10.11.2011 | 22:29
1528 - Klám
Ellý Ármanns gerði það vinsælt á Moggablogginu forðum daga að klæmast svolítið. Held að þetta virki ennþá. Hef tekið eftir því að ef fyrirsögnin hjá mér er svolítið klámfengin þá fæ ég mun fleiri lesendur. En er það einhvers virði? Ég veit það svosem ekki. En ef margir lesa bloggið mitt fer varla hjá því að þeim fjölgi sem sjá hvílíkur afburðabloggari ég er. En svo gætu aftur á móti einhverjir sem eru vanir að lesa bloggið hætt því og þá er illa farið. Ég er nefnilega búinn að vera að byggja upp þennan lesendahóp síðan í árslok 2006. Hef jafnvel ekki látið Hrunið sjálft trufla mig að neinu ráði.
Um mig fitlar ununin
ástin kitlar sinnið.
Haltu um tittling mjúkan minn
með henni litlu þinni.
Þetta er lipurlega kveðið. Veit samt ekki eftir hvern þetta er. Þetta var lengi vel (og er jafnvel enn) ein af uppáhaldsklámvísunum mínum. Einu sinni kunni ég helling af þeim. Hugmynd væri að birta eina slíka í hverju bloggi. Nú, er þetta að verða eitthvert formúlublogg hjá mér?
Dómari getur ekki dæmt í máli vegna þess að lögin eru of óljós. Er það hlutverk dómara að ákveða hvernig lög eigi að vera? Mér finnst það ekki. Auðvitað eiga dómstólar að skera úr um hvort lög samræmist stjórnarskrá. Þarna þarf að vera hárfínt samspil á milli valdastofnana. Dómara getur þótt lög asnaleg, óljós, viðvaningsleg, klaufaleg, o.s.frv., en ef þau eru í samræmi við stjórnarskrá finnst mér að hann eigi að dæma eftir þeim engu að síður.
Einstaklingar þeir sem á alþingi sitja eru misjafnir. Þeirra hlutverk er samt sem áður að setja landinu lög sem landsmenn og dómarar eiga að fara eftir. Virðingarleysið fyrir alþingi má ekki ganga svo langt að almenningur og dómarar taki lögin í sínar eigin hendur. Þá er fátt eftir sem til bjargar getur orðið.
Aðferðin við skipun dómara er ef til vill gölluð. Ríkisstjórnin hefur hugsanlega ráðið þar of miklu og þeir þar með orðið of pólitískir. Virðingarleysið fyrir alþingi er alltof mikið. Ef virðingarleysið fyrir ríkisstjórninni og dómstólunum verður jafnmikið er hætta á ferðum.
Einhverskonar listi yfir misheppnuð mannvirki var til umfjöllunar í sjónvarpinu um daginn. Margt var þar gáfulega athugað en þó ekki allt. Landspítala- og Hringbrautarklúðrið hefði að mínum dómi átt að vera ofar á þessum lista. Háskólinn í Reykjavík átti ekki heima á listanum. Það er falleg bygging og í fallegu umhverfi. Byggingin fellur vel inn í umhverfið þó auðvitað hefði mátt nýta það í annað með góðum árangri. Helsti gallinn finnst mér hve bílastæðin þar eru gríðarlega stór og umfangsmikil, en hugsanlega má breyta því síðar.
Mikið getur Evran fallið. Samkvæmt sumum blöðum er fall hennar geigvænlegt og sífellt að aukast. Sennileg endar þetta með algjörum krónu-ósköpum. Ég er þó svo gamall að ég man vel eftir upphafi Evrunnar. Þá var gengið ákveðið það sama og dollars. Einhversstaðar þurfti að byrja. Held að hún sé þrátt fyrir allt fallið verðmeiri í dag en USA dollar.
Innbyggða klukkan fuglanna fer eftir birtunni. Á vorin sofa þeir bara í svona hálftíma en núna vakna þeir og byrja að syngja um svipað leyti og slokknar á götuljósunum. Kópavogur er gönguvænn kaupstaður. Ef gatnakerfið hér væri ekki eins og það er væri lítið gaman að fara í gönguferðir um byggð ból Kópavogs. Dalirnir hér um slóðir eru þó sums staðar eins og komið sé uppí sveit svo þangað má líka fara.
Svolítið áhugaverðar pælingar um framsóknarflokkinn voru í athugasemdum hjá mér í gær. Sigmundur Davíð virðist vera að fara á bakvið Sjálfstæðisflokkinn og komast hægra megin við hann. Þannig var flokkurinn ekki í gamla daga.
Hvort sem það er nefnd, stofnun, félag, einstaklingur eða eitthvað annað sem hefur átt að hafa með höndum gerð þessarar svonefndu Þorláksbúðar í Skálholti er það alveg forkastanlegt að hafa látið Árna Johnsen sjá um málið.
Athugasemdir
Gáta:
Hart og stinnt
loðið og lint
liggur á milli fóta
bæði karlar og konur
þess njóta?
Ólafur Sveinsson 10.11.2011 kl. 23:09
Já, og einhver lögfræðingurinn sagði að klám væri loðið og teygjanlegt hugtak!!
Sæmundur Bjarnason, 10.11.2011 kl. 23:34
Þú ert skemmtilegur bloggari Sæmi og mættir oftar pósta inn á facebook. Ég er nefnilega svo til hættur að logga mig hingað inn eftir að blog.is varð ósýnilegt umheiminum nema þeim sem leita það uppi.
Ég er ósammála þér með HR bygginguna. Hún gæti sómað sér vel einhversstaðar. En álskrímsli umvafið ekrum malbiks á ekki heima í náttúruperlunni Öskjuhlíð eða við Nauthólsvík.
Það er hreint umhverfisklám.
Brjánn Guðjónsson, 11.11.2011 kl. 00:05
Sæll Sæmundur, kom bara hér inn vegna fyrirsagnarinnar, nei svona í alvöru þá hef ég tekið eftir því að ef maður er ekki klúr eða talar illa um aðra/annað, ja eða ert á kafi í tíkinni þá ertu bara ekki lesin.
Gömlu góðu flokkarnir eru ekki til lengur þeir stóðu við það sem þeir lofuðu, ég tala nú ekki um ef maður landaði til sinna manna einhverju bitastæðu undir borðið.
Þetta þekkja nú allir sem eru komnir á aldur við okkur.
Góða helgi
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.11.2011 kl. 08:49
Lausnin á gátunni byggist á hreinlindri, barnalegri hugsun, en ekki klámfenginni.
Ólafur Sveinsson 11.11.2011 kl. 11:02
Takk Brjánn. Það getur vel verið að Nauthólsvíkin og Öskjuhlíðin séu náttúruperlur en Háskólinn í Reykjavík fer ekkert verr í umhverinu þess vegna, finnst mér.
Guðrún, getur ekki verið að það vanti eitt orð í málsgrein nr. 2? Annars er ég sammála þér.
Sæmundur Bjarnason, 11.11.2011 kl. 11:06
Sjá má Sæmundur á gömlu myndunum að fólk bar virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Þarna eru menn í dökkum jakkafötum, hvítri skyrtu og með bindi. Konurnar eru í kápum og gjarna með hatta en allvega með sett hár. Eg man eftir, að það vakti nánast hneyksli klæddust menn ljósum jakkafötum. Þessi fatamenning er næstum alveg horfin, menn klæðast helst gallabuxum og eru ræfilslegir til fara, margir hverjir. Heyrir til undantekninga að maður sjai konu kvenmannsklædda þ.e. í pilsi.
Björn Emilsson, 11.11.2011 kl. 12:03
Gamla myndin frá Lækjargötu 1965-70?
Ólafur Sveinsson 11.11.2011 kl. 12:49
Heyrðu Sæmundur og þið hin. Hvað sem kom fram í huga ykkar, þá er lausnin á gátunni.
Júgur.
Ólafur Sveinsson 11.11.2011 kl. 12:55
Já gæti verið orðið " EKKI" þá mundi þetta líta svona út: " stæðu ekki við það sem þeir sögðu".
Gamla myndin er frábær, þarna labbaði ég rúntin á mínum yngri árum.
Björn og hinir, maður klæddi sig upp á er í bæinn fór og ég er nú það ung að ég fer aldrei út nema vel til höfð, en aldrei í pils eða kjól ég fer, trúlega fengið nóg af því í vinnu hér áður fyrr.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 11.11.2011 kl. 13:20
Já, Björn. Öllu fer aftur. Þannig hefur það lengi verið. Mjög lengi.
Gömlu Reykjavíkurmyndirnar eru allar frá því fyrir 1970. Myndin hérna gæti verið tekin um 1967. Annars veit Bjarni sonur minn þetta betur. Sjá fésbókina.
Man að á Vegamótum ca. 1970 leyfði ég stelpunum að vera í síðbuxum undir sloppunum, en það hafði ekki tíðkast.
Sæmundur Bjarnason, 11.11.2011 kl. 13:34
Fyrst var ég bloggari... síðan kom facebook.... og núna er ég ótrúlega þreyttur á facebook. Ég les þitt blogg reglulega og ég veit að bloggið á eftir að slá í gegn aftur.
to the point; Takk fyrir að skrifa áhugavert blogg og vera einn af þeim sem heldur lífi í því.
Gunnar Helgi Eysteinsson, 11.11.2011 kl. 18:39
Gunnar Helgi. Segi það sama. (Hef aldrei verið á facebook). Skemmtileg skoðunarskipti, á rökrænum nótum. Án þess að skemma síðu Sæmundar.
Ólafur Sveinsson 11.11.2011 kl. 18:57
Takk Gunnar Helgi og Ólafur. Aðalgallin við fésbókina finnst mér vera hve ruglandi hún er. Maður veit yfirleitt ekki hvað maður er að gera þar. Hlutirnir bara virka af því að stjórnendurnir gera ráð fyrir næstum öllu. Fésbókin er eins og fuglabjarg.
Hér fyrir ofan er Brjánn Guðjónsson (Brian Curly á fésbók held ég) að skora á mig að skrifa meira á fésbók. Það hentar mér bara ekki. Mér finnst gott að geta verið nokkra klukkutíma að lagfæra og endurbæta, hætta jafnvel við ef mér býður svo við að horfa og pósta svo bara þegar mér finnst kominn tími til þess.
Sæmundur Bjarnason, 11.11.2011 kl. 19:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.