1527 - Sannleikanum verður hver sárreiðastur

Scan555Gamla myndin.
Lækjargata.

Hlustaði í gærkvöldi á endurtekið Kastljós. (Að hluta a.m.k.) Enn er verið að óskapast yfir biskupsmálinu. Ætlar þessu aldrei að linna? Af einhverjum ástæðum kýs kastljósfólkið að halda vitleysunni áfram. Ég er samt hættur þessu.

Fyrir þá sem ekki geta án einhverskonar klámumræðu verið er nú búið að vekja upp aftur deilur þeirra Davíðs Þórs Jónssonar og Maríu Lilju Þrastardóttur og reka hana (þ.e. Maríu) frá innihaldi.is sem er netmiðillinn sem allir óttast (eða eiga að óttast). Ég vil aftur á móti helst vera stikkfrí í þessari umferð.

Þá er nú skárra að ræða um Hrunið. Sú umræða snýst að vísu mest um hverjum það sé að kenna og af hverju það hafi dunið fyrr á okkur Íslendingum en öðrum og jafnvel af meiri krafti. Auðvitað komast menn ekki að neinni niðurstöðu um það, enda étur hver úr sínum pólitíska poka. Vitræn umræða slæðist þó öðru hvoru með og sumt af henni er býsna fróðlegt.

Occupy Wall Street umræðan virðist hafa náð tökum á Herði Torfasyni tónlistarmanni sem startaði búsáhaldabyltingunni á sínum tíma. Hver veit nema sú hreyfing nái smám saman tökum á fleiri og fleiri.

Sá sem er orðinn svolítið aldraður horfir til loka á bunurnar tvær sem í bollann fara frá Senseo-kaffivélinni sinni, en sá yngri fer að gera eitthvað annað og gleymir kaffinu. Þetta datt mér í hug áðan þegar ég fór og fékk mér kaffi. Og þó eflaust mætti teygja lopann eitthvað um þetta þá er erfitt að hafa málsgreinina öllu lengri.

„Sannleikanum verður hver sárreiðastur.“ Þetta gamla spakmæli datt mér að sjálfsögðu í hug þegar ég sá umfjöllun framsóknarflokksins um grein Eiríks Bergmanns í Fréttatímanum. Að einu leyti er ég þó sammála því sem haldið er fram af talsmanni flokksins. Uppsetningin er þannig að vel er hægt að álíta að Sigmundur Davið hafi sagt að framsóknarflokkurinn sé svona hallærislegur. Seint mundi hann þó viðurkenna það. Í greinargerð framsóknarflokksins er látið að því liggja að allir flokkar sem ekki tilheyra „fjórflokknum“ svonefnda séu öfgaflokkar. Það finnst mér ansi bratt og gæti trúað að einhverjir muni mótmæla því.

„Við erum að vinna okkar verk og erum að koma í veg fyrir að hlutir, sem búið er að setja mikla peninga í, skemmist ekki,“ bætir Árni við.

Segir í frétt mbl.is um Þorláksbúðarmálið. Er Árni Johnsen svona vitlaus eða blaðamaðurinn? Nei sinnum nei er sama og já, er þetta ekki kennt í barnaskóla?

Greddan hafði góð áhrif að því leyti að lesendur urðu fleiri en venjulega. Kannski maður verði mun vinsælli bloggari ef maður gætir þess að hafa fyrirsögnina yfirleitt svolítið klámfengna. Segi bara svona. Sem venjulega fyrirsögnina síðast af öllu og stundum er samband hennar við meginmálið ekki alveg ljóst.

IMG 7039Sko. Byko og Húsasmiðjan geta unnið saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæmi, þegar við vorum í Bifröst tók ég mig einu sinni til og fór á safnið og las talsvert af því sem Hriflu-Jónas, höfundur framsóknarflokksins, hafði skrifað í Skinfaxa í allmörg ár á öðrum, þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Enn í dag eru framsóknarmenn að lifa og starfa samkvæmt kenningum og hugmyndum þessa óhappamanns. Ég held að ef maður hefði ekki séð hverjum voru eignaðar greinarnar, hefði þær vel getað verið eftir tvo þýzka áhrifamenn þess tíma.

Ellismellur 10.11.2011 kl. 05:23

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Áttu við að Jónas hafi gert flokkinn að því nátttrölli sem hann er núna? Jónas var margra manna maki og þóttist allt geta og allt vita. Sá ekkert nema Bandaríkin og skrifaði alltof mikið. Þegar búið var að setja hann útaf sakramentinu í flokknum hélt hann lengi áfram að skrifa langlokur miklar í Mánudagsblaðið.

Sæmundur Bjarnason, 10.11.2011 kl. 08:37

3 identicon

Já, eiginlega, ég man líka eftir langlokunum, eins og þú kallar það réttilega. Þá held ég nú að hafi verið farið að slá út í fyrir honum.

Ellismellur 10.11.2011 kl. 09:40

4 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Þú ert ekki einn um að furða þig á fjargviðrinu um biskupsdótturina og minningar hennar. Ætli svo mikið hefði verið með látið hefði karlinn verið loftpressustjóri eða rafvirki? – Meðan ég var að safna efni í Sögu bílsins á Íslandi hitti ég margt fólk sem rifjaði upp gamlar, áhugaverðar og eftirminnilegar minningar. Sem reyndust þegar maður fór að renna fleiri stoðum undir alls ekki get staðist. Samt var þetta fólk ekki að ljúga. Það var bara búið að samsama sig svo þessum „minningum“ sem reyndust ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Í ævisögu sinni segir Guðmundur frá Stóra-Hofi frá því að 1912 hafi hann þurft að komast til Reykjavíkur og þaðan að Hvanneyri til að taka þátt í námskeiði sem sannanlega var haldið þar það ár. Hann reið að Ægissíðu og fékk þaðan bílfar suður. Gott og vel -- nema fyrsti bíll kom ekki að Ægissíðu fyrr en 1913.

Sigurður Hreiðar, 11.11.2011 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband