23.2.2012 | 21:16
1620 - Kosningar
Gamla myndin.
Á Þingvöllum 1974.
Nokkuð öruggt er að í júní í sumar verða kosningar. Um hvað verður kosið þá? Á þessari stundu er það nokkuð óljóst. Forsetakosningar eiga að fara fram en ef Ólafur Ragnar Grímsson verður eini frambjóðandinn þar verður hann sjálfkjörinn eins og venjulega. Mun Ólafur verða í framboði, þó flestir hafi skilið hann svo í áramótaávarpinu að hann hefði það ekki í hyggju? Já, ég held að hann verði í framboði. Mun þá einhver fara fram gegn honum? Já, ég hef trú á því. Jafnvel Ástþór Magnússon af gömlum vana ef ekki vill betur.
Látum þá útrætt um forsetakosningarnar í bili.
Sá virðist vera vilji forsætisráðherra og fleiri að samhliða fosetakosningunum fari fram einhverskonar þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskárdrögin sem stjórnlagaráðið kom sér saman um fyrir nokkru.
Mér líst vel á það. Úr því að ekki er unnt að hafa þá kosningu bindandi er heilladrýgst að kjósa um drögin eins og þau leggja sig. Alþingi tekur síðan lokaákvörðun og ber ábyrgð á setningu nýrrar stjórnarskrár. Verði stjórnarskrárdrögin samþykkt eru hendur alþingis bundnari varðandi framhaldið en annars yrði. Verði drögin felld verður alþingi sjálfráðara um hvað gert verður við þau. Jafnvel er hugsanlegt að þau verði svæfð og ekkert um nýja stjórnarskrá hugsað og jafnvel ekki mikið um stjórnarskrárbreytingar. Þó gæti komið fram frumvarp um að leyfa þjóðaratkvæðagreiðslur með ákveðnum skilyrðum og kannski verður reynt að draga úr valdi forseta lýðveldisins. Það er þó ekki víst og gæti farið eftir úrslitum forsetakosninganna í vor.
Fólk getur semsagt farið að búa sig undir kosningar og skoðanakönnunarfyrirtæki undir skoðanakannanir. Þetta geta vel orðið skemmtilegar og afdrifaríkar kosningar. Óvenjulegar vera þær a.m.k.
Ég er að mestu leyti búinn að ákveða hvernig ég kýs. Auðvitað fer það samt eftir því hvaða kostir verða í boði. Alþingiskosningar geta síðan orðið hvenær sem er. T.d. nálægt næstu áramótum. Þá gætu leikar farið að æsast. Væntanlega verður þá kosið um stjórn landsins næstu árin en auk þess um ESB og jafnvel fleira. T.d. stjórnarskrá, nýja eða gamla. Gaman, gaman.
Líklega er meira en helmingur allra þeirra mynda sem birtast á fésbókinni fótósjoppaður eða lagfærður á ýmsan hátt í öðrum forritum. Auðvitað gerir það lítið til þó ágætt væri að vita af því þegar svo er. Það sem skrifað er á fésbókina skiptir sífellt minna og minna máli. Það eru myndirnar og videóin sem skipta mestu. Bókaraðdáendur verða einfaldlega að sætta sig við það. Vegur hins prentaða máls fer sífellt minnkandi. Svo er óskapast útaf því að unglingar lesi ekki bækur. Bækurnar henta þeim þá ekki og eru einfaldlega lélegar sem því nemur. Unglingarnir eru nákvæmlega eins og við vildum hafa þá. Sennilega betri ef eitthvað er.
Að mínum dómi er einhver markverðasta stjórnarskrárumræðan á Moggabloggsvefnum hjá Ómari Ragnarssyni http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/ Það er vissulega kominn tími til að hefja umræðu um stjórnarskrána nýju. Því miður virðast samt margir vera óvenju hatursfullir í þeirri umræðu og ekki sjá neitt annað en ESB-draug í hverju skoti.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.