1579 - Trúmál o.fl.

Scan165Gamla myndin.
Benni og ég að horfa á sjónvarpið að Þorsteinsgötu 15, Borgarnesi.

Leikfangið sem heldur fyrir mér vöku um þessar mundir er Kindle fire spjaldtölvan sem kostaði þó ekki nema 199 dollara. Ég á enn eftir að skrifa meira um þennan afburðagrip en er núna strax búinn að finna það út að „rúmlestur“ er hin besta og þægilegasta iðja með þessu tæki. Ekkert um það að ræða að sumar bækur (eins og t.d. Sögu Akraness) er engin leið að fara með í rúmið vegna stærðar. Það er líka hægt að hafa með sér verulegan fjölda bóka án þess að þyngdin aukist nokkuð. Vil einfaldlega fullyrða að framtíð bóka liggi í lesvélum. Einkennilegt að þær skuli ekki hafa hlotið almenna hylli fyrr en núna.

Þó ég tjái mig á bloggi mínu um trúarleg málefni þá kallar það yfirleitt sem betur fer ekki á óralanga svarhala. Sennilega eru þessir lesendur mínir ekki mikið fyrir að kommenta eða skrifa stutt innlegg á fésbók og það er bara ágætt. Ég er sjálfur ekki mikið fyrir það þó ég geri það stundum. Mér finnst erfitt að koma öllu sem ég vildi sagt hafa frá mér á núll komma fimm. Þessvegna finnst mér betra að blogga um hlutina. Kannski eru færri sem lesa þær spekúlasjónir en það er í lagi. Maður veit samt aldrei hvort margir lesa það sem maður setur í komment, en eigandi bloggsins hlýtur þó oftast að sjá það.

Eru bækur of dýrar? Á sama tíma og bókatitlum fjölgar mjög eru margir að gefast upp á því að kaupa bækur til gjafa í jólabókaflóðinu.

Enginn vafi er á því að rafbækur hér á Íslandi eru alltof dýrar. Þær eru í flestum tilfellum jafndýrar prentuðum bókum eða jafnvel dýrari. Því hefur verið haldið fram af mörgum og ekki einu sinni mótmælt að það verð sé alltof hátt.

Útgefendur geta eflaust haldið því fram að venjulegt bókaverð hafi ekki hækkað meira en annað að undanförnu. Það er þó ekki nóg. Ekki er nokkur vafi á því að útgáfukostnaður allur hefur farið mjög lækkandi undanfarið.

Líklega eru bókaútgefendur að gera útaf við sjálfa sig með því að halda bókaverði svona háu. Eflaust veitir þeim samt ekki af peningunum. Verslanakeðjur hafa farið illa með þá að undanförnu.

Bókaútgáfa mun breytast mikið á næstunni og eru þegar komin mörg dæmi um það. Í flestum tilfellum er mun hagstæðara fyrir höfunda að gefa bækur sínar út sjálfir. Dreifingin er það eina sem er höfuðverkur. Allt annað er auðvelt og ódýrt.

Í ár eru 40 ár liðin frá einvíginu fræga sem haldið var í Reykjavík 1972 milli Borisar Spassky og Bobby Fischer. Það fer vel á að minnast þess með því að halda opið Reykjavíkurskákmót í Hörpunni. Í fréttum er sagt að það verði gert í mars næstkomanndi.

IMG 7673Snjókoma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Eini raunhæfi mælikvarðinn á verð er útsöluverð kaupmanna. Það er hið rétta og sanngjarna verð hlutanna. En hvað kostaði lestölvan með sköttum og gjöldum? 199 dollarar er ekki mikið en yfirleitt bætist við annað eins hjá glæpafyrirtækinu Íslandspósti sem stálu af mér gjöf frá vini mínum í Kanada fyrir nokkrum árum.  Stálu henni af því ég neitaði að greiða toll sem var hærri en útsöluverð gjafarinnar úr búð hér í Reykjavík. Þá sór ég eið að hafa aldrei viðskipti við þetta glæpafyrirtæki og hef staðið við það

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.1.2012 kl. 14:57

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Kom ekki í pósti. Ég er eins og þú að treysta þeim afar varlega. Tollar og annað virðast oft fara eftir geðþótta.

Sæmundur Bjarnason, 5.1.2012 kl. 16:18

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir skemmtileg skrif á árinu 2011. Fyrirgefðu dónaskapinn Sæmundur, gleymdi áramótakveðjunni en bæti úr því hér með.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.1.2012 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband