14.4.2012 | 12:28
1653 - ÓRG og Þóra jöfn (Þóra þó aðeins jafnari)
Gamla myndin.
Hef ekki hugmynd um hverjir þetta eru en myndin er örugglega frá Bifröst.
Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu eru ÓRG og Þóra Arnórsdóttir með nokkurnvegin jafnmikið fylgi í skoðanakönnun vegna forsetakosninganna. Það stefnir samkvæmt því í einvígi milli þeirra. Þar mun pólitík og ýmislegt annað skipta máli og örugglega verður hart tekist á. Sömleiðis getur málareksturinn fyrir EFTA dómstólnum um Icesave skipt verulegu máli fyrir ríkisstjórnina. Ólíklegt er að hún lifi til loka kjörtímabilsins en henni ætti ekki að vera mjög hætt fyrr en næsta haust eða svo. Aðildarviðræðurnar við ESB munu eflaust verða í einhverju limbói þangað til og næstu þingkosningar munu einkum snúast um þau mál. Hef enga hugmynd um hvernig stjórnarskrármálinu muni reiða af.
Oft er gaman að lesa athugasemdir við vinsæl skrif á netinu þó ég geri það ekki oft. Í lokin kemur svo Þórgnýr Þórgnýsson og tilkynnir að hann sé sammála. Kannski er ekki gott fyrir óinnvígða að sjá hverju hann er sammála en þeim þúsundum aðdáenda hans sem beðið hafa eftir þessu er áreiðanlega létt.
Raunir Egils bónda á Bjánastöðum. Hlýt að hafa séð þennan texta á mjólkurfernu eða eitthvað. Hef kannski bætt Bjánastöðunum við. Oft er það sem þar er skrifað alveg út í loftið eins og bloggið mitt er oftast nær. En mér er alveg sama. Það eru þónokkrir sem virðast lesa þetta ef marka má þær tölur sem Mogginn sjálfur gefur upp. Athugasemdir eru að vísu fáar, enda er ekki margt að segja um það sem ég blogga um.
Andri (ekki á flandri) Fannar Ottósson og Steinar Örn Atlason skrifuðu víst fyrir allnokkru grein um framhaldsmyndina Næturvaktina og reyndu að sálgreina eftir aðferðum Freuds persónurnar þar. (Georg Bjarnfreðarson, Ólaf Ragnar og Daníel) Þessu mótmælir Guðmundur D. Haraldsson í grein sem hann skrifar í nóvemberhefti Tímarits Máls og Menningar og segir engan fót fyrir slíku. Mælir fremur með HAM (Hugrænni athyglismeðferð cognitive behavioral therapy sem mér finnst nú svona innan sviga minna svolítið á hunda Pavlovs) en sálgreiningu sem lækningu við sálrænum kvillum. Grein þessi er um margt athyglisverð eins og Næturvaktin var á sínum tíma.
TMM síðan í nóvember er ein af þeim bókum sem ég fékk að láni á bókasafninu (Kópavogs) í gær. Af einhverjum ástæðum byrjaði ég á þessari grein. Svo er ég líka byrjaður á þriðju Hunger games bókinni. Hún er á ensku og í spjaldtölvunni minni. Sennilega er hún þjófstolin einhversstaðar af netinu. Man bara ekkert hvar ég fékk hana. Mér finnst að þeir sem setja svona lagað á netið og ota því að mönnum eins og mér, bara af því að ég kann svolítið á tölvur, eigi að bera einhverja ábyrgð líka. Höfundar efnis þurfa að sjálfsögðu að lifa. Sé að ég hefði líklega getað keypt þessa bók á Amazon á svona rúmlega 7 dollara. Hefði kannski átt að gera það. Virðist vera spennandi.
Við eldri mennirnr erum einmitt svona. Þykjumst allt vita, en vitum samt næstum ekki neitt. Kunnum bara sæmilega að gúgla og höfum lent í ýmsu. Finnst að allt eigi að snúast um okkur því við séum merkilegastir allra. Svona er bara lífið. Eitthvað verður maður að gera, þegar það virðist vera að hlaupa frá manni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.