1538 - Nafngiftir o.fl.

Scan72Gamla myndin.
Svala Bragadóttir.

Bloggaði s.l. föstudagskvöld án þess að minnast á formannskjörið í Sjálfstæðisflokknum. Á Moggabloggi er slíkt auðvitað ekki skynsamlegt ef ætlunin er að margir lesi. Mér er sama. Veit að Hanna Birna vinnur auðveldlega og var áðan að lesa nokkuð skynsamlega grein hér á Moggablogginu eftir Svan Gísla um þetta mál.

Merkilegt í aðra röndina hve höll fréttastofa RUV er orðin undir Sjálfstæðisflokkinn en í hina röndina ekkert skrítið. Ef bara er miðað við fjórflokkinn og gengið útfrá því að allt verði eins og verið hefur er ekkert einkennilegt við að sá flokkur verði aftur stærstur. Aftur á móti er vel hugsanlegt að Hrunið hafi hreyft svo mikið við fólki að pólitíska landslagið breytist töluvert í næstu kosningum.

Er besta leiðin til að komast í Kastljósið að vera veikur? Komast allir sem eru veikir þangað? Og skyldi DV einhverntíma fjalla um aðra en útrásarvíkinga og þá sem eru á hausnum. Hvað er orðið um allt venjulega fólkið sem svaraði spurningu dagsins 365x4? Hver er hæsta talan sem hægt er að skrifa með þremur tölustöfum?

Skrifaði í gær um Þórunni Valdimarsdóttur og hvernig nafn hennar er skrifað. Við þessu hafa lítil viðbrögð orðið. Manns eigið nafn er þó einhver manns helgasta eign og alls ekki þýðingarlaus. Stundum er það samt gefið af foreldrum eða öðrum aðstandendum í einhverju bríaríi upphaflega, en eftir að viðkomandi einstaklingur er kominn til vits og ára ætti enginn að geta hróflað við nafninu án hans samþykkis. Mannanafnanefnd er að mínu áliti einhver ónauðsynlegasta nefnd landsins og er þá afar langt til jafnað. Séu börn nefnd einhverjum ónefnum eiga þau sjálf að leiðrétta þau mistök þegar þau hafa þroska til. Fram að þeim tíma er nafngjöfunum einum um að kenna.

Séu nöfn að einhverju leyti óvenjulega framborin eða skrifuð verða viðkomandi sjálfir að sjá um að rétt sé með farið og eru mörg dæmi um slíkt. Hagstofan og Þjóðskráin hafa samt farið illa með margan manninn án þess að nokkuð þýði að fara þar framá leiðréttingu. Hef sjálfur lent í því og einhver systkina minna einnig en ætla ekki að fjölyrða um það hér.

Rithöfundar hafa löngum haft sterkar skoðanir á nöfnum og kenningarnöfnum. Sennilega hefur Sigurður A(ðalheiðarson) Magnússon verið meðal þeirra fyrstu sem vildi kenna sig við móður sína ekki síður en föður. Nú er það aftur á móti orðin mikil tíska að kenna sig við móður sína. Þorgeir Þorgeirson hafði sterkar skoðanir á því hvernig stafsetja ætti nafn sitt. Mörg dæmi er hægt að finna um að þetta skipti verulegu máli.

Nafnvenjur okkar Íslendinga þykja útlendingum skrýtnar mjög. Að kenna sig einungis við móður sína er móðgun við föðurinn miðað við það sem tíðkast hefur. Líka er hægt að líta á það sem móðgun við móðurina að gera það ekki. Lausn Þórunnar sem minnst var á í gær er því eðlileg og óþarfi að hunsa hana.

IMG 7135Indíánatjald eða bátur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtilegt að sjá myndina frá Vegamótum. Var ekki Einar frá Dal með verkstæðið í Holti þegar þú varst þarna fyrir vestan, Sæmundur? Sammála þér með Hagstofuna, þegar starfsfólkið þar er búið að bíta eitthvað í sig getur enginn, ENGINN mannlegur máttur breytt því.

Ellismellur 20.11.2011 kl. 08:28

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, Ellismellur. Einar í Holti var bróðir Erlendar í Dal og hann bjó í Holti allan þann tíma sem ég var fyrir vestan.

Sæmundur Bjarnason, 20.11.2011 kl. 10:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband