1477 - Alþingi

Það er ofætlun mikil að ætla sér að blogga á hverjum degi af einhverju viti. Ég hef þó vanið mig á dagleg blogg, en leyfi öðrum að dæma um vitið. Vel er hægt að stytta mál sitt og gera hugmyndum sínum þannig fært að komast á bloggið. Fréttaskýringar allskonar eru vinsælasta bloggefnið en ég er ekki sérlega góður í þeim.

Pólitíkin er mjög ráðandi í öllu bloggstandi, en þar er ég því miður tvístígandi mjög. Pólitískt séð eru það einkum tvö mál sem ég hef rætt um hér. Annarsvegar er það ESB-aðildin og hinsvegar stuðningur við ríkisstjórnina. Hvorttveggja eru þetta fremur óvinsæl mál og pólitískt séð er greinilega mest lagt uppúr því að bloggin séu sem allra neikvæðust.

Fyrir utan þetta hef ég reynt að hafa bloggin mín sem fjölbreytilegust en kannski eru þau óttalega moðvolg og lítt ákveðin. Minningar eru að mestu uppurnar og er það engin furða. Þau pólitísku skrif sem hér er að finna eru skelfing ómarkviss og snúast oft um það eitt að komast sæmilega að orði.

Margrét Tryggvadóttir skammast sín fyrir að vera þingmaður og Styrmir Gunnarsson leggur til að þingmenn fari á námskeið í mannasiðum. Það er alveg rétt að virðing almennings fyrir Alþingi Íslendinga hefur farið þverrandi að undanförnu. Ástæður fyrir þvi eru  vafalaust margar. Ein sú veigamesta held ég að sé sú fjölmiðlun sem stunduð er. Bloggarar, vörp öll, dagblöð, vefmiðlar og allir sem nokkurt tækifæri hafa til, gagnrýna þingmenn mjög.

Oft er það með réttu og ummæli þeirra í ræðustól alþingis er alltaf hægt að sannreyna. Hvað þeir segja í nefndum og hvernig þeir starfa þar er minna rætt. Eflaust er ekki hægt að snúa aftur með beinar útsendingar frá fundum þingsins en greinilega eru fundarsköpin þar ekki nógu góð. Ég efast ekkert um að þingmennirnir eru nægilega gáfaðir fyrir okkur og álitið á störfum alþingis hygg ég að megi laga með bættum fundarsköpum og betri fundarstjórn.

IMG 6544Þorfinnur er farinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála þér með að afstaða til þings og þingmanna og stjórnmálanna þar með mótast mjög af því að öll miðlun virðist leggjast í neikvæðni og niðurrif. Svo eru þingmenn nógu fáfengilegir til að reyna að koma sér í mjúkinn hjá bloggurum og öðrum netbullurum með því að vera sem öfgafyllstir í öllu sem þau segja. Spurningin er hvort við eigum ekki að taka skrefið lengra en tillögur Stjórnlagaráðs gera ráð fyrir og leggja Alþingi alveg niður, taka upp beint lýðræði eins og forsetinn hefur lagt til.

Ellismellur 16.9.2011 kl. 05:51

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Beint lýðræði held ég að verði alltof erfitt í framkvæmd. En það er rétt hjá þér að þingmennirnir virðast halda að þeir séu að hafa áhrif á kjósendur með þessum fíflalátum.

Sæmundur Bjarnason, 16.9.2011 kl. 10:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband