1593 - Siðferðisbrestur

Untitled Scanned 25Gamla myndin.
Þetta hlýtur að vera Bjössi.

Einhverjir segja að siðferðisbrestur hafi orðið á alþingi s.l föstudag. (Jónas). Aðrir segja að ósanngjarnt sé gagnvart Geir Haarde að halda málaferlunum áfram. Það finnst mér ekki. Sá lokaði klúbbur sem alþingismenn vilja vera er í mínum augum að skjóta sér á bakvið Geir. Ögmundur, Atli og Guðfríður Lilja valda mér vonbrigðum. Ef ekki kemur til einhvers konar sannleiksnefnd, Landsdómur eða málaferli þar sem hægt er að hreinsa andrúmsloftið eru alþingismenn endanlega búnir að missa allt traust.

Hvar væru íslenskir fjölmiðlar staddir ef ekki væru íþróttirnar? Það væri hægt að leggja þá niður. Jú, það eru þónokkrir sem horfa á fréttirnar í sjónvarpinu, ef þeir hafa ekkert annað að gera. Margir kveikja líka á útvarpinu í bílnum ef þeim leiðist. Að öðru leyti er það boltinn sem blívur. (Og fésbókin.) Ég verð ekki var við neinn verulegan áhuga fyrir því sem um er að vera nema um boltaleik sé að ræða. Hvort er mikilvægara í augum fjöldans hvort ríkisstjórnin lifir eða hvort handboltalandsliðið kemst eitthvað áfram á Evrópumeistaramótinu? Greinilega er landsliðið merkilegra en pólitíkin. Nema kannski í augum fáeinna sérvitringa.

„Egill væri martröð geðlækna. Þegar óhemju sjálfhverfur maður eins og Gunnar á Hlíðarenda og kona með alvarlega hambrigða-persónuleikaröskun, eins og Hallgerður langbrók, hittast - þá er fjandinn laus. Þetta segir Óttar Guðmundsson geðlæknir. Hann hefur rannsakað geðveiki og persónuleikaraskanir í Íslendingasögunum.“

Þessa klausu fann ég einhvers staðar á Internetinu. Man ekki hvar. Vonandi er ég ekki að brjóta einhver höfundarréttarlög með að birta hana. Skyldi Óttari hafa dottið í hug að höfundar Íslendingasagnanna væru pínulítið geðveikir sjálfir? Eða er höfundur þessarar klausu það kannski? Geðveiki er alveg geðveik og mikið tískuorð; meiningarlítið hjá flestum þó. Sko, þarna notaði ég semikommu en kann þó ekkert á slíkt fyrirbrigði. Er það einskonar hálfpunktur? Greinarmerkjafræði er mér að mestu lokuð bók en í stafsetningu þykist ég nokkuð góður.

Fésbókarfólkið (altsvo þeir sem sífellt eru að breyta henni) keppist við að gera sem flesta háða sér og tekst það nokkuð vel. Enda er fésbókin á margan hátt ágætisforrit – eða app eins og sumir mundu segja. Hugsanlega er samt hægt að misnota hana (og verður/er líklega gert) En hvað með það? Er það ekki bara í góðu lagi? Er ekki allt misnotað sem hægt er? Hef samt vissar áhyggjur af þeim sem eru svo einangraðir (af ýmsum ástæðum) að jafnvel fésbókin nær ekki til þeirra.

Óhóflegt sjálfsálit; já, flestir eru með það. Það þýðir ekki annað. Eigi að bíða eftir því að aðrir fái sama álit þurfa flestir að bíða ansi lengi. Spurningin er meira hvernig farið er með þetta óhóflega sjálfsálit. Allflestir bloggarar (svo ekki sé nú talað um alþingismenn) virðast halda að þeir viti alla hluti betur en aðrir. Þessvegna hafa þeir hátt. Þeir lágstemmdari hafa kannski alveg eins mikið sjálfsálit en fara öðruvísi með það. Sumir þegja bara oftastnær. Kannski er það best.

