1672 - ÓRG bætir við sig störfum

027Gamla myndin.
Hef ekki hugmynd um hver þetta eru en myndin er áreiðanlega frá Bifröst.

Einkennilegt að vera kominn með snert af mótorhjólabakteríu án þess að hafa nokkurntíma komið á mótorhjól. Ef ég man rétt er ég búinn að skrifa tvisvar um slík mál og hér kemur líklega enn eitt skiptið. Mér finnst þetta skárra en forsetakosningarnar sem allir eru að hamast við að skilgreina þessa daganana.

Nú er ég semsagt að lesa í kyndlinum mínum (Harpa notar ekki upsilon þegar hún öfundast útí kyndilinn hans Atla og er það áhugavert réttritunaratriði.) bókina um gamla manninn sem fór á pizzuhjólinu sínu frá syðsta odda Suður-Ameríku til New York.

Reyndar gengur honum fremur hægt í byrjun. Lenti í snjó og hálku, varð fyrir flutningabíl og fótbraut sig og skemmdi hjólið. Nú er hann á leiðinni hjóllaus með ferju til einhvers bæjar í Chile sennilega til fundar við hjólið. Veit ekki hvað ég kem til með að tíunda nákvæmlega efni bókarinnar hér á blogginu, en hún er ágætlega skrifuð.

Því skyldi ég vera svona síbloggandi eins og ég er? Jú, ég skal segja ykkur það. Þetta er nefnilega enginn vandi og bara gaman þegar maður er búinn að venja sig á það. Sennilega er fátt af því sem ég geri meira útvortis en þetta. Finnst ekki einu sinni neitt sérlega gaman að tala lengur. Einu sinni var ég samt mikið fyrir það og talaði hátt.

Les stundum molana hans Eiðs Guðnasonar og verð að segja að stundum finnst mér þeir vera ósköp langir, leiðinlegir og fjalla um lítilvæg efni. Auðvitað er ekki auðvelt að ná til þeirra sem nota málið sem vinnutæki en þýðingarlaust er að vera sífellt að skammast í þeim. Fjölbreytnin er það sem blívur. Svo breytist málið í sífellu og þó Eiði hugnist ekki allt sem hann sér og heyrir er öruggt að sumar af uppáhaldsvitleysunum hans eiga eftir að verða fyrirmyndarmál.

Einu sinni hafði ég rosalega gaman af palindrómum. Minnir að þeir séu kallaðir samhverfur á íslensku og gott ef þeir baggalútsmenn voru ekki einu sinni að safna þeim. Verst að þeir eru oft sniðugri á útlendum málum. Man eftir þessum:

Anna panna.

En af dem der tit red med fane.

Madam Adam.

A man, a plan, a canal. Panama.

Líka hef ég auðvitað lesið skýringar á -Sator arepo tenet opera rotas- og sennilega var það sá fyrsti sem ég heyrði um.

Svo voru það (og eru) allar skammstafanirnar. T.d. sá ég eitt sinn í danski bók að auðvitað þýddi APOTHEK í rauninni: Alle piger og töse har en kusse!!

Hingað til hefur það tíðkast að fólki hefur með „nöd og næppe“ og langri og farsælli ástundum lítilsmetinna starfa tekist að verða einn af „handhöfum forsetavalds“. Nú hefur verið ákveðið að breyta þessu. Forsetinn tekur yfir störf handhafanna og hefur lítið fyrir því. Upphafsmaður þessarar nýjungar er Ólafur Ragnar Grímsson og mun hann hefja þessi störf sín um næstu áramót. Mikill sparnaður ætti að verða af þessu. M.a. þarf ekki að greiða Ólafi eftirlaun þó hann sé kominn á eftirlaunaaldur. Veit ekki með Jóhönnu en í hæstarétti eru menn teknir að gamlast nokkuð.

Það er kannski rétt að taka fram að þetta er ekki sagt í alvöru. Sumum finnst að aðrir eigi alltaf að sjá hvenær manni er alvara og hvenær ekki. Þannig er það bara ekki. Það er smámöguleiki (þó hann sé ákaflega lítill) að einhver trúi því sem hér að ofan er sagt um ÓRG. Þessvegna þetta.

IMG 0078Höfdi house og umhverfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er skemmtileg ráðgáta með þessa mynd. Ég get ómögulega áttað mig á þessu fólki. Trúi ekki öðru en eitthvert skólasystkina okkar sjá þetta og upplýsi málið.

Ellismellur 16.5.2012 kl. 20:51

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gæti trúað að stelpan sé dönsk og hafi unnið í eldhúsinu. Hugsanlega hefur Kristján Óli tekið þessa mynd. Man ekki eftir að hafa tekið hana. Sumt af þessum myndum sem ég hef verið að birta er frá honum komið.

Sæmundur Bjarnason, 16.5.2012 kl. 21:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband