1470 - Undirskriftasöfnun um ekkert

Heimspeki og sagnfræði eru þær vísindagreinar sem heilla mig mest. Einhvern vegin hefur mér ekki tekist að öðlast mikinn áhuga á ættfræði þrátt fyrir að ég hafi aldur til. Í umræðum um stjórnmál dagsins er t.d. oft gagnlegt að hafa svolítið inngrip í ættfræði. Þannig er oft auðveldara að rekja hagsmunaþræði íslensks samfélags. Gúgli (Google.com) getur þó komið þar til hjálpar eins og víða annars staðar.

Í mínum huga er lítill vafi á því að ættar- og fjölskyldutengsl ráða yfirleitt meiru í íslenskri stjórnun og stjórnmálum en góðu hófi gegnir. Þetta finna þeir vel sem hingað flytjast og hafa engin tengsl við valdastéttina. Sumir innfæddir hafa heldur ekki þau tengsl sem þarf eða vilja ekki nota þau. Meðal annars af þessari ástæðu er ég fylgjandi því að stjórnunarleg áhrif ættarveldisins íslenska minnki.

Það væri auðvitað mikil einföldun að halda því fram að stuðningur minn við aðild að ESB stafi af þessu aðallega. Það dregur þó ekki úr. Aðrir kostir aðildar eru svo augljósir að um þá er óþarft að fjölyrða.

Ókostir eru vitanlega einhverjir og andstæðingar aðildar hafa kosið að einblína á þá. Hinsvegar eru þeir (andstæðingarnir), af augljósum ástæðum hræddir um að sú andstaða, sem mælist um þessar mundir í skoðanakönnunum, endist ekki lengi. Þessvegna hafa þeir kosið að reyna að fylgjast með tímanum og efna til undirskriftasöfnunar á netinu um að draga umsóknina til baka eða leggja hana til hliðar ótímabundið.

Þeir gera sér nefnilega vonir um að ná meirihluta í næstu alþingiskosningum. Vel getur auðvitað verið að þeim takist það. Líka getur vel hugsast að inngöngubeiðnin í ESB verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. En að ætlast til þess að inngöngubeiðnin sé afturkölluð (eða lögð til hliðar) án þess að þjóðin verði um það spurð (nema í fésbókarlegri undirskriftasöfnun á Internetinu) er beinlínis kjánalegt.

Auðvitað er látið í veðri vaka að hugmyndin sé önnur. Það á að spara fé, auka samstöðu þjóðarinnar og ýmislegt fleira. Undirtektir við þessa söfnun eru dræmar og er það engin furða. Hún virðist þó um margt vera sæmilega undirbúin, en tvítekningar eru þó leyfðar og ekki er hægt að sjá hverjir hafa skrifað undir þó annað sé gefið í skyn í skrifum um söfnunina.

IMG 6470Hús, bátar og fjöll.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Það er hægt að sjá hverjir hafa skrifað undir núna.  Ef fólk er svo ekki sammála undirskriftasöfnuninni sleppir það því bara að skrifa undir.

Kveðja frá kjána. 

Axel Þór Kolbeinsson, 7.9.2011 kl. 16:43

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ég sá áðan að búið var að lagfæra þetta með að skoða undirskriftirnar, enda má segja að það hafi ekki skipt miklu máli í fyrstunni. "Óskar Nafnleyndar" er að vísu nokkuð fyrirferðarmikill þar. :) 

Sæmundur Bjarnason, 7.9.2011 kl. 19:44

3 identicon

Miðað við hvað margir lesa bloggið þitt, Sæmundur skólabróðir, þá er ég afskaplega kátur yfir því hvað þú hefur tekið margar fallegar myndir á Siglufirði (ég er víst búinn að segja þetta áður).

Eins og fleiri hef ég hinsvegar áhyggjur af því hvernig fólk á launum frá okkur sem greiðum skatta, hagar sér í Teatro Absurd við Austurvöll.

Ellismellur 7.9.2011 kl. 20:05

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

já, Ellismellur mér finnst alveg með ólíkindum hvernig fólk hagar sér á alþingi. Trúi varla öðru en verulegar breytingar verði í næstu þingkosningum. Fjölmiðlarnir eru líka skrítnir með það hvaða mál þeir taka upp í það og það skiptið. Og svo herma menn eftir þeim og láta eins og ekkert skipti máli nema það sem nefnt er þar.

Sæmundur Bjarnason, 7.9.2011 kl. 20:20

5 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Já, það kemur manni svoldið á óvart hversu vinsælt nafnið Óskar Nafnleyndar er :D

Axel Þór Kolbeinsson, 7.9.2011 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband