1594 - Barnabarn fyrsta forsetans

Untitled Scanned 19Gamla myndin.
Veit ekki hver þetta eru. En myndin er örugglega tekin á Vegamótum.

Var að enda við að lesa grein Teits Atlasonar um ræðu Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur á Alþingi. Eins og venjulega er ég sammála síðasta ræðumanni. Hef samt heyrt áður minnst á ræðu Guðfríðar Lilju. Hlustaði líka áðan á seinni hluta stjórnmálaumræðna í Silfri Egils og fannst Þráinn og Birgitta standa sig mun betur en Guðfríður Lilja og Ragnheiður Elín. Inntakið í því sem Guðfríður Lilja sagði þar fannst mér vera: „Frekar engan en þann næstbesta.“ Það grunar mig að hafi einnig verið inntakið í Alþingisræðu hennar og á vissan hátt má segja að það sé líka inntakið í gagnrýni Teits Atlasonar.

Stjórnarskrármálið verður mál málanna bráðlega. Man vel eftir kosningunum til stjórnlagaþingsins þar sem frambjóðendur til 25 sæta voru milli 4 og 5 hundruð. Mest hissa varð ég á því að Jónas Kristjánsson (með allan sinn bloggslátt og orðkyngi) skyldi ekki ná kosningu. Víst voru kosningarnar flóknar og einkennilegar. Niðurstaða fékkst þó. Forysta Sjálfstæðisflokksins var lengi á báðum áttum um hvort styðja bæri kosningarnar eða hvetja fólk frá þátttöku. Lagðist þó gegn þeim þegar á leið og hafði það áhrif á kjörsóknina.

Að hæstiréttur skyldi síðan reyna að pota í framkvæmdina var bara eðlilegt. Alþingi tók með vissum hætti fram fyrir hendurnar á honum og stjórnarskrárdrög voru smíðuð og samþykkt af öllum í stjórnlagaráðinu. Alþingi er nú búið að sitja á þessu máli alllengi og þar eru menn hræddir. Jafnvel hræddari en Geir Hilmar Haarde, sem ætti alls ekki að sætta sig við þau músarholusjónarmið sem stjórna gerðum stjórnarandstöðunnar á þingi núna. Betra væri fyrir hann að taka slaginn úr því sem komið er.

Kemst því miður ekki yfir að lesa allar þær bækur sem ég vildi. Bókin um gömlu konuna heitu sem Hallgrímur Helgason skrifaði um er kannski sú bók sem mig langar mest til að lesa af þeim bókum sem nýlega eru út komnar. Það er vegna þess að nú get ég loksins staðsett konuna sem varð kveikjan að sögunni.

Sveinn Björnsson fyrsti forseti Íslands átti son sem Björn hét. Hann var foringi í SS-sveitum Hitlers. Þegar hann kom hingað til lands eftir styrjöldina var honum illa tekið og hraktist til Argentínu. Gekk illa þar og kom aftur til Íslands. Fékkst ásamt fleiru við að selja Encyclopediu Britannicu. Seldi mér m.a. það rit. Lést 1998 og lifði síðustu árin í Borgarnesi.

Dóttir hans var Brynhildur Georgía Björnsson. Hún lést árið 2008 og á ævi hennar byggir Hallgrímur Helgason bók sína. Frá ævi Brynhildar er sagt í bókinni „Ellefu líf“ sem út kom árið 1983. Kannski er eitthvað missagt hjá mér í þessari stuttu samantekt en það verður þá vonandi leiðrétt af einhverjum.

IMG 7802Snjór í skál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sæmundur

Gamla myndin:

Þetta eru Svanur frá Svarfhól og Hanna frá Eiðhúsum

Sigurbjörn Bjarnason 22.1.2012 kl. 20:44

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Bjössi; en hver er maðurinn með hattinn? Betri mynd af honum er á leiðinni.

Sæmundur Bjarnason, 22.1.2012 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband