1643 - Fésbókarframboð Þóru Arnórsdóttur

guðmarGamla myndin.
Guðmar Magnússon.

Kannski má kalla framboð Þóru Arnórsdóttur til forseta, ef af verður, einskonar fésbókarframboð, en er það nokkuð verra fyrir það? Á mörgum er helst að skilja að mestu máli skipti hvort hún er hugsanlega vinstri sinnuð eða hugsanlega hægri sinnuð. Mér finnst það ekki skipta nokkru máli. Einfaldlega finnst mér að það sé kominn tími til að skipta ÓRG út. Ekki er samt ólíklegt að sumir taki ákvörðum um stuðning sinn í forsetakjörinu á flokkslegum grundvelli. Samkvæmt hefðinni ætti slíkt þó að skipta afar litlu máli núna. Í byrjun er þó forseti ávallt séður sem einskonar mótvægi við ríkjandi skipulag.

Í vaxandi mæli er ég að sjá aftur og aftur sömu innleggin á fésbókarræflinum. Svo er ég líka stöðugt að fá tilkynningar frá þekktu fólki um að það hafi samþykkt vinabeiðni mína. Kannski hef ég sent því vinabeiðni fyrir óralöngu en ég er löngu hættur að safna slíkum vinum. Skil ekki fésbókina, en hún er ágætur samskiptavettvangur, en svolítið uppáþrengjandi stundum. Held ég hafi reyndar sagt þetta áður, en bloggið á greinilega betur við mig.

Ég hef starfað í viðskiptalífinu mestallt mitt líf og gæti haft frá ýmsu misjöfnu að segja en geri það ekki. Ekki er það vegna þess að ég vilji halda hlífisskildi yfir þeim sem órétti hafa beitt. Heldur er það svo að þjóðfélagsástandið er mjög breytilegt. Það sem þykir sjálfsagt að ræða um núna var ekki eðlilegt að ræða um fyrir fjörutíu til fimmtíu árum. Vel getur verið að þeir mælikvarðar sem lagðir eru í dag þyki fáránlegir á morgun, þó okkur finnist það ekki.

Ég er sammála Guðmundi Andra um það að náttúrvernd er í sjálfu sér íhaldssöm. En að halda því fram að hægri menn séu upp til hópa íhaldssamari en vinstri menn er augljós fjarstæða, eins og nafngiftir af þessu tagi eru alltaf. Í besta falli geta þær með persónulegri skírskotun hjálpað mönnum við að skilgreina hluti fyrir sjálfum sér.

Hægt er að sjá eða heyra árstíðirnar
og skynja þær með ýmsum hætti.
Þær eru þó ekkert líkar hver annarri.
T.d. er vorið ekki vitund líkt haustinu.

Ég er ekki mikið fyrir að greina karaktereinkenni eftir kyni en ég sé ekki betur en konur séu mun aktívari á fésbókinni en karlar. Það þarf ekki að þýða neitt sérstakt. Kannski er það í raun jákvætt þó mér finnist það heldur neikvætt. Fésbókin er nefnilega svo mikið að yfirfyllast af allskyns auglýsingum og heilbrigðum mat að að hún er að verða illlæsileg. Þó karlar og konur séu oft furðulík þá fer ég ekki ofan af því að lesefnið er mismunandi. Öll vísindin og tæknin sem karlagreyin telja sér trú um að séu svo afskaplega fræðandi og vel fram sett (Attenborough o.fl.) er fjandans bull og þeir er píndir til þess í 434 skipti að horfa á sömu mörgæsina koma úr kafi og lenda með tilþrifum á ísnum.

Eitt kom mér mjög á óvart þegar ég var að lesa ævisögu Fischers og mér er nær að halda að það hafi ekki komið fram áður. Mamma hans heimsótti hann eitt sinn á Loftleiðahótelið og gisti hjá honum í eina nótt. Var í dulargerfi og með hárkollu (ljósa) vegna blaðamannanna og Fischer var mjög ánægður með að sjá hana og hitta. Hún átti um þær mundir heima í Bretlandi. Skipti sér ekki af neinu. Hafði vit á því.

Held að það hafi verið Kolbrún Bergþórsdóttir sem lýsti því yfir í Silfri Egils að hún gæti varla beðið eftir bók 2 í Hunger Games seríunni. Ég er einmitt að lesa þá bók núna og hún virðist vera mjög spennandi en ekki kannski alveg eins vel skrifuð og sú fyrsta. Ætla samt ekkert að fara að tíunda efni bókarinnar. Datt samt í hug framarlega í bókinni að Katniss Everdeen væri farin að stæla Hróa Hött fullmikið.

IMG 8110Laufblað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Bíð (hæfilega) spenntur eftir því að fá nánari fréttir af Sultarleikum 2. Var allvel ánægður með bók 1.

Sigurður Hreiðar, 28.3.2012 kl. 17:11

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sæll Sigurður. Ég er venjulega með nokkrar bækur í takinu og er ekki búinn með Hungurleikana 2 en skal láta þig vita hvernig mér líkar hún. Sú fyrsta var ansi spennandi.

Sæmundur Bjarnason, 29.3.2012 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband