1503 - ESB og fleira (jafnvel Austurvöllur og Lækjartorg)

Ég er ekkert að gefa mig með það að baráttan hvað mótmæli snertir virðist standa á milli Austurvallar og Lækjartorgs. Svo þeir sem þetta lesa viti hvernig þetta horfir við mér, þá eru þeir sem reyna að láta þetta líta út sem alheimsmótmæli (Occupy Wall Street) kannski fleiri á blogginu og vilja umfram allt að þetta verði á Lækjartorgi. Hörður Torfa (og Eiríkur Bergmann) vilja aftur á móti halda sig við Austurvöllinn sýnist mér og jafnvel líka kenna mótmælin við „Occupy Wall Street“. Veðrið virðist ætla að verða sæmilegt, en ætli þetta ósamkomulag um staðinn (nema mannfjöldinn nái saman) verði ekki til þess að fáir mæti.

Ef við gefum okkur að Hæstiréttur dæmi eftir lögum þá er meiðyrðalöggjöfin hér á landi meingölluð og notuð af mörgum (einkum auðmönnum) til þöggunar. Auðvitað verða mestu orðhákarnir fyrst fyrir barðinu á þeirri þöggun, en öðrum er líka hætt. Hæstaréttardómur yfir Jóni Bjarka Magnússyni er mörgum hugstæður núna. Hann gleymist skjótt en virkar samt til frekari þöggunar.

Sighvatur Björgvinsson sagði í Kastljósi sögu af manni sem sat í 27 ár í einangrun í Bretlandi. Ekki datt þáttarstjórnanda í hug augljósasta spurningin í því sambandi. Hún er: „Hvar er hann núna?“

Ég er að mestu hættur að tala og skrifa um ESB enda hef ég lítið í þann stóryrta hóp að gera sem mér virðist einoka allt blogg um málið. Mér finnst að vísu leiðinlegt hve margir það eru sem vilja koma í veg fyrir að hægt verði að greiða þjóðaratkvæði um málið en hef ekki breytt um afstöðu til bandalagsins. Þessir andstæðingar ESB eru held ég ekki andstæðingar þjóðaratkvæðagreiðslna yfirleitt, heldur finnst þeim réttast að gera þessa undantekningu og losna við málið sem fyrst, þó á grundvelli skoðanakannana einna sé.

Auðvitað má segja að þjóðaratkvæðagreiðsla sé bara skoðanakönnum í stærri kantinum. Hræddur er ég samt um að slíku verði að hlíta, þó einhverjir verði eflaust tapsárir og telji hana hafa farið fram á röngum tíma og e.t.v. verið vitlaust orðaða.

Þær 4 þjóðaratkvæðagreiðslur sem hugsanlega fara fram á næstu misserum vekja mikinn áhuga minn og einnig er mér mikil forvitni á að komast að því í hvaða röð þær verða. Ég er að hugsa um að lista þær hér upp en það er hugsanlega einhverjum til hægðarauka.

1.      Þjóðaratkvæðagreiðsla um inngöngu í ESB.

2.      Næstu alþingiskosningar.

3.      Einhverskonar þjóðaratkvæðagreiðsla/greiðslur um nýja stjórnarskrá.

4.      Forsetakosningar næsta vor.

Það eru reyndar allmargir sem vilja koma í veg fyrir atkvæðagreiðsluna um stjórnarskrána og vel getur hugsast að þeir hafi sitt fram. Hjá alþingiskosningum verður alls ekki komist, sem betur fer. Spurning er samt um hvað þær muni einkum snúast og hvenær þær verði. Kannski verða þær einkum um hinar atkvæðagreiðslurnar sem hugsanlega verða ekki. Í mínum augum er ESB atkvæðagreiðslan mikilvægust. Í samstarfi og samvinnu við þær þjóðir sem þar eru finnst mér við eiga að vera. Skipulagið þar er afar lítið öðruvísi en það sem við eigum að venjast. Norðurlandaþjóðirnar sem þar eru inni (Noregur kemur seinna.) eiga að vinna náið saman og breyta Evrópubandalaginu. Svipað er að segja um forsetakosningarnar og alþingiskosningarnar. Þær verða örugglega, en ekki er vitað hverjir verða í framboði og það skýrist kannski ekki fyrr en vitað er hvað ÓRG ætlar sér.

Stærðin á ESB er að verða of mikil og það veldur ýmsum vandræðum. Bæði almennt séð og fyrir ESB-ríkin sérstaklega. Vandræði ESB-ríkjanna verða þó sennilega ekki mikil miðað við það sem við Íslendingar eigum að venjast. Öll þau vandræði verður þó skárra fyrir okkur að glíma við í samstarfi við ESB-ríkin en í andstöðu við þau.                

Björgvin Sigurðsson sem eitt sinn var ráðherra hefur hingað til verið í dálitlu áliti hjá mér, en nú er það horfið. Að heimta að réttargeðdeildin verði áfram á Sogni er svo heimskulegt að engu tali tekur. Hann talar eins og sjúklingarnir skipti engu máli, séu bara eins og hverjir aðrir kartöflupokar til þess eins að skapa atvinnu í Ölfusinu.

IMG 6856Fiskitrönur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sammála þér um að ég hefði viljað vita hvað varð um veslinginn sem mállaus sat 27 ár í einangrum í Bretlandi. Ef maður á að trúa svona löguðu. Spyrlinum var kannski vorkunn; hann hafði afmarkaðan tíma til spurninga og þurfti að mjólka pólitísku svörin upp úr Björgvini.

Líka sammála þér um þá heimsku að gera Sogn eða ekki Sogn að byggðapólitík.

Og trönumyndin þín er ein sú besta sem þú hefur birt.

Asskolli er ég annars í jákvæðu skapi í dag!

Sigurður Hreiðar, 16.10.2011 kl. 14:48

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk.

Sæmundur Bjarnason, 16.10.2011 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband