1523 - Barnaskóli Íslands

Scan478Gamla myndin.
Austurstræti.

Allir hafa einhverja galla. Eflaust ég sjálfur líka. Heldur er það þó ólíklegt. Mér finnst a.m.k. gallar annarra miklu meira áberandi. Maður verður bara að sætta sig við þá. Af hverju geta ekki allir hugsað eins og ég? Mér finnst það stór galli. Fáir hugsa jafn skýrt. En svona er lífið. Eintóm vonbrigði. Verður maður ekki bara að reyna að gera gott úr þeim. Það tekur því ekki að vera að gera sér rellu út af ófullkomleika annarra. Lífið er of dýrmætt til þess.

Sálfræðilega séð er flest á niðurleið núna. Einkum hér á Norðurhjaranum. Veturinn nálgast og sólin er farin í frí. Sýnir sig þó í mýflugumynd suma daga. Næstum aldrei kemur þó almennileg hríð og snjór sem talandi er um hér í Reykjavíkinni. Sumrin eru þó ekkert til að fussa yfir. Sólskin og hiti daginn langan. Best væri að skríða í híði í nóvemberbyrjun og koma ekki úr því fyrr en í maí. Stefni að því. Á ég samt að blogga úr híðinu? Já, ætli það sé ekki best.

Síðastliðið sumar var ég eins og margir fleiri að flækjast um á Akureyri. Þar sá ég gamalt og virðulegt hús á góðum stað og utan á því stóð að það héti Rósenborg. Það fannst mér af einhverjum ástæðum lygilegt. Fannst einhvern veginn að svona virðulegt gamalt hús ætti að heita allt annað. Ef það þyrfti endilega að heita eitthvað. Man að ég tók mynd af þessu húsi. (sjá neðst)

Nú sé ég á fésbókinni að Ragnar Hólm kallar þetta hús Barnaskóla Íslands. Það finnst mér miklu skárra nafn en Rósenborg.

Nú er ég óðum að komast í mitt gamla form að því leyti að ég blogga á hverjum degi, eða svotil. Það er samt að mestu ómeðvitað. Bara vani satt að segja. Mér finnst þægilegt að fílósófera við tölvuna. Sumir vilja helst hafa pappír og blýant fyrir framan sig við slíka iðju en mér finnst lyklaborðið betra. Svo les ég það yfir sem ég hef krotað á blaðið. Felli út og lagfæri og þegar það er orðið hæfilega langt, ég sæmilega ánægður með það og klukkan hæfilega margt þá hendi ég því á Moggabloggið og set inn myndir sem ég hef áður öpplódað. 

Það kitlar hégómagirnd mína að heyra það stöku sinnum að fólk lesi bloggin mín reglulega. Einu slíku atviki lenti ég í nýlega. Auðvitað er þetta mikið hrós. Ég kann samt ekki að taka því og fer allur í kleinu.

IMG 6298Barnaskóli Íslands.

IMG 7006Hér er allt í flækju.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki skil ég af hverju þér er svona illa við nafnið Rósenborg og af hverju það er svona óvirðulegt. Gaman væri að vita það.

 

Mér þykir vænt um nafnið Rósenborg. Það er sótt í gamalt hús á svipuðum slóðum sem löngu er horfið en var æskuheimili föður míns, svo eitthvað sé nefnt. Húsið sem þú fjallar um var Barnaskóli Akureyrar, ævinlega kallaður Barnaskóli Íslands af alkunnri hógværð Akureyringa. Ég er sammála þér um það að nafnið Rósenborg hæfir því húsi alls ekki en mér sýnist við „nálgast málið“ á ólíkum forsendum.

 

Svo vil ég nota tækifærið og þakka þér fyrir einstaklega skemmtilega bloggsíðu.

 

Jón H. Brynjólfsson

Jón H. Brynjólfsson 6.11.2011 kl. 02:10

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk fyrir hrós um bloggsíðuna mína. Mér er ekkert illa við nafnið Rósenborg. Finnst það bara fara þessu húsi fremur illa og skil það alls ekki. Minnir þó að ég hafi heyrt það í vísu sem ég kunni einhverntíma.

Sæmundur Bjarnason, 6.11.2011 kl. 08:30

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Á leiðinni út í Dragør skammt utan við Kaupmannahöfn er hús sem nafnið er letrað á, stórum stöfum: Sæll vertu. -- Betra en Rósenborg?

Sigurður Hreiðar, 7.11.2011 kl. 22:36

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Mér er ekki kunnugt um að nafnið Rósenborg sé svo samtvinnað sögu Akureyrar að skíra þurfi gamalt, stórt og virðulegt hús því nafni. Ég held mig við það að betra sé að kalla húsið Barnaskóla Íslands.

Annars minnir mig að einhversstaðar á Kílarskurðinum sé (eða hafi verið) til siðs að leika þjóðsöngva þeirra landa sem skipin sem framhjá fara eru frá. Þar heyrði ég íslenska þjóðsönginn einu sinni leikinn.

Sæmundur Bjarnason, 8.11.2011 kl. 16:09

5 identicon

Þessi áróður gegn Rósenborgarnafninu verður æ illskiljanlegri. Það virðist ekki vera nógu virðulegt, að þínu mati, á þetta barnaskólahreysi. Veist þú eitthvað um sögu Akureyrar yfirleitt? Svo er rétt að benda þér á að hús eru sjaldnast skírð.

Jón H. Brynjólfsson 12.11.2011 kl. 05:43

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gallinn er að sennilega lesa þetta engir nema við, Jón. Mér finnst þú vera ansi viðkvæmur gagnvart þessu Rósenborg nafni. Hús eru sjaldnast skírð segir þú með þjósti miklu og kallar húsið barnaskólahreysi. Mér finnst þú fordómafullur. Ég veit að hús eru ekki skírð í kirkjum. Á kannski ekki að álíta að þetta nafn sé á húsinu? Húsið er stórt og virðulegt (ekkert hreysi) og ég efast um að eitthvert Rósenborg-hús hafi verið stærra og merkilegra. Haltu samt endilega áfram ef þú vilt.

Sæmundur Bjarnason, 12.11.2011 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband