18.10.2011 | 23:45
1506 - Bloggleiðbeiningar
Gamla myndin
er frá Vegamótum og gæti verið nefnd kveikt í rusli.
Skyldi ég hafa einhver áhrif með þessum bloggskrifum mínum? Stundum ímynda ég mér það og skrifa um málefni dagsins og þykist voða gáfaður. Auðvitað er ég það ekki og er sífellt að gera óttalegar vitleysur. Óþarfi er þó að segja frá þeim og ég get þóst vita allt mögulegt með hjálp Gúgla. Vandinn er að setja það í þannig samhengi að einhver nenni að lesa það. Það þykist ég kunna en því er ekki að leyna að stundum mistekst mér það herfilega.
Satt og logið sitt er hvað.
Sönnu er best að trúa.
En hvernig á að þekkja það
þegar flestir ljúga.
Þetta er gamall húsgangur sem ég hef ekki hugmynd um eftir hvern er. Mér finnst hann þó sannur að mörgu leyti. Algengara er þó að nota hálfsannleik og segja ekki frá því sem maður veit sannast og réttast. Mér finnst með ólíkindum hvað er hægt að bjóða fólki í því efni. Bloggið er slæmt að þessu leyti. Jafnvel verra en fjölmiðlarnir. Vitleysur, ambögur og allskyns villur eru þó alltof algengar hjá þeim. Ef þeir vönduðu sig meira (netmiðlarnir sérstaklega), læsu betur yfir og minnkuðu þýðingaráráttuna væru þeir mun betri.
Auðvitað fer því fjarri að ég viti nógu mikið um þá hluti sem ég er að burðast við að blogga um. En hvenær veit maður nógu mikið? Það veit ég nefnilega ekki heldur og þessvegna blogga ég eins og rófulaus hundur. Nú, blogga þeir mikið? Veit það ekki.
Kannski er það eitt af því fáa sem ég veit eitthvað um hvernig blogg eru skrifuð. Leiðbeiningar um það gæti ég reynt að skrifa fyrir þá sem endilega vilja skrifa blogg eins og ég geri, en það má auðvitað gera á margan hátt. Grundvallaratriðið hjá mér er að skrifa það sem á endanum verður að bloggi í Word skjal sem auðvelt er að líma síðan í formið sem maður fær á blogginu sjálfu. Ég veit lítið um hvernig farið er að því að blogga á öðrum setrum, en því sem hýsir Moggabloggið.
Þegar ég er búinn að skrifa það sem gæti orðið blogg er næst að ljóma (með shift og ör) það sem ég vil kópíera. Næst er að ýta samtímis á ctrl og c takkana og síðan er farið á bloggið eins og maður ætli að skrifa eitthvað þar. Jú, rétt er að leggja fyrirsögnina á minnið og skrifa hana síðan handvirkt í viðeigandi reit. Það geri ég a.m.k. Síðan er bendillinn settur efst og fremst í dálkinn þar sem bloggið á að koma og ýtt samtímis á ctrl og v takkana og presto bloggið er komið á sinn stað.
Ef til vill þarf aðeins að fara yfir línuskiptinguna fremst í blogginu og svo er komið að því að setja myndir inn, ef vill. Þá er auðvitað best að fara eftir leiðbeiningunum um það en auðvitað verður að gæta þess að vera búinn að uplóda myndina. Fjölyrði svo ekki meira um þetta nema ég verði beðinn um það eða þurfi að teygja lopann í einhverju blogginu.
Mér finnst ekkert ákaflega langt síðan ný Alistair MacLean-bók kom út fagurlega innbundin fyrir hver jól. Byssurnar í Navarone, Ég sprengi klukkan tíu o.s.frv. o.s.frv. Þetta var áður en íslenskar spennusögur eða krimmar urðu eins margir og nú er. Man að ég las einhvern tíma bók eftir MacLean þar sem lýst var á mörgum blaðsíðum miklu óveðri á sjó. Notuð voru hástigs lýsingarorð og skipið var orðið mjög laskað. Mennirnir börðust hetjulega við stórsjóina og allt var að farast. Þessi frásögn var afar dramatísk og nákvæm. Veðurofsanum var lýst af mikilli hind. Meðal annars kom fram að vindhraðinn var heil 7 vindstig. Siðan hef ég með sjálfum mér kallað bækur af þessu tagi 7 vindstiga bækur.
Þetta held ég að sé rithönd HKL. Var á sýningu í Listasafni Árnessýslu í Hveragerði.
Athugasemdir
Fyrir jólin var alltaf keypt innbundin bók McLeans og faðir minn las hana upphátt fyrir mömmu meðan hún stóð í jólabakstrinum. Ég asnaðist til að segja frá þessu í barnaskólanum á Laugarvatni og fékk háðsglósu frá skólastjóranum í staðinn. En mér þykir alltaf vænt um bækur McLean síðan og endurles sumar öðru hvoru.
Harpa Hreinsdóttir 19.10.2011 kl. 12:58
Alistair MacLean skrifaði dæmigerðar spennusögur, finnst mér. Las margar þeirra á sínum tíma. Þótti víst ekki sérlega menningarlegt. Er að mestu hættur að lesa þannig bækur, en það er samt prýðileg dægrastytting. Útskrifaðist frá Alistair þegar farið var að þýða bækur eftir Sjöwall og Wahlöö, minnir mig.
Sæmundur Bjarnason, 19.10.2011 kl. 13:39
Mannmargt á Vegamótum, þessum árum?
Ólafur Sveinsson 19.10.2011 kl. 17:25
Já, já. Það voru margir að vinna á Vegamótum á þessum árum. Færri á veturna samt, en alltaf opið.
Sæmundur Bjarnason, 19.10.2011 kl. 18:30
Rithöndin kunnugleg og einhver
þekktasta tilvitnun íslenskra
bókmennta úr Heimsljósi þar.
Húsari. 23.10.2011 kl. 11:36
Já, Húsari ég er alveg sammála þér. Það má vel lesa það sem skrifað er þarna og það er greinilega upphafið að heimsljósi.
Sæmundur Bjarnason, 27.10.2011 kl. 11:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.