26.9.2011 | 23:44
1486 - Skákhundurinn
Sonur minn gaf einu sinni út tímarit sem hét Skákhundurinn. Ekki náði það mikilli útbreiðslu enda var það víst einskonar æfing í að nota eitthvert útgáfuforrit og átti sér sennilega stað nokkru fyrir síðustu aldamót. Greinarnar í blaðinu voru allar um skák og flestar teknar af Usenet ráðstefnunni rec.games.chess.
Já, ég get ekki neitað því að ég tefli marga tugi af bréfskákum samtímis á þremur serverum (vil nefnilega ekki borga fyrir þessi sérréttindi) og hef gaman af. En af hverju er ég að eyða tímanum í að tefla á Internetinu? Nú, það er til að geta setið sem lengst við tölvuna. Annars þyrfti ég líklega að gera eitthvað að gagni. Það er a.m.k. mun skemmtilegra að spekúlera í bréfskák en lesa þruglið á fésbókinni. Einn serverinn nálgast ég að vísu alltaf í gegnum Facebook.
Annars var ég núna áðan á mánudagsmorgni að eyða tímanum í að lesa nýjustu afurð Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar hér á Fornleifs(Mogga)-blogginu. Hér er beinn linkur á það til að flýta fyrir þeim sem vafra mikið um netið: http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/ Þetta er blogg til að fylgjast með. Vilhjálmur er nær alltaf skemmtilegur og til viðbótar oftast fróðlegur. Ætíð full-orðljóður og umtalsillur að mínu mati en samt get ég ekki stillt mig um að lesa margt af því sem hann skrifar.
Það er oft heilmikið fjör hér á Moggablogginu, en ég skil samt ekki af hverju ég fæ ekki tilkynningu um að Villi hafi samþykkt mig sem bloggvin á Fornleifs-blogginu en samt er komin mynd af mér þar. Minnir endilega að slíkar tilkynningar hafi maður fengið í gamla daga. Kannski fékk maður bara tilkynningu ef einhver vildi gerast bloggvinur manns. En það er nú svo margt sem ég skil ekki. Einkum ef það snýr að tölvum.
Um daginn var ég að lesa um uppvöxt Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings og sumardvöl hans til margar ára í Strympu (aka Straumfjarðartungu). Sú sumardvöl hefur víst verið fyrir komu Ingólfs þangað svo það er ekki alveg að marka. Vegamót, Holt og Strympa var sá þríhyrningur sem líf mitt snerist einkum um á einu tímabili ævinnar.
Oft fer ég í gönguferðir um Fossvogsdalinn og Kópavoginn vítt og breitt. Yfirleitt er ég einn á ferð. Það má skipta þeim sem maður rekst á þar í fjóra flokka. Venjulegt göngufólk, skokkara, hjólreiðafólk og hundafólk. Hundafólkið er að sjálfsögðu langhættulegast. Reyndar bara hundarnir.
Hundar hér um slóðir skiptast einkum í þrjá flokka. Hunda í bandi, bandlausa hunda en með eiganda eða umráðamann í nágrenninu og lausa hunda án alls eftirlits. Hundafólk virðist alltaf gera ráð fyrir að það hafi fullkomna stjórn á viðkomandi hundi. Svo er bara því miður alls ekki. Algengt er að sjá stóra og grimmdarlega hunda sem mundu auðveldlega geta slitið sig lausa ef þeir kærðu sig um. Hundar án alls eftirlits eru sem betur fer sjaldgæfir á gangstígum hér, en hinir flokkarnir mjög algengir. Hundar bíta og eru hættulegir.
Sannfærður er ég um að gangstígarnir hér væru mun meira notaðir af fólki ef það gæti treyst því að verða ekki fyrir árásum hunda. Því miður eru margir hræddir við hunda. Hef aldrei heyrt um fólk sem óttast ketti.
Já, ég er meiri kattamaður en hunda. Frásagnir af hundum sem hafa bitið fólk eru legíó. Óljósar frásagnir um að kettir hafi stundum gert þarfir sínar í sandkassa sem börn hafa síðan komist í tæri við eru yfirleitt lygi.
Hellingur af sniglum að sniglast á gangstígnum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.