1547 - Um víkinga, ríkisstjórn o.fl.

fa28Gamla myndin.
Hvað vilt þú upp á dekk? Hryggjarliður úr hval til vinstri á myndinni.

Það er í tísku núna að spá ríkisstjórninni falli. Ekki geri ég það en minnist þess að ein eftirtektarverðustu ummælin í ævisögu Steingríms Hermannssonar voru eitthvað á þá leið að forsætisráðherra á hverjum tíma geti búist við því að fara úr einni krísunni í þá næstu. Jóhanna og Steingrímur hafa ekki farið varhluta af þessu og það er vegna þess sem ég held að ríkisstjórnin haldi velli núna ekkert síður en verið hefur. Stjórnarandstaðan ímyndar sér alltaf að nú sé loksins búið að fella ríkisstjórnina en samt tekst það ekki. Andstæðingar hennar eru að vísu ansi háværir og víst er meirihlutinn tæpur og jafnt ráðherrar sem aðrir gefnir fyrir að bera ágreining sinn á torg.

Ég var orðinn þrítugur þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda. Það var árið 1972. Við fórum þá í hringferð með Gullfossi og komumst lengst í suður til Hamborgar. Fyrst komum við til Dublinar á Írlandi og einn af fyrstu dögunum þar fórum við í ferðalag til Glendalough. Þar sáum við meðal annars allháan turn sem okkur var sagt að væri meira en þúsund ára gamall. Okkur var einnig sagt að í stað sements og steypu hefði verið notað uxablóð til að líma steinana saman. Við spurðum leiðsögumanninn einnig hvers vegna turninn hefði verið reistur.

Svar hans varð til þess að ég þurfti að endurskoða ýmsar hugmyndir mínar um Íslandssöguna en honum þótti spurningin greinilega óþörf mjög og sagði eitthvað á þessa leið:

„Nú, það var til að sjá hvort víkingarnir væru að koma.“

Fram að þessu hafði ég að sjálfsögðu litið á víkingana sem miklar hetjur og að hámarki hreystinnar hafi þeir náð þegar þeir fóru í víking til framandi landa. Nú skildi ég allt í einu að frá sjónarmiði annarra voru þeir verstu terroristar síns tíma. Jafnvel verri en Tyrkjaránsdjöflarnir voru mörg hundruð árum seinna.

IMG 7169Laufblað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú hefur verið einn siðasti íslendingurinn að sigla með Gullfoss, meðan hann var í eigu EÍ?

Ólafur Sveinsson 29.11.2011 kl. 09:22

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Held að þetta hafi verið síðasta eða næstsíðasta ferð Gullfoss áður en Eimskip seldi hann. Allavega var þetta í september 1972. Skákeinvíginu var nýlokið og einhver æsingur var í sambandi við landhelgismálið. Írar sem við hittum á bar héldu að við værum að tala finnsku, en þegar þeir vissu að við værum Íslendingar voru þeir voðalega hrifnir af því að við stæðum uppi í hárinu á Tjallanum.

Sæmundur Bjarnason, 29.11.2011 kl. 09:35

3 identicon

Komuð þið ekki við í Cork?

Ólafur Sveinsson 29.11.2011 kl. 10:02

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei.

Sæmundur Bjarnason, 29.11.2011 kl. 16:37

5 identicon

Kann ámóta sögu að segja frá í des. 1972. Við vorum tveir inni á hótelbar í London og þar var náttúrulega allskonar fólk, en þarna voru tveir kolabretar frá togarabæ á vesturströndinni, sem vildu rífast við okkur um landhelgismál þegar þeir uppgötvuðu hvaðan þessir sveitamenn voru. Við vorum nú ekkert sérlega sleipir í útlenskunni, en vorum að skylmast við dónana þegar allt í einu komu þrír Írar og blönduðu sér í deiluna. Eftir það þurfti ekki að spyrja að leikslokum. Þarna vorum við allt í einu orðnir fimm á móti þremur og Írarnir voru auk þess útlærðir í öllum þeim fúkyrðum, sem ensk tunga ræður yfir. Svo endaði þetta náttúrulega með viskýdrykkju fram undir morgun.

Ellismellur 29.11.2011 kl. 18:55

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já og írarnir keyptu handa okkur dökkan Guinness og sögðu að við yrðum að smakka hann því það væri ekta írskur bjór.

Sæmundur Bjarnason, 29.11.2011 kl. 20:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband