1553 - Skák

Scan191Gamla myndin.
Jól á Vegamótum. Hafdís er sennilega að rétta mér vindilinn.

Enn lengist Síonista-svarhalinn. Meira að segja Jón Valur Jensson er að mestu hættur að nenna að skrifa þar og er þá mikið sagt. Nú er verið að rífast um mismunandi greinar af Gyðingdómi, sýnist mér. Ekki ætla ég samt að loka fyrir athugasemdirnar. Fæ ekki séð að skrif af þessu tagi geri nokkrum mein. En ég vara menn við að lesa þessi ósköp, þau eru ekki þess virði að mínu mati.

Svona í tilefni af því að ungu og efnilegu krakkarnir tefldu nýlega við Friðrik Ólafsson sem nú er að verða 77 ára gamall og stóðu sig bara vel, langar mig að rifja upp smábút úr skáksögunni. Í pólska bænum Slupsk var árið 1979 haldið skákmót. Ungverski stórmeistarinn Istvan Bilek, sem fæddist árið 1932 og var fyrst Ungverjalandsmeistari 1963, tefldi þar og gerði jafntefli í öllum sínum 10 skákum og var fljótur að því. Lék alls 125 leiki og notaði samtals 109 mínútur. Geri aðrir betur. Bilek tapaði reyndar á tíma fyrir Bobby Fischer árið 1962 eftir að hafa notað meira en tvo og hálfan klukkutíma á 27 leiki. Fischer notaði 2 mínútur.

Mér finnst þetta Gilzenegger-mál sem allir eru að fjasa um núna vera með öllu óáhugavert. Óþarfi var þó að hafa mynd af honum utan á símaskránni, en vonandi hefur sú auglýsing verið dýr. Helst rándýr. Umræða um nauðganir er samt ekkert óáhugaverð í sjálfu sér, en ég hef bara skoðanir á sumu. Í aðalatriðum hef ég skoðanir á því sem mér sýnist og læt það duga.

Ekki sýnist mér þörf á að vorkenna Teiti Atlasyni ef dæma má eftir nýjustu vendingum í Kögunarmálinu. Gunnlaugur virðist samt ekki vera á þeim buxunum að hætta við málshöfðunina. Hann er þegar búinn að tapa svo miklu PR-lega á þessu máli að honum finnst kannski að hann geti ekki tapað meiru þar. En ef þetta mál hefur áhrif allt fram að næstu alþingiskosningum fara peningar að hætta að skipta máli. Íslenskir dómstólar virðast ætla að reyna að hafa áhrif á þróun málfrelsis á Internetinu. Líka er hætt við því að útrásarvíkingar fái vingjarnlega meðferð hjá þeim.

IMG 7203Sjóræningi í Fossvoginum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Svakalega veit ég lítið um Teitsmálið. Síónistadeilurnar opnaði ég aðallega að forvitni en las nánast ekkert, hvað þá að ég legði í að tjá mig. Hinvegar er ég hinn ánægðasti með að vera ekki enn búinn að fá mér Gilz-símaskrána. Skákskrif skauta ég lauslega yfir en hef alltaf jafn gaman af gömlu myndunum.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.12.2011 kl. 00:14

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Emil Hannes.

Gillzmálið er sennilega að taka allt yfir núna, bæði Kögunarmálið (Teitsmálið) og annað. Sennilega er best að hugsa ekki mikið um þetta. Allt verður pólitískt á endanum. Pólitíkin er vandræðatík, verri en rjómatíkin eins og HKL sagði.

Skákin er svosem eins og fótboltinn. Menn flýja yfir í einhvern gerviheim því sá ekta er svo leiðinlegur.

Sæmundur Bjarnason, 5.12.2011 kl. 03:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband