8.5.2012 | 10:02
1666 - Er Þóra fulltrúi Samfylkingarinnar?
Gamla myndin.
Sennilega er þessi mynd tekin á toppi Baulu. Ég giska á að talið frá vinstri séu þarna: Gunnar Magnússon, Jón Eðvald Alfreðsson, Árni Ragnar Árnason, óþekktur, Kristján Óli Hjaltason og Jóhann Steinsson.
Undarleg ósköp að deyja orti Hannes Pétursson fyrir margt löngu. Man líka eftir Rauðamyrkrinu hans, en það er önnur saga eins og þar stendur. Þetta með dauðann hefur samt alltaf vakið talsverðan áhuga minn. Hef jafnvel verið svolítið hjátrúarfullur gagnvart honum. Veit samt ósköp vel að ég slepp ekki við hann frekar en aðrir. Framhaldslífið er hjá mér hulið myrkri og móðu. Sé jafnvel ekki framá að það sé neitt.
Einu sinni fyrir nokkrum árum var ég í sambandi við ritstjóra blaðsins Heima er best. Hann hafði dálítinn áhuga á því sem ég skrifa og hafði eitthvað lesið bloggið mitt. Birti grein eftir mig um brunann á Bláfelli og vildi gjarnan birta meira eftir mig en einhvern vegin varð ekki neitt úr því. Man að ég sendi honum tvær greinar sem hann vildi ekki birta. Önnur þeirra var um dauðann og ýmislegt sem honum tengist. Hin var um Bjarna-Dísu þá sem frá er sagt í þjóðsögum Jóns Árnasonar og þar talin með draugasögum. Mér finnst hún ekki vera nein draugasaga, en það er önnur saga.
Ég er fastur í blogginu og get ekkert að því gert. Sumir (t.d. Sigurður Þór Guðjónsson) festast í einhverju öðru (t.d. fésbókinni) og auðvitað er ekkert við því að segja. Egill Helgason er fastur í ýmsu t.d. Grikklandi, Kiljunni og Silfrinu. Allir eru fastir í einhverju. Harpa er föst í geðveikinni. Konan mín er föst í að selja myndir eftir sig á ebay o.s.frv.
Ég kann illa við mig ef ég er ekki með svona a.m.k. 10 15 bréfskákir í gangi á hverjum tíma. Smátt og smátt er mér næstum orðið sama hvort ég vinn eða tapa. Líka er mér að mestu sama um stigin. Þetta hefur ekki alltaf verið svona. Einu sinni var metnaðurinn mikill og þá tefldi ég af miklum áhuga á einhverju þýsku vefsetri. Núna tefli ég á chess.com (í gegnum fésbókina) og svo á chesshere.com.
Það er áhugavert að hugsa sér ýmsar pólitískar skýringar á forsetakosningunum. Ef litið er á fyrri kosningar og póltískar áherslur frambjóðendanna og fjölmiðla sem um þá fjalla blasir við að Þóra Arnórsdóttir sé frambjóðandi Samfylkingarinnar og Ólafur greyið sé frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins. Aðrir frambjóðendur virðast einkum eiga að spilla fyrir þeim. Þannig virðast fjölmiðlarnir a.m.k. líta á málið. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki vanur að koma sínum manni að þannig að líklegast er að Ólafur tapi. Annars má búast við að nú fyrst fari átökin um forsetaframboðið að verða illvíg. Jafnvel að Grímsstaðir á Fjöllum falli í skuggann. Þar er þó tekist á um mál sem skiptir hugsanlega máli.
Ég skrifaði um daginn um Vaðlaheiðarvitleysuna. Vissulega má færa fyrir því rök að samgöngubætur borgi sig ef til langst tíma er litið. Margt annað gerir það líka og kannski stuðla þær að óþarfa-akstri. Að halda því fram að Vaðlaheiðargöngin kosti eiginlega ekki neitt af því að hægt sé að fá lánað fyrir þeim (með ríkisábyrgð) og færa þau útfyrir samgönguáætlun er slík víðáttuheimska að ótrúlegt er að slíkt sé borið á borð nú á þessum síðustu og verstu tímum. Ef Steingrímur sturlaði kemur því í gegn að bora þessi göng er það eingöngu til að reyna að tryggja endurkjör sitt og síns fólks til alþingis. En hann fellur. Kolfellur meira að segja.
Athugasemdir
Takk fyrir ágætt rabb. Hannes Pétursson stendur alltaf fyrir sínu. Eru þetta annars bílastæði fyrir konur og aðra fatlaða eins og stæðin í Hörpunni?
Sæmundur G. Halldórsson , 8.5.2012 kl. 15:07
Þessi bílastæði eru í Kringlunni og ég held að allir megi leggja í þau. Þennan morguninn voru samt engir mættir.
Sæmundur Bjarnason, 8.5.2012 kl. 16:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.