ÓRG er einn af þeim sem hafa óhóflegt sjálfsálit. Ef hann bíður svolítið koma einhverjir aðrir og mæla það upp í honum. Hann brýtur líka allar venjur sem skapast hafa um forsetaembættið með því að tilkynna ekki með afgerandi hætti hvort hann ætli að bjóða sig fram einu sinni enn eða ekki. Með þessu er hann einkum að gera öðrum hugsanlegum frambjóðendum erfitt fyrir. Vona bara að einhver málsmetandi bjóði sig fram á móti honum svo umræða verði um embættið.

IMG 3179Sólarlag í Kópavogi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ja, fjölmiðlanotkun, það er nú það. Ég horfi einstaka sinnum á fréttir á RÚV, en ekki mikið meira en það - konan mín segir að ég horfi ekki á neitt annað, sjálfsagt er það rétt hjá henni. Mín fjölmiðlanotkun er einkum bundin við bloggið þitt, Sæmundur skólabróðir, og svo Trausta Jónssonar og Einars Sveinbjörnssonar, veðurfræðinga, líklega telst Trausti frekar ástunda veðurfarsfræði, en ég hef reyndar ekki vit á því. Blöðin les ég ekki að frátöldu Bændablaðinu. Mogginn, nei fjárinn hafi það, það kostar 50.000 kall á ári eða kannski rúmlega það og það er of stór hluti af ellilífeyrinum. Fréttablaðið þurfum við líka að borga fyrir hér og af því að á stærri stöðunum er það ókeypis, dettur mér ekki í hug að borga fyrir það hér á útnára þessum.

Ellismellur 21.1.2012 kl. 20:10

2 identicon

A semi-colon is used to connect two closely related sentences. Although it is called a semi-colon, it should be thought of more like a semi-period. Both sides of the semi-colon ought to be complete sentences, and in America it is often taught to put a linking word right after the semi-colon to make the relationship between the two sentence clear (like "however", "for instance", "nevertheless", "in fact", "unfortunately"). But if the relationship between the two sentences is apparent just from content and context, then the linking word is not necessary. There are just some sentences that are so closely related that dividing them with a full stop period would be silly.

Elisabeth Ward 21.1.2012 kl. 20:16

3 identicon

Í Auglýsingu um greinarmerkjasetningu segir:

Semíkomma.

Í stað punkts má setja semíkommu milli málsgreina, ef málsgreinarnar eru merkingarlega nátengdar, þó einkum ef síðari málsgreinin táknar afleiðingu hinnar fyrri eða andstæðu hennar.

Dæmi: Hegðun nemendanna var mjög ólík; þess vegna var erfitt að áfellast kennarann fyrir ólíka framkomu við þá. — Jón varð fyrir aðkasti margra; samt lagði hann engum illt til.

Milli ósamkynja liða í upptalningu skal setja semíkommu, einkum til að greina þá frá samkynja liðum.

Dæmi: Verslunin selur ýmiss konar vörur: pappír, ritföng; sígarettur vindla, neftóbak; sápur, ilmvötn og aðra hreinlætisvöru.

Sem sagt: Semíkomma getur virkað eins og komma og eins og punktur. Sjá http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=3480

Harpa Hreinsdóttir 21.1.2012 kl. 20:28

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk öll.

Ellismellur. Já, það er þetta með ókeypis blöðin. Ég fæ aldrei Fréttablaðið og er alveg sama. Hinsvegar fæ ég Fréttatímann oftast. Það brást þó um daginn og ég kvartaði og fæ núna 2-3 eintök. Annan lespappír fæ ég ekki reglulega. Netið er nóg.

Elísabeth. Mér er alveg sama þó þú skrifir á ensku ef þér finnst það þægilegra. Takk fyrir semikommufróðleikinn.

Harpa. Greinarmerkin setja sinn svip á öll skrif. Það er mér ljóst. Hef samt hingað til notað semikommuna afar lítið og finnst hennar ekki þörf í stað kommu.

Sæmundur Bjarnason, 21.1.2012 kl. 21:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband