3.1.2012 | 23:23
1578 - Trú og von
Við blokkina að Hrafnakletti 6 og 8 í Borgarnesi.
Það vill svo til að mér er alvara með þetta varðandi fuglana sem ég talaði um í gær og lýsi því hérmeð yfir að hávaða og sprengju-unnendur þessa lands hafa sennilega myrt þúsundir fugla síðastliðið gamlárskvöld. Mér finnst þeir ekki hafa neitt sér til afsökunar og ekki vera hótinu betri en minkar og refir.
Getur nokkur manneskja lifað án trúar? spyr Hrannar Baldursson heimspekingur með þjósti miklu og gerir í framhaldinu lítið úr öllum sem hann kallar ekki menn. Semsagt dýrum merkurinnar (og fleirum) sem hann þekkir ekki neitt nema af afspurn. Ég er oft sammála Hrannari en get ekki verið það þarna. Að halda því fram að allir hljóti að trúa er bara hundalógik með merkingu orða.
Ef ég rannsaka hug minn varðandi trúmál verð ég að viðurkenna að gagnrýnendur á borð við DoktorE hafa sennilega haft of mikil áhrif á mig. Mig langar vissulega til að trúa á einhverskonar guðdóm og einhverskonar framhaldslíf en er ákaflega hræddur um að vísindin (ef hægt er kalla þau það) hafi rétt fyrir sér um tilgangsleysi lífsins. Finnst allur þessi tilgangur sem menn sjá í hverju horni vera tómar mannasetningar og ekki eiga við neitt að styðjast. Get ekki með nokkru móti séð að maðurinn með alla sína heimspeki og allan sinn skáldskap standi neitt nær guðdómnum en dýrin. Geri hann það er það óréttlæti hið mesta. Það getur vel verið að það sé grundvallarmunur á hugsun manna og dýra en að taka frá dýrunum guðdóminn bara vegna þess er alls ekki sanngjarnt. Sanngirni og réttlæti finnst mér standa öllum guðshugmyndum ofar. Ef hugmynd um framhaldslíf felur í sér á einhvern hátt sameiginlegt framhaldslíf alls lífmassa á jörðinni get ég fallist á hana en á annars afar erfitt með það.
Ég get fallist á að umræða um trúmál skipti verulegu máli. Sú umræða á það þó til að fara út um víðan völl því áherslur fólks í þessu efni eru mjög mismunandi. Sjálfum finnst mér aðskilnaður manna og dýra vera ágæt aðferð við að einangra og takmarka umræðuna og beina henni á tiltölulega einfalda braut. Munur manna og dýra er oft svo lítill að markalínuna er afar erfitt að draga. Geimfarar sem kæmu til jarðarinnar mundu þó líklega ekki eiga í neinum vandræðum með það og hiklaust telja okkur mennina til dýra.
Fékk í dag fésbókarbréf frá Ásþóri Ragnarssyni varðandi Borgarnesmyndir. Hægt er að skoða þessar myndir á fésbókarsíðu Ásþórs og margar þeirra eru mjög góðar. Linkurinn er svona, held ég: http://www.facebook.com/#!/photo.php?fbid=10150489991573346&set=a.10150489978938346.386869.717778345&type=1&theater
Mikið er að sjálfsögðu bollalagt um næsta forseta landsins. Þeir sem eru mótfallnir því að bollaleggja vilja auðvitað hafa ÓRG bara áfram. Hann hefur ekki alveg útilokað það. Er líklega að vona að einhverjir skori á sig að halda áfram. Kannski eru þeir til sem taka það að sér. Ef ekki verða aðrir en Jón Gnarr, Jón Bjarnason og Ástþór Magnússon (af gömlum vana) í framboði gæti vel farið svo að ég kysi Jón Gnarr. Ekki er þó víst að bollaleggingarnar verði það skemmtilegasta í þessum kosningum. Framboðin sjálf gætu orðið ljómandi skemmtun líka. Hugsanlegt er að Dabbi, Styrmir, Bíbí og jafnvel fleiri leyfi ÓRG að fara í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í næstu þingkosningum. Eins og Eiður Guðnason segir þá á Ólafur bara eftir að verða forsætis til að slá Gunnari Thoroddsen við. Sennilega dreymir hann um það.
Athugasemdir
I once heard a scientists say that if a superior being was trying to explain evolution to primitive man, the story would go something just about like the way Genesis reads. So whenever I hear a scientific theory, I wonder if it also contains the echoes of something spiritual. Last night I was watching a program on current theories in physics, like string theory and parallel dimensions being like membranes that sometimes intersect with the membrane our universe is on. 5000 years ago, if superior being were trying to explain that to primitive man, they would have said we live nearby but you can't see us. Well maybe that isn't the best example, but anyhow, I think there will be a convergence between scientific and spiritual theories of life eventually, and this silly dichotomy will fade away.
Elisabeth Ward 3.1.2012 kl. 23:56
It seems to me that believers will go to extraordinary lengths to explain their believs for nonbelivers, but I have to believe myself so it makes sense to me. I think believing is an individual thing.
Sæmundur Bjarnason, 4.1.2012 kl. 08:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.