1619 - Carl Sagan

Scan180Gamla myndin.
Frá Þingvöllum 1974. Þessi mynd snýr sennilega öfugt.

Kannski er hagfræði Lilju ekkert vitlausari en sú sem riðið hefur hér húsum undanfarna áratugi. Voodoo-hagfræði, hókus-pókus-hagfræði eða hagfræðiheimsku mætti eflaust kalla flest af því sem hér hefur verið reynt. Svo þykjast hagfræðigerpin vera afskaplega gáfuð ef þau geta rutt úr sér sem flestum tölum og tengt þær saman á sem óskiljanlegastan hátt. Tala nú ekki um ef tekst að finna einhvern útlending sem getur rutt úr sér viðlíka vitleysu.

Þetta er orðalag sem virðist ganga vel í fólk en auðvitað er ekki neitt á bak við þetta. Hugvísindi eru jafnan þannig að allir þykjast vita betur.

Þegar presti einum varð það á í miðju biskupsfárinu í fyrra að minnast á að til væru falskar minningar ætlaði allt vitlaust að verða. Er um þessar mundir að lesa bók eftir Carl Sagan þar sem hann segir frá fölskum minningum. Einkum þeim sem snerta alien abduction, satanic rituals og kynferðislega misnotkun og það er satt að segja einkennilegur lestur. Bók þessi heitir: „The demon-haunted world. Science as a candle in the dark“ og var gefin út árið 1997 og kostar $12,83 hjá Amazon. Það er einkum vegna þess að ég met Carl Sagan mikils sem vísindamann sem ég fór að lesa þessa bók. Er ekki búinn með hana og fór ansi hratt yfir sögu þar sem hann var að lýsa nornum og galdrabrennum á miðöldum.

Get ekki að því gert að mér finnst þetta bloggstand á mér alla daga með því merkilegra sem ég geri. Það eru líka ótrúlega margir sem lesa þetta og ekki eru þeir að því bara til að gleðja mig. Sjálfur fæ ég öðru hvoru dellu fyrir bloggi hjá einhverjum ákveðnum aðila en það stendur sjaldan mjög lengi núorðið. Áður var ég kannski reglulegur lesandi mun lengur. Þá voru bloggin líka færri og oft persónulegri. Ég hef reynt að forðast að gera þetta blogg of persónulegt og held að mér hafi tekist það sæmilega.

Umræðuefnin eru ekki alltaf merkileg. Þó eru þau oftast spegilmynd af því sem ég er að velta fyrir mér. Sumt af því sem ég skrifa um leiðist mér afskaplega. Yfirleitt hugsa ég að bloggið mitt sé heldur neikvætt. Það er þá bara af því að ég er sjálfur svolítið neikvæður allajafna. Spyrjið bara konuna mína og börnin. Aha, þarna kom ég ykkur á óvart. Sjálfum mér líka. Hélt að ég ætti erfitt með að viðurkenna neikvæðnina. Á hina síðuna eru svo margmennisblogg eins og baggalútur. Ég get endalaust hlegið með sjálfum mér þegar ég les vitleysuna þar. Þeir skrifa samt ekki nema þegar þeim dettur eitthvað sniðugt í hug. Ég er hinsvegar síbloggandi og ekkert lát á neikvæðninni. Reyni þó að takmarka mig sem minnst við ákveðin efni og skrifa um hitt og þetta.

fésbókHér má sjá sérkennilegt fésbókarviðfangsefni. Kannski er þetta samt ekki eins ómerkilegt og það virðist vera. Hvet þá sem eru kannski með svolítið bilaða sjón eins og ég (en með áhuga á öskudagssiðum) til að klikka nokkrum sinnum á myndina og sjá hvort hún stækkar ekki. Annars man ég líka eftir því að einu sinni var alltaf kennt á öskudaginn og að sjálfsögðu var merkilegast að hengja öskupoka aftan í kennarana. Flestir þeirra tóku því allvel og margir fluttu öskupokana framan á sig og báru þá eins og heiðursmerki. Svo var hætt að kenna á öskudaginn og það þótti mér miður því þá voru færri til að hengja aftan í. Þeir sem voru á manns eigin aldri voru svo varir um sig. Annars minnir mig að strákar hafi átt að hengja á stelpur og öfugt. Ekkert var í öskupokunum þó okkur hafi verið sagt að áður fyrr hafi gjarnan verið aska eða steinar í þeim. Á þessum tíma var kötturinn bara sleginn úr tunnunni á Akureyri en ekki sunnanlands. Búningar og gotteríisát þekktist ekki. Bolludagur og sprengidagur voru líka haldnir hátíðlegir.

IMG 7933Nauthólsvík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband