1662 - Flókið forsetaframboð o.fl.

014Gamla myndin.
Hinrika Halldórsdóttir t.v., gæti verið Hildur Kristjánsdóttir í miðið. Veit ekki hver er t.h.

Salvör Gissurardóttir ræðst á Ástþór forsetaframbjóðanda á fésbókinni og velur honum ekki falleg nöfn. Líka kallar hún hann gjörninga-listamann og hefur margt til síns máls þar. Eitthvað virðist henni hafa sinnast við þá Wikipediu-menn en ég vil ekki blanda mér í þá umræðu. Höfundarréttarmál eru margflókin mál og Salvör hefur mjög afdráttarlausar skoðanir þar og er ágætlega að sér um þau mál.

Það er heilmikil stúdía að reyna að fylgjast með öllum framboðum, nöfnum stjórnmálahreyfinga og þess háttar. Sagt er að átta séu nú búnir að ákveða að bjóða sig fram til forseta. Látum okkur sjá hvort ég get nefnt þá alla: Ólafur Ragnar Grímsson, Þóra Arnórsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Herdís, Ástþór, Jón, Hannes og Andrea. Og stjórnmálasamtök auk fjórflokksins skilst mér að séu: Björt framtíð - Guðmundur Steingrímsson, Jón Gnarr og hugsanlega fleiri. Dögun - Hreyfingarnar og Frjálslyndi flokkurinn eða það sem eftir er af honum. Samstaða - Lilja Mósesdóttir og Siggi stormur sem er víst hættur við. Svona sé ég þetta akkúrat núna. Fremur er þetta óskýrt alltsaman en lagast vonandi þegar nær dregur kosningum.

Það hefur víst verið á sjöunda áratugnum sem ég vann hjá Heildverslun Hannesar Þorsteinssonar. Þar sá ég meðal annars um tollamál. Þá þótti varla taka því að tala um10 til 15 % toll, því það var næstum enginn tollur. Lúxusvarningur var tollaður mjög hátt. Skildi samt aldrei af hverju klósett voru í 80 % tolli. Það var samt ekkert tiltakanlega hár tollur. Fyrir sumu (t.d. þilplötum) þurfti sérstök gjaldeyrisleyfi til að mega flytja inn. Kannski er sú einangrunarstefna sem þá var að syngja sitt síðasta á leiðinni inn aftur núna. Að minnsta kosti á ég ekki von á að auðvelt verði að afnema gjaldeyrishöftin sem nú eru við lýði nema við verðum neydd til þess af öðrum.

Já, það er komið sumar. Það er bara hreint ekkert kalt þó maður vakni snemma. Kannski ég pósti bara á bloggið mitt því sem ég var að dunda við að skrifa áður en ég fór að sofa. Þá er ég laus við það. Það er svosem ekkert aðalatriði í mínum huga að skora hátt á vinsældalista Moggabloggsins. Tek samt eftir því að margir (finnst mér allavega) hafa vanið sig á að lesa það sem ég skrifa. Sjálfum finnst mér ég vera skoðanalaus að mestu, en íslenskan og réttritunin finnst mér vera lítið mál. Pólitíkin loðmulluleg en það er einmitt þannig sem ég sé hana. Ljósmyndirnar ekkert sérstakar. Gömlu myndirnar eldgamlar og eftir því lélegar. Veit ekki eftir hverju fólk er að slægjast. Mér er sama því ég hef bara gaman af þessu.

IMG 8246Portrett.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Forsetaembættið er kostnaðarsamt grín á kostnað almennings, ótal verkamenn þurfa að vinna til að halda einhverri snobbhana/hænu, með eggjum og alles uppi á ofuröryrkjabóli íslands, Bessastöðum... auðvitað er þetta að snúast upp í sirkus.. hvað annað þegar svona fáránleiki og tímaskekkja á í hlut

DoctorE 2.5.2012 kl. 16:15

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Annaðhvort ber að leggja forsetaembættið niður eða gera hlutverk hans miklu skýrara.

Sæmundur Bjarnason, 2.5.2012 kl. 20:38

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Örugglega Hinrika þarna lengs til vinstri og næstum örugglega Margrét Sigvaldadóttir lengs til hægri. Er ekki alveg sáttur við að það sé Hildur Kristjáns þarna í miðjunni en hef þó ekki betri tillögu; víst er að oft var önnur nærri þar sem hin var, Hinna og Hildur.

Sigurður Hreiðar, 3.5.2012 kl. 10:41

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, þetta með Margréti Sigvalda gæti vel verið rétt hjá þér. Mér finnst samt að þetta gæti hugsanlega verið Ingibjörg Bjarnadóttir.

Sæmundur Bjarnason, 4.5.2012 kl. 08:22

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Nei. Örugglega ekki Ingibjörg.

Sigurður Hreiðar, 4.5.2012 kl. 11:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband