1533 - Occupy Austurvöllur

Scan585Gamla myndin.
Öflug tæki.

Árásir mínar á aðra bloggara og nafntogaða menn eru oftast með mildara móti. Finnst mér sjálfum a.m.k. Mín ædól í bloggheimum eru Gísli Ásgeirsson, Jens Guð og doktor Gunni. Þeir eru allir fyndnir a.m.k. Ég reyni svolítið að vera líkur þeim því betri gerast bloggarar varla. Það væri þá helst Jónas Kristjánsson. Hann er bara svo orðljótur oft á tíðum og svo bloggar hann næstum eingöngu um stjórnmál og fréttir stærstu fjölmiðlanna. Bloggin hans eru hálfleiðinleg ef ekkert er haft með þeim. Veitingahússpistlarnir hans eru samt alveg í sérflokki. Snobbið lekur af þeim þó þeir séu góðir og eftirtektarverðir. Bæði Jens Guð og Dr. Gunni eru meira niðri á jörðinni þegar þeir bregða undir sig hamborgarafætinum.

Móðir eins skólabróður míns, Jóhanns Ragnarssonar á Grund, hét Þjóðbjörg. Mamma talaði oft um Friðsemd í Miðkoti. Mig minnir að Friðrik Friðriksson sem sá um þungaflutninga í Þykkvabæinn hafi átt heima í Miðkoti. Kristján sonur hans held ég að hafi keyrt einn bílinn. Hann kom stundum færandi hendi heim til mömmu man ég eftir. Vinkona Díönu Rósar, sem er uppeldisdóttir Benna, heitir Friðbjörg. Nafnið hennar er semsagt samsett úr nöfnum þeirra ágætu kvenna Þjóðbjargar á Grund og Friðsemdar í Miðkoti og í hvert sinn sem minnst er á hana detta mér þær konur báðar í hug. Hugrenningatengsl af ýmsu tagi eru stundum það undarlegasta sem á sér stað í heilanum.

Í stjórnmálunum og ESB málum ber einna hæst að stjórn samtaka atvinnulífsins (samtök atvinnurekenda) vilja a.m.k. halda viðræðunum við ESB áfram. Mér finnst það eðlileg niðurstaða þó hún henti ekki harðlínumönnum vel sem innlegg á landsfund sjálfstæðismanna. Fyrir utan formannskjörið þar kemur til með að vekja mesta athygli og skipta mestu máli hvernig ESB-málin verða afgreidd.

Tjaldbúðir eru nú með leyfi borgaryfirvalda og skilyrðum ýmsum býst ég við á Austurvelli. Þær fara mjög í pirrurnar á sumum og Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur einkum verið nefnd í því sambandi. Hvernig Reykjavíkurborg sýnir Alþingi lítilsvirðingu með því að leyfa að tjaldað sé á Austurvelli er mér reyndar hulin ráðgáta. Á fésbókinni er nú verið að reyna að smala fólki saman til að vera viðstatt opnun lýðræðisvefsins „Betra Ísland“ á Austurvelli á morgun miðvikudag. Ekki veit ég hvers vegna sá dagur hefur verið valinn og ekki er annað að sjá en þetta sé vinstri sinnað framtak. Það þarf auðvitað ekki að vera verra fyrir það. Þetta gæti vel orðið vísir að einhverju meiru.

Minnir að ég hafi einhverntíma látið orð falla um „Þorláksbúð“ þá svokölluðu sem verið er að reisa í Skálholti. Sú bygging fer afskaplega illa svona rétt við hliðina á steinkirkju þeirri sem fyrir er. Þó kannski hafi verið sýndur yfirgangur og frekja við þá byggingu afsakar það á engan hátt þann djöfulgang sem nú er hafður í frammi.

Ögn gáfulegri eru þær hugmyndir sem sagt er frá á mbl.is http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/11/15/midaldakirkja_risi_i_skalholti/ um miðalda-ferðamannakirkju sem kannski verður einhverntíma reist spölkorn frá núverandi kirkju í Skálholti. Annars finnst mér kirkjur vera nógu margar á þessu svæði og óþarfi að fjölga þeim. Vonandi verður samt ekki jafnmörgum milljörðum fleygt í þessa ferðamannakirkju og voru látnir elta hvern annan í Hörpunni. Annars er það mikilfenglegt hús sem með tímanum gæti orðið okkur Íslendingum til álitsauka þó dýrt hafi verið.

IMG 7093Er þetta eftir loftstein, eða hvað?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ríkharðsdætur hafa alltaf verið soldið fínar með sig enda pabbi þeirra frægur fyrir fótafimi og auk þess heiðursborgari Akraness.

Á umræðuþræði á FB kom fram aukatillaga við miðaldakirkjutilgátueftirlíkingarhúsið, sumsé að bjóða ferðamönnum að drekkja biskupi í Brúará fyrir 3 evrur. Ég hugsa að það myndi jafnvel trekkja enn meir en þetta skelfilega ljóta bákn og þyrfti einhver að koma hugmyndinni til Guðjóns Arngrímssonar og þeirra Icelandair manna.

Harpa Hreinsdóttir 16.11.2011 kl. 13:28

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Líst vel á þetta með biskupsdrekkingarnar. Kannski mætti líka selja Gerrekssonar-brúður. Eða á allt að vera innifalið í þessum 3 evrum? Mér finnst það ekki dýrt. Eigum við nóg af biskupum? Kannski Taflfélag Reykjavíkur eigi nokkra.

Sæmundur Bjarnason, 16.11.2011 kl. 15:03

3 identicon

Bendi á Skálholtskirkjur eftir Hörð Ágústsson.
Hét þessi vél ekki DT7?

Ólafur Sveinsson 16.11.2011 kl. 18:59

4 identicon

Pallurinn á Benzanum frá Sindrasmiðjunni?  Þá gæti ég sjálfur hafa hjálpað til,við að smíða hann.

Ólafur Sveinsson 16.11.2011 kl. 20:20

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ólafur, gömlu myndirnar eru ágætar. Þessi ámokstursvél/jarðýta þætti ekki ýkja stór í dag!!. Vörubíllinn er flottur. Veit ekkert hvort þetta er DT7 eða bara DDT.

Sæmundur Bjarnason, 16.11.2011 kl. 22:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband