1502 - Lækjartorg eða Austurvöllur

Það stefnir í alvöru átök um það hvort skuli mæta á Austurvöll eða Lækjartorg á laugardaginn kemur. Held að ég fari á hvorugan staðinn. Ýmislegt bendir til að Lækjatorg sé til hægri en Austurvöllur til vinstri. Þó er það ekki óyggjandi. Andstaða við ríkisstjórnina virðist vera á báðum stöðunum. Stuðningur við Hrunið einnig. Verst með veðrið. Verði það ekki gott, má búast við að fámennt verði á báðum stöðunum.

Man eftir upphafi búsáhaldabyltingarinnar. Þá fór maður oft fyrir fundina hjá Herði (eða eftir) í Kolaportið til að hlýja sér. Svo var gjarnan löng röð hjá Bæjarins bestu.

Bandaríkjamenn undirbúa nú af kappi stríð við Íran. Líbýustríðinu er að ljúka, allir orðnir leiðir á Afghanistan og svo þarf að lappa upp á efnahaginn. Ekkert gagnast eins vel í því og þægilegt smástríð, sem hægt er að bakka útúr ef allt fer í vaskinn. Segi bara svona. Það eru margir sem hugsa eftir þessum brautum. Það hljómar kannski ekki mjög sannfærandi að Íransstjórn hafi ætlað sér að drepa einhvern kall í New York, en gæti alveg verið satt. Bandaríkamenn þekkja sitt áhrifasvæði. Er bara alltaf svolítið hugsi yfir þessu bévítans alþjóðasamfélagi. Af hverju fá ríkisstjórnirnar í Kína og Rússlandi ekki að vera með í því? Og af hverju má ekki taka mark á Sameinuðu Þjóðunum?

Að mörgu leyti er kalda stríðið aftur farið að gera vart við sig. Nú er vondi kallinn bara ekki Rússi heldur Múhameðstrúarmaður. Í gamla daga var ekkert Íslam til bara Múhameðstrú. Nýja orðið er samt styttra og þægilegra. Vinstri menn fylkja sér auðvitað um vondu Íslamskallana, en góðu sjálfstæðismennirnir og kapítalistarnir eru að sjálfsögðu miklu sterkari. Þar munar mest um yfirburðatæknina hjá USA. Í Flóabardaganum (ekki á Húnaflóa) drápust aðeins sárafáir Bandaríkjamenn en urmull af stuðningsmönnum hins illa Saddams.

IMG 6848Akranes.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Árið 1967 þurfti ég af sérstökum ástæðum að dveljast og starfa í landi sem gegnsýrt var af „Múhammeðstrú“. Þá voru Rússar enn vondir menn og kommúnisminn í heild óttalegur. En eftir þessa lífsreynslu mína boðaði ég hvar sem ég náði til: Hættum að agnúast út í kommúnismann. Hann er viðráðanlegur eins og er og ber sjálfur í sér sín eigin endalok. Hættan er af Íslam og hún er veruleg og viðvarandi. Beinum vörnum okkar þangað.

Auðvitað hlustaði enginn á mig. Og gerir ekki enn.

Sigurður Hreiðar, 13.10.2011 kl. 11:47

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Sigurður baráttan stendur um sálir mannanna eins og jafnan áður. Einu sinni (eftir kommúnismann, sem var bara grýla.) var talað um að suðrið mundi á endanum sameinast gegn norðrinu. (Þar sem auðurinn er.) Nú er þetta komið yfir í trúmálin en mun ekki afkoman og peningarnir ráða þessu öllu á endanum?

Sæmundur Bjarnason, 13.10.2011 kl. 12:07

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sæmundur, það er enginn hægri-vinstri munur á milli  viðburða á Lækjartorgi eða Austurstræti. Ég hef verið  með í undirbúningi fyrir Lækjartorg og hef reyndar hingað til ekki séð neitt einasta merki um hægri snúning þar.  Við höfum sett upp vefsíðu http://www.esjan.net/reykjavik fyrir okkar atburð. Hann er einn af mörg hundruð atburðum sem verða víðs vegar um allan heim, almenningur stendur upp og byrjar að ræða saman um breytingar.

Það er að ég held sameiginleg sýn okkar allra sem höfum sent út kvaðningu til fólks að mæta á Lækjartorg að það sé ekki hugmynd að að vera með hefðbundin miðstýrð mótmæli, ekki neinn foringi og ekki nein ein krafa, heldur samræða og leit að sameiningu hópsins, samstillingu almennings á móti ægivaldi fyrirtækja. Þetta eru mótmæli gegn fjármálavaldinu, gegn samfélagsgerð um allan heim þar sem allt snýst um fyrirtækin, oft alþjóðleg fyrirtæki með gróða að leiðarljósi.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 13.10.2011 kl. 13:25

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Salvör, eins og þú lýsir þessu þá er fyrirhugaður fundur á Austurvelli hrein skemmdarstarfsemi. Ég var að lesa eitthvað um þetta á fésbókinni og skildist að Hörður Torfason stæði fyrir samkomunni þar. Einhverjir kalla hann vinstri grænan. Þaðan fékk ég vinstri hugmyndina. Baldur Hermannsson minnir mig að hafi skrifað eitthvað á fésbókina líka til stuðnings Lækjatorgsfundinum. Þannig fékk ég hægri hugmyndina. Reikna ekki með að mæta, einfaldlega vegna þess að ég verð upptekinn við annað.

Sæmundur Bjarnason, 13.10.2011 kl. 14:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband