1616 - Þegar kviknaði í á Vegamótum

Untitled Scanned 581Gamla myndin.
Þessi mynd er tekin við Hveramörk 6 og þetta er útsýni sem ég kannast ákaflega vel við. Lengst til vinstri er hús Baldurs Gunnarssonar þá Sigursteinshús og síðan Bakaríið og að lokum verkstæðið hjá Aage.

Það mun hafa verið laust eftir 1970 (kannski 1972 eða 1973) sem það kviknaði í fatnaði sem var í þvottahúsinu í íbúðarhúsinu ofan og norðan við Veitingahúsið að Vegamótum. Ástæða þessa eldsvoða mun líklega hafa verið ofhitnun á sótlúgu sem var rétt við fatnaðinn. 

Þetta mun hafa verið um átta eða níuleytið um kvöldið og af einhverjum ástæðum vorum við Áslaug bæði sofandi en þó á sitthvorum staðnum. Benni var heima en Bjarni í skólanum í Laugargerði. Benni varð fyrstur var við eldinn og vakti okkur. Þá var reykur farinn að liðast um allt húsið og þegar ég opnaði þvottahúshurðina var allt fullt af eldi og reyk þar inni.

Ég flýtti mér því að hringja niður í Veitingahús með beiðni um að senda strax með slökkvitækið uppeftir því kviknað væri í. Kristján frá Hraunhálsi kom fljótlega hlaupandi með slökkvitækið og fór beint af augum upp að íbúðarhúsinu. Mér er minnisstætt að talsverður snjór var yfir öllu og þegar Kristján kom að skurðinum sem er nokkurn vegin miðja vegu milli húsanna sökk hann í snjóinn og datt en var fljótur á fætur aftur og kom von bráðar með slökkvitækið til okkar þar sem við stóðum á stéttinni við útidyrahurðina. Man ekki með vissu hvort Erling á Eiðhúsum (og líklega fleiri) var kominn þá eða kom fljótlega á eftir en hann átti einfaldlega leið um að mig minnir.

Þegar slökkvitækið var komið tók ég það og fór með inn og opnaði hurðina inn á þvottahúsið og slökkti eldinn og var fljótur að því. Slökkvitæki þetta var dufttæki og þó það kæfði eldinn fljótt og vel gaus hann fljótlega upp aftur því kælingin var engin. Ég hraðaði mér síðan út á stétt aftur. Eftir svolitla stund ákvað ég að fara aftur inn og athuga hvort eldurinn og reykurinn í þvottahúsinu væri ekki að minnka. Þá sá ég að eldurinn hafði tekið sig upp að nýju. Fór þá og náði í slökkvitækið aftur og slökkti eldinn. Eldurinn gaus fljótlega upp aftur og ég man ekki hvort ég fór einu sinni enn útá stétt og svo inn aftur til að reyna að slökkva hann. Að lokum fór ég inn í þvottahúsið og út um útdyrahurðina þar og jós snjó á eldinn og náði fljótlega að slökkva hann með því. Á meðan biðu aðrir eftir mér á stéttinni og þótti ég vera lengi en fundu þó fljótlega hver ástæðan var.

Með þessu móti tókst að slökkva eldinn en ekki hefur mátt miklu muna að illa færi því stiginn upp á háaloftið og loftlúgan voru talsvert sviðin. Þrifin á húsinu sem að mestu fóru fram daginn eftir voru talsverður handleggur og ég man að Magndís í Lynghaga hjálpaði okkur við þau.

Þó ekki sé enn staðfest hvað nákvæmlega hafi ollið því að stjórn Fjármálaeftirlitsins hafi sagt forstjóranum, Gunnari Andersen, upp störfum

Svona byrjar frétt sem ég sá áðan á Eyjunni og hætti auðvitað snimmhendis að lesa. Mér finnst það blaðamannslegt að vera alltaf að finna upp sögnina „að olla“ og finnst vera búið að fjölyrða svo oft um þetta að blaðamenn ættu að fara að læra að hafa þetta rétt.

IMG 7921Mosagróinn steinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Man að það kviknaði í rétt fyrir jól, var að lesa Bráðum koma blessuð jólin þannig að þetta var eftir 1972 og ég var ekki byrjaður í skólanum og held að ég hafi verið tiltölulega nýbúin að læra að lesa. Hef alltaf átt erfitt með að lesa þessa bók síðan.

Benni

Benni 20.2.2012 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband