1676 - Blogg um blogg

x7Gamla myndin.
Hef ekki hugmynd um hvaða bær þetta er.

Þeim til upplýsingar og uppörvunar sem gaman hafa af bloggskrifum og spekúlera dálítið í þeim get ég sagt að þegar ég skrifa ekki neitt koma samt um 35 til 40 heimsóknir á síðuna mína daglega. Ef ég skrifa eitthvað (næstum sama hvað) fjölgar heimsóknunum verulega og fara gjarnan í svona 100 til 150. Ef ég reyni svo að skrifa um eitthvað merkilegt sem mikið er í fréttum þann daginn og hef fyrirsögnina krassandi (eða nafn sem mikið er í fréttum) geta heimsóknirnar vel farið í svona 3 til 4 hundruð eða jafnvel meira. Hef ekki athugað hvaða áhrif linkanir í fréttir og það að skrifa oft á dag hafa, en þau gætu verið einhver.

Eitt helsta einkennið á mínu bloggi er kannski það að ég birti alltaf núorðið tvær myndir. (Já,og númerin auðvitað) Aðra myndina hef ég ætíð gamla og hina nýlega. Gömlu myndirnar sem ég birti eru svosem úr mínum fórum en ekkert endilega teknar af mér. (Þó flestar séu það) Nýlegu myndirnar eru hinsvegar allar teknar af mér og lélegar eftir því. Kannski hafa myndirnar einhver áhrif á heimsóknafjöldann.

Ég skrifa sjaldan frásagnir af einhverju heldur yfirleitt hugleiðingar um allan skollann. Segi oft frá bókum sem ég hef nýlega lesið eða hinu og þessu öðru og reyni af öllum mætti að festast ekki í einhverjum ákveðnum skorðum. Samt væri það eflaust miklu auðveldara. Hugleiðingar um fréttir dagsins væru það t.d. , en vafalaust yrðu þær oft úreltar því ég nenni ekki að vera síhlaupandi í tölvuna og bloggandi oft á dag. Finnst það ekki viðeigandi. Þegar svolítið er beðið með birtingu er oft hægt að þurrka ýmsan óþarfa út.

Helvísis læti eru í klukkuni. Hún er að verða hálfellefu. Þetta endar sennilega með því að maður verður að fara á fætur. Klukkan á bakarofninum (sem er mikið notuð hér) ruglaðist í rafmagnsleysinu um daginn og svo ruglaði ég hana enn meir þegar ég fór að reyna að laga hana.

Fór út að labba áðan og datt þetta m.a. í hug:

Reykingar minnka markvert
mjög er á hjólum þeyst.
Strætóinn stoppar bráðum
og allt er í heiminum trist.

Kannski hefði þetta vel getað orðið vísa ef ég hefði lagt mig eftir rími og stuðlum. Stundum eru samt slík hjálpartæki samt bara til trafala. Man að ég gerði fyrstu ljóðlínuna (ef hægt er að tala um slíkt) þegar ég sat á bekk og sá sígarettustubb á gangstígnum.

Það er ekki mitt að ákveða að fólk eigi að hugsa öðruvísi en það gerir. Var að enda við að lesa hverju ÓRG forseti svaraði á beinni línu hjá DV. Hann er ansi sleipur að svara fyrir sig. Sum svörin voru þó hvorki fugl né fiskur. (Jafnvel hártoganir og skreytni). Á þeim spretti sem eftir er fram að forsetakosningum óttast ég meira að Þóra Arnórsdóttir leiki illilega af sér en að gamli refurinn ÓRG geri það. Samt býst ég frekar við að styðja Þóru. Sérstaklega ef hún kemst klakklaust í gegnum þann hildarleik sem framundan er.

IMG 0111Bátur á siglingu I.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég velti líka stundum fyrir mér heimsóknum þegar ekkert nýtt efni er í boði. Það mætti kannski kalla þetta grunnheimsóknir og eru í mínu tilfelli svona 20-40 heimsóknir á dag. Hluti þeirra heimsókna getur verið fólk útí bæ sem er að athuga hvort nýtt efni sé á síðunni en spurning er hversu stór hluti sé fólk sem hefur gúgglað eitthvað orð og fengið þannig tilvísun á bloggsíðuna. Mér brá til dæmis dálítið eitt sinn þegar ég gúgglaði orðið Kyrrahafsstraumar því þá hitti ég aðallega sjálfan mig fyrir, sérstaklega þegar ég leitaði eftir myndum.

Emil Hannes Valgeirsson, 23.5.2012 kl. 23:48

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Kannast við þetta, Emil Hannes. Það er fátt jafn undarlegt og að rekast á sjálfan sig þar sem maður á síst af öllu von á því. Heimsóknarpælingar geta verið mjög merkilegar og stundum er einkennilegt hvað maður getur dregið ýtarlegar og nákvæmar merkingar útaf lítivægum og lélegum gögnum.

Sæmundur Bjarnason, 24.5.2012 kl. 02:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband