14.1.2012 | 20:20
1587 - Eru konur húsdýr?
Gamla myndin.
Endur og svanir á Reykjavíkurtjörn.
Gæsalappagáta.
Ef menn lesa síðasta blogg frá mér mjög vandlega er ljóst að gæsalappirnar utan um keyra hratt og keyra hart eru bæði amerískar og íslenskar. Hvernig hefur það átt sér stað? Upplýst í næsta bloggi. Ef ég man. Í forbifarten má geta þess að gæsalappafræði er merkileg vísindagrein.
Ef ég miða við sjálfan mig þá er lítill gróði af því að gefa út bækur, því ég vil helst fá þær lánaðar á bókasafninu. Sumir kaupa samt bækur ómælt og láta eins og þeir viti ekki að bókasöfn séu til. Man eftir að hafa hlustað á lítinn hóp manna á einhverri ráðstefnu ræða fram og aftur um bækur, efni þeirra og verð, en það var eins og enginn hefði heyrt á bókasöfn minnst. Af hverju lét ég þá ekki ljós mitt skína. Veit það ekki en af einhverjum ástæðum þagði ég. Eru bókasöfn bara fyrir þá sem ekki hafa efni á að kaupa bækur nema í hreinum undantekningartilfellum? Ekki finnst mér það.
Mér finnst bókasöfn vera fyrir alla og að peningum sem í þau fara sé ekki vera illa varið. En hvort er þeim að hraka um þessar mundir eða ekki? Mér hefur fundist að í vaxandi mæli sé verið að gera þau krakkavæn. Sem er svosem ágætt en tilgangurinn er e.t.v. einkum sá að gera börnin að góðum bókakaupendum seinna meir!!
Var að enda við að lesa aðsenda grein á vísi.is eftir Smára McCarty um höfundarrétt og tjáningarfrelsi. Hann ræðir þar m.a. um Youtube.com, Wikipediu og ýmislegt fleira og segir m.a.
Ef hugmyndir STEF næðu fram að ganga þyrfti að ráða her af sérfræðingum til að fara yfir allar greinarnar á öllum málunum og tryggja að enginn gleymdi að geta heimilda eða notaði óvart höfundarvarið efni í leyfisleysi.
Einhverjir myndu segja þetta ofgert eða öfgakennt, en aðeins með svo róttækum aðgerðum gætu vefsetur verið örugg undir þessu fyrirkomulagi, sem nú er að dreifast um allan heim. Sjálfhverfa höfundarréttarsamtaka hefur náð nýjum hæðum að undanförnu, og nú eru þessir handhafar einokunarréttar á menningu okkar að heimta að tjáningarfrelsi allra verði fórnað í þágu þeirra sérhagsmuna. Slíkt ættum við ekki að taka í mál.
Að mínu mati er varhugavert að láta vefsetur sjá um að allt það efni sem dreift er sé samkvæmt höfundarlögum. Með því er verið að gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum á þessu sviði ófært að starfa en áfram verið að færa sem mest völd til stórfyrirtækja. Erfiðara getur einnig orðið fyrir whistle-blowers að láta í sér heyra.
Eftirfandi grein skrifaði ég í janúar 1984 í Borgarblaðið:
Eru eiginkonur húsdýr?
Eitt er það ritverk íslenskt, sem út kemur árlega í mörgum og stórum bindum. Útgáfa þess frá 1984 kostar 10500 krónur. Allra Íslendinga eldri en 16 ára er getið í þessum bindum, hvorki meira né minna. Ekki er verk þetta oft til umræðu manna á meðal, þó vita vafalaust flestir að það er til. Hér á eftir verður fjallað lítillega um þessa merku bók.
Tæplega velkist nokkur í vafa um hvaða bók þetta er. Jú, auðvitað þjóðskráin, eða réttara sagt nafnnúmeraskrá þjóðskrárinnar.
Í þessu að ýmsu leyti ágæta ritverki, veður karlremban satt að segja uppi og ekki hef ég orðið þess var að kvenréttindakonur fordæmdu það sem vert væri.
Fleira er það og í sambandi við þessa bók sem athygli vekur, eins og tildæmis það að mikill meirihluti (líklega um eða yfir 70%) allra nafna í þessu riti sem þó á að heita grundvallarfræðirit eru rangt rituð, og á ég þar við að brodda vantar yfir stafi, é er skrifað je o.s.frv., en íslensku stafina þ æ ð og ö er þó þarna að finna.
Í bókinni má segja að litið sé á eiginkonur sem húsdýr, eða í besta falli sem börn. Nöfn þeirra eru (eins og nöfn barna undir 16 ára aldri) inndregin um eitt stafabil. Komið skal þannig í veg fyrir að eiginkonum og börnum sé ruglað saman við venjulegt fólk. Í sérstökum dálki aftast á hverri blaðsíðu er síðan aftan við nafn hverrar eininkonu getið um hver á viðkomandi kvenpersónu. Þ.e.a.s. þar er að finna nafnnúmer eiginmanns hennar. Hliðstæðu er ekki að finna hjá eiginmönnum.
Talnalykill er notaður til að tákna hjúskaparstétt fólks. T.d. hvort fólk er fráskilið, ekklar, ekkjur o.s.frv. Einn flokkurinn, sá nr. 8 vekur mesta athygli, en hann er yfir konur sem gifst hafa varnarliðsmönnum. Jafnvel þó verið geti að einhverjar hagkvæmnisástæður séu fyrir þessu, er þetta smekklaust og ber vott um fordóma. Það er ekki eins og allt kvenfólk sem gifst hefur útlendingum sé merkt svona, nei nei bara þær sem hafa lagst svo lágt að giftast varnarliðsmönnum. Og auðvitað eru engar hliðstæðar merkingar við nöfn karlmanna.
Athugasemdir
Þessi færsla rifjaði upp ljúfar minningar af vinnu á Hagstofunni 1982-83, með skrúfblýant að vopni. Verst var, í Þjóðskrárannríkinu í desember, þegar við kjöftuðum of mikið og rugluðumst í ríminu. Þá hringdi yfirmaðurinn og tilkynnti að við hefðum drepið einhvern sem hafði skilið - eða konu sem giftist varnarliðsmanni - og var heldur óhress með tiltækið. Líklega höfum við eitthvað fráskilið þá dauðu á mestu kjaftatörnum. (Minnir að skilnaðarkvótinn hafi verið 3 en man ekki auðkenni hinna dánu)
Harpa Hreinsdóttir 14.1.2012 kl. 20:55
Samkvæmt hornsteini íslands, biblíu, þá eru konur búpeningur, eign karla, taldar fram þannig, ásamt þrælum.. er líka í boðorðunum 10
DoctorE 15.1.2012 kl. 10:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.