11.11.2011 | 23:01
1529 - Bókatíðindi, klámvísa dagsins o.fl.
Klámið er að sjálfsögðu aftast í þessari bloggfærslu. Ef þú ert kominn hingað þess vegna þá er rétt að minna á að ég kann eða kunni a.m.k. einu sinni urmul af klámvísum. Á meira að segja einhvers staðar bækur um þetta efni þó ég viti ekki nákvæmlega hvar þær eru. Annars skrifa ég yfirleitt bara um það sem mér dettur í hug. Jafnvel þó það sé ekki í samhengi við vinsælustu umræðuefnin í bloggheimum.
Sigurður Hreiðar skrifaði nýlega um kaffi á sitt blogg. Trúr þeirri hugsjón minni að ekki skuli eyða sæmilegu bloggefni í athugasemdir datt mér í hug að þegar ég vann hjá Silla og Valda á Hringbraut 49 í gamla daga möluðum við kaffi allan liðlangan daginn og fólk kom úr öðrum bæjarhlutum til þess eins að kaupa kaffi hjá okkur. Fljótlega komust kúnnarnir upp á lag með að þreifa á pokunum ef kvörnin var ekki í gangi. Væru pokarnir heitir eða volgir viðkomu var kaffið nýmalað. Þeir kostuðu 37 krónur stykkið og í þeim voru 250 grömm.
Bókatíðindin eru komin hér á heimilið. Þeim þarf ég að fletta svolítið og kannski lesa. Vel getur það orðið til þess að bloggið mitt verði í styttra lagi að þessu sinni. Þó brotið á þessari bók sé ávallt eins er hún sífellt að verða þykkari og þykkari. Auðvitað er það galli. Ég á líka í vaxandi erfiðleikum með að gera mér grein fyrir því hvaða bækur af þeim sem fjallað er um í ritinu eru raunverulega nýjar. Endurprentanir, nýtt og breytt band, örlítið breyttar útgáfur, auglýsingar og hvers kyns skrum fer mjög vaxandi. Auglýsingarnar eru greinilega orðnar þungamiðja ritsins. Ugglaust tekst þó nú eins og venjulega að hefja ritið yfir venjulegan ruslpóst. Líklega fer áhrifamáttur þess samt þverrandi. Ef í ritinu væri eingöngu smá umfjöllun um allra nýjustu bækurnar og ekkert annað væri það mun betra.
Grasrótarsamtökin sem Rakel Sigurgeirsdóttir ásamt öðrum hefur skrifað mikið um á blogg og fésbók eru allrar athygli verð. Sturla Jónsson lætur einnig þar í sér heyra, skilst mér. Þessi samtök hafa aðsetur að Brautarholti 4 að ég held og voru heimsótt um daginn af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni. Hagsmunasamtök heimilanna, Occupy Wall Street samtökin og jafnvel Hörður Torfason virðast vera á líku plani.
Því miður er ekki annað að sjá en öll þessi samtök hafi fremur þröng áhugasvið þó í orði kveðnu viðurkenni þau það ekki. Þau reyna að höfða til sem flestra en taka alltof pólitíska afstöðu í flestum málum. Þannig fæla þau fólk frá þátttöku sem e.t.v. gæti hugsað sér að styðja þau. Helst er að sjá að starfsemin hvíli á allt of fáum og ekki er hægt að varast þá hugsun að þeir sem þar hafa hæst séu einkum að hugsa um eigin hag.
Stjórnmálasamtökin sem fyrir eru í landinu eru líka búin að læra á samtök sem þessi og reyna eftir megni að gera starfsemi þeirra sem erfiðasta. Fyrst eftir Hrunið árið 2008 voru allir hálflamaðir og fjórflokkurinn líka. Nú er andstaðan skipulegri.
Þau samtök fólks sem mynduðust nokkuð fljótt í árslok 2008 og héldu fundi sína á Austurvelli síðdegis alla laugardaga undir stjórn Harðar Torfasonar voru ekki þannig. Þeir sem þangað komu voru alls ekki að láta á sér bera, heldur aðeins að styðja þá einu kröfu sem þar var sett á oddinn, nefnilega að ríkisstjórnin sem þá var færi frá.
Þau samtök sem nefnd eru hér að framan og eflaust fleiri hafa alls ekki komið sér saman um eina meginkröfu og þess vegna er árangur þeirra ekki eins mikill og margir virðast vilja. Gerjun öll í pólitísku starfi er samt heilmikil og auðvitað getur þetta breyst snögglega.
Brjánn Guðjónsson (Brian Curly á fésbók) segir í athugasemd hjá mér:
Ég er nefnilega svo til hættur að logga mig hingað inn eftir að blog.is varð ósýnilegt umheiminum nema þeim sem leita það uppi.
Þetta er merkilegt. Ég vil ekkert endilega vera ósýnilegur. Kannski ég fari að reyna að linka í fréttir á mbl.is. Mér skilst að það sé nokkuð vinsæll vefur ennþá.
Klámvísa dagsins. Veit ekki eftir hvern hún er. Höfundurinn er líkast til svolítið bókmenntalega sinnaður samt eins og ég.
Eina bók á Auðargná.
Er sú fæstum boðin.
Spennslalaus og spjaldafá
og spássían er loðin.
Er gámatan betra en annað tan?
Athugasemdir
Sæll félagi,
Ég er svo hrifin af blogginu þínu að ég setti það á hægri dálk vefsíðulistans, undir áhugavert.
keep up the good work
Gunnar Helgi Eysteinsson, 12.11.2011 kl. 20:02
Man eftir frá því á gelguskeiði, hvað okkur strákunum þótti Bögubósasaga skemmtileg.
Örlar vart á því enn?
Ólafur Sveinsson 12.11.2011 kl. 20:04
Þú veist hvað vefsíðulistinn er en ekki gestir þínir... Hérna er slóðin: Topplistinn
Gunnar Helgi Eysteinsson, 12.11.2011 kl. 20:04
Takk Gunnar Helgi. Skil ekki alveg muninn á Topplistanum og Vefsíðulistanum. Hélt að ég væri með link á listann þinn.
Ólafur. Ertu ekki að meina Bósa sögu og Herrauðs? Í gamla daga var sú saga alltaf mikið lesin og sást það vel á því bindi í Fornaldarsögum Norðurlanda sem hún var í. Seinna var Bósa saga svo gefin út sérprentuð.
Sæmundur Bjarnason, 12.11.2011 kl. 22:44
Fornaldarsaga norðurlanda III sem Guðni Jónsson bjó til prentunar MCMLIV.
Ólafur Sveinsson 12.11.2011 kl. 22:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.