuröryrkjum
DoctorE 31.5.2012 kl. 09:35
Þú ert Sæmundur eitthvað að misskilja orð Ólafs er hann nefndi orðið ´´puntudúkkur,,. Ólafur notaði þetta orð fyrst árið 2004,og hefur oft notað þetta orð er hann hefur verið spurður um hlutverk forsetans.
Hann hefur lýst starfi forsetans,og oft tekið fram að forsetinn ætti ekki að vera sem puntudúkka.
Númi 31.5.2012 kl. 09:46
DoctorE, ég kannast við Ara Trausta og er jafnsannfærður um að hann gæti orðið ágætur forseti og ég er um að tími ÓRG sé liðinn.
Númi, orðið "puntudúkka" hefur ákveðna merkingu og notkun Ólafs á því orði hefur ekkert með þá merkingu að gera.
Sæmundur Bjarnason, 31.5.2012 kl. 10:41
þAÐ SKIPTIR MÁLI Í HVAÐA SAMHENGI ORÐ ERU SÖGÐ.
Númi 31.5.2012 kl. 10:54
Jamm, ég hugsa að Ari sé sá sem best væri að fá í þetta hlutverk; að mestur friður muni ríkja með hann.
DoctorE 31.5.2012 kl. 11:52
Ég er hræddur um að allt sé að falla Ólafi í hag. Fínt fyrir hann ef atkvæði dreifist sem mest milli hinna frambjóðenda. EES, Samfylkingartenging og málskotsmálin þvælast fyrir Þóru þannig að hún á varla séns frekar en aðrir mótframbjóðendur Ólafs.
Emil Hannes Valgeirsson, 31.5.2012 kl. 16:22
Óli/Eða sá sem vinnur verður að vinna með yfirgnæfandi meirihluta.. .annars þarf að kjósa á milli 2 efstu úr fyrri kosningu.
Annað er ótækt og óréttlátt..
DoctorE 31.5.2012 kl. 16:40
Röksemdin fyrir því að ekki er kosið á milli 2ja efstu hefur löngum verið sú að það tæki því ekki vegna þess að þetta sé í raun valdalaust embætti. Sú röksemd á varla við lengur.
Emil Hannes Valgeirsson, 31.5.2012 kl. 20:11
DoctorE mér finnst þú eyðileggja fyrir sjálfum þér með því að tala um "súperofuröryrkja" og er heldur ekki sannfærður um að mestur friður yrði um Ara Trausta. Hvað um Herdísi?
Sæmundur Bjarnason, 31.5.2012 kl. 22:35
Emil Hannes, það er ekki víst að atkvæðin dreifist jafnt á aðra frambjóðendur en Óla. Þetta með valdaleysið er samt alveg rétt hjá þér. Breytingin í að kjósa aftur gerist ekki bara sisvona, DoctorE. Kjörið getur vel orðið ótækt og óréttlátt.
Sæmundur Bjarnason, 31.5.2012 kl. 22:40
Er forseti ekki það.. útvalin á ofurbótum, skattlaus jafnvel.
Þetta var svo sem ok í den, í dag er forsetaembætti tímaskekkja
Ef Óli myndi vinna með 26% atkvæða... gæti hann þá talist vera forseti per se; Ég segi nei
DoctorE 1.6.2012 kl. 09:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.