1469 - ESB

Íslendingum verður allt að tuði. Bloggið er tuð. Fésbókin skrunar og njósnar. Fjölmiðlarnir eru fáfengilegir. Vefmiðlarnir vitlausir. Hvað er þá eftir? Eiginlega ekkert nema blessað tuðið. Forsetinn tuðar um icesave. Geir tuðar um einhverja vonda kalla sem hafa dregið sig einan fyrir dóm og svo er endalaust tuðað um hrunið. Ég nenni þessu bara ekki.

Opnuð hefur verið síða (skynsemi.is) fyrir þá sem vilja skora á alþingi að hætta við umsóknina um aðild að Evrópusambandinu.

Unnur Brá Konráðsdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Gunnar Bragi Sveinsson hafa lagt fram á alþingi þingsályktunartillögu um að hætta viðræðunum við Evrópusambandið. Allöng greinargerð fylgir þessari tillögu og niðurlag hennar er svona:

Niðurlag.
Mikilvægt er að nýta krafta stjórnsýslunnar og fjármagn ríkisins til þeirra brýnu verkefna sem fyrir liggja í kjölfar bankahrunsins. Það er slæmt fyrir orðspor Íslands á alþjóðavettvangi að halda áfram aðildarferlinu þegar bersýnilegt er að hugur fylgir ekki máli.
Íslandi og Evrópusambandinu er lítill greiði gerður með því að íslensk stjórnvöld efni til aðildarviðræðna á þeim hæpnu forsendum sem hér hafa verið raktar. Fyrirsjáanlegt er að aðildarsamningur verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu og sú niðurstaða mun ekki auka velvilja í garð Íslendinga hjá aðildarþjóðum Evrópusambandsins.
Af öllu framangreindu er ljóst að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er ótímabær og því hníga öll rök að því að draga hana til baka.

Er velvilji aðildarþjóða Evrópusambandsins í garð Íslendinga eitt af aðalatriðum þessa máls? Það mætti ætla að flutningsmenn tillögunnar teldu svo vera. Satt að segja held ég að þeim fulltrúum Evrópusambandsins, sem á annað borð velta þessum málum fyrir sér, muni finnast það afskaplega fíflalegt að hætta viðræðum núna án þess að gefa þjóðinni tækifæri til að segja hug sinn til endanlegra samninga. Skoðanakannanir koma ekki í staðinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur.

Eiginlega er ekkert meira um þessa tillögu að segja. Ég er eindregið fylgjandi því að hugsanleg aðild að Evrópusambandinu fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá fyrst er líklegt að deilum um þetta mál ljúki.

Aðstoðarmaður vaktmannsins á Siglufirði.

IMG 6471

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Áskorunin felur reyndar í sér að umsóknin verði lögð til hliðar, hvort sem það verður tímabundið eða til lengri tíma, en ekki dregin til baka.

Axel Þór Kolbeinsson, 6.9.2011 kl. 10:57

2 identicon

Axel:  Ég held að ESB leggi ekki samningaviðræður til hliðar.  Það er allt saman komið í ferli sem þarf að ljúka.  Ef samningum verður hætt, þá þarf að byrja upp á nýtt því það þarf að meta allt saman upp á nýtt.

Ef ég væri andstæðingur ESB, þá myndi ég vilja ljúka við samninginn og kjósa.  Samningurinn verður að öllum líkindum felldur.  Þá verður það enn eitt málið sem ríkisstjórnin mun ekki klára.

En þar sem ég er stuðningsmaður, þá vona ég að meirihluti muni vera fyrir aðild. 

Stefán Júlíusson 6.9.2011 kl. 11:07

3 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ólíklegt þykir að það hefði langvarandi neikvæðar afleiðingar á samskipti Íslands og ESB að draga umsóknina til baka, ef marka má reynslu Möltu og Sviss. Malta frysti aðildarumsókn sína í fjögur ár frá 1996-2000 en Sviss hætti við sína umsókn árið 1994 eftir að þjóðin hafnaði EES-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Malta hóf samningaviðræður við ESB á ný árið 2000 og gerðist aðili að sambandinu árið 2004 en Sviss á í nánum samskiptum við ESB í gegnum fjölda tvíhliða samninga.
http://www.evropuvefur.is/svar.php?id=60445

Axel Þór Kolbeinsson, 6.9.2011 kl. 11:11

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Axel, í niðurlagi niðurlagsins segir að öll rök hnígi að því að draga skuli umsóknina til baka. Ef eitthvað annað stendur einhversstaðar annarsstaðar þá er það eingöngu ruglingur flutningsmanna.

Sæmundur Bjarnason, 6.9.2011 kl. 11:50

5 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Ég er að tala um undirskriftasöfnunina Sæmundur, en ekki þingsályktartillöguna.  á skynsemi.is er talað um að leggja umsóknina til hliðar.

Axel Þór Kolbeinsson, 6.9.2011 kl. 12:04

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Málið er að hámarka velvilja aðildaþjóða EU til Íslands.

þvílíka steypan maður.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 6.9.2011 kl. 12:38

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Undirskriftasöfnunin snýst þá ekki um stuðning við þingsályktunartillögun. Fyrirgefðu Axel, ég er bara orðinn hálfruglaður í þessu.

Sæmundur Bjarnason, 6.9.2011 kl. 13:53

8 identicon

Sælir; Sæmundur síðuhafi - og aðrir gestir, þínir !

Sæmundur - Stefán og Ómar Bjarki !

Án þess; að ég hyggist ætla að verða, með nokkurn skæting hér - og misbjóða ágætri gestrisni Sæmundar; að nokkru leyti, vil ég benda ykkur á, að Norður- Ameríku ríkið Ísland, á öngva samleið, með Evrópskum trénuðum kúgunarveldum nýlendu tímans, ágætu drengir.

Hún var nú ekki, svo beysin, stjórnsýsla Noregs- og Danakonunga hér, fyrr á tíð, að eitthvað tæki betra við, með Brusselsku skrifræðis rummungunum, svo sem.

Líkast til; spanast upp, einhver innibyrgð áhættufíkn, í kolli ykkar : Sæmund ur - Stefán og Ómar Bjarki, sem gerir að verkum, að þið viljið fylgja eftir, þessu æfintýri skrípilsins Össurar Skarphéðinssonar, og nóta hans, með þessu flani, austur í Evrópu.

Hins vegar; er það Íslendinga sjálfra, að kollvarpa ónýtu stjórnarfarinu - og taka upp nýtt, á einhverjum þeim grunni, sem landsmenn gætu; mögulega, komið sér saman um.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason   

Óskar Helgi Helgason 6.9.2011 kl. 14:03

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Óskar Helgi, ég held einmitt að Ísland eigi meiri samleið með Evrópu en Bandaríkjum Norður-Ameríku.

Ég held líka að okkur Íslendingum munu farnast betur í framtíðinni ef við höfum sem mest og best samband við okkar nágrannaþjóðir.

Sæmundur Bjarnason, 6.9.2011 kl. 14:31

10 identicon

Komið þið sælir; á ný !

Sæmundur !

Er þér nokkuð tekið, að förlast ?

Ég veit ekki betur; en að : Grænland - Kanada og Mexíkó teljist til hinnar nyrstu álfu - Ameríkanna þriggja, ágæti drengur.

Og; talandi um samskipti, við aðrar þjóðir. Er nokkuð í veginum með; að við stóraukum samskiptin, við Asíu - Afríku og Eyjaálfu, jafnframt ?

Fjarlægðir í dag; skipta öngvu máli, ef þú veltir betur fyrir þér nútíma samskipta máta, Sæmundur minn.

19. og 20. aldir; sem aðrar fyrri, fjarlægjast okkur æ meir, með stórauknum vísinda- og þekkingar auka, komandi tíma.

Með; ekkert síðri kveðjum - en þeim fyrri /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason 6.9.2011 kl. 14:41

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það getur vel verið að það sé ekki langt til Grænlands. En að telja Kanada og Mexíkó meðal okkar helstu nágrannaþjóða get ég ekki fallist á.

Ég hef séð því haldið fram að okkur væri miklu nær að ganga í NAFTA en ESB, en hef ekki getað tekið það alvarlega.

Sæmundur Bjarnason, 6.9.2011 kl. 16:00

12 identicon

Sælir; á ný !

Sæmundur !

Þá; hafa sjónarmið okkar beggja komið fram, af fyllstu einurð.

Þau eru ólík; og skal svo vera, enn; um stund, ágæti drengur.

Með; hinum sömu kveðjum - sem áður /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason 6.9.2011 kl. 17:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband