19.8.2011 | 00:10
1453 - 100 í höggi
Bifrastarmynd. Hermann Hansson.
Hverjir voru Malenkov, Molotov og Makarios? Viljirðu í alvöru vita þetta og t.d. hverjir voru Adenauer, Allende, Amin og Andropov, þá ættirðu að lesa bókina Sá er maðurinn, eftir Jón Þ. Þór. Hún er nýkomin út og ég er með hana í láni frá bókasafninu. Þar eru örstutt æviágrip 380 kvenna og karla, sem hafa átt mikinn þátt í að móta mannkynssöguna síðastliðin 250 ár. Það er ekki nóg að vera klár á Gúgla frænda og kunna að flækjast um á Wikipediunni, heldur er ágætt að hafa upplýsingarnar um þetta heiðursfólk í minninu og þá er maður svolítið brot af sagnfræðingi ímynda ég mér.
Líka fékk ég á bókasafninu seinni bókina um meistara Þórberg eftir Pétur Gunnarsson. Hún heitir ÞÞ í forheimskunar landi eða eitthvað þessháttar og ég er að hugsa um að lesa hana spjaldanna á milli. Sobbeggi afi er nefnilega í svolitlu uppáhaldi hjá mér. Ekki síst eftir að hann og Mammagagga arfleiddu háskólann að húseign eða húseignum þó meistarinn hefði ekki fengið inngöngu í skólann á sínum tíma.
Einu sinni var strákur sem hafði feikilegt dálæti á ofurhetjum af öllu tagi og reyndi mikið að líkjast þeim. Honum þótti ekki mikið koma til máltækisins um að slá tvær flugur í einu höggi. Hann reyndi stundum að slæma fjósaskóflunni á flugurnar sem voru á fjóshaugnum eins og mý á mykjuskán. Oftast náði hann miklu fleiri flugum en tveimur og þess vegna þótti honum lítið til orðtaksins koma
Eitt sinn voru óvenjumargar flugur á fjóshaugnum og hann reyndi að ná eins mörgum og hann gat með því að slæma skóflunni á réttan stað. Þegar hann taldi svo flugurnar reyndust þær vera hundrað.
Okkar maður fór þá beina leið í Kaupfélagið og pantaði sér bol með áletruninni Hundrað í höggi. Þegar bolurinn kom klæddi hann sig í hann og hélt út í heim. Allir urðu auðvitað skíthræddir við hann því þeir héldu að hann væri fær um að rota hundrað manns í einu höggi enda var stráksi illilegur mjög.
Á endanum var það samt svo að væskill nokkur réðist á hann og hafði hann undir. Reif af honum bolinn og fór í hann sjálfur. Þá brá svo við að kunningjar hans vildu ekki þekkja hann og hlupu æpandi í burtu. Svona er nú prentað mál áhrifamikið og lýkur hér þessari örsögu, sem er þegar orðin fjórum málsgreinum of löng.
Nígeríubréf geta verið með ýmsu móti. Oftast eru þau á ensku, stundum illa skrifuð, stundum sæmilega og þá les ég þau af og til. Þetta bréf sem ég læt fylgja með hér er óvenjuvel skrifað:
Hello, I write to confess what you are presently going through with my boss. I was a member of the Federal Bureau of Investigation (FBI) on local and foreign debt attached to the World Bank office in Washington, DC, USA. I resigned my official duty when I discovered the activities of my colleagues during a private investigation I carried out. I suspected some kind of foul play in their act which they would never inform me because they know I would never be a party to such as a Christian.
I discovered that my boss was conniving with some top officials of the World Bank to divert funds approved to settle lottery winners,international contractors and withheld inheritance. The World Bank has already given approval for the payment ofyour fund while they are deliberately delaying your payment. They continue to issueone fee or the other from different quarters. I wonder why you havent noticed all this while.
Well I just hope you believe me, because if you dont, your fund is gone. Your fund is currently authorized to be paid to you from a financial consultant in the UK or US, approved by the World Bank with a Key Tested Reference/CLAIMS CODE Number, which was supposed to have been issued to you, but they have decided to divert your attention by telling you that they have something to do with one committee or the other especially in Holland (Amsterdam) or Africa and making you believe that the fund will be transferred into your account FALSE!
The reason why I am giving you this information is because of the fact that I was aware of it and my doctrine does not permit me to withhold such information. The only help you can get from me now, is the actual link to your payment, please do not give this information to my boss as it may lead to them influencing a total blockage to your payment, so you have to be very careful with this information.
Upon your response to this message, I shall give you all you need to contact the office of their payment centers in UK or US.
Yours truly, Ms.Rosalia Ramos FBI/WB. WDC, USA.
Please contact on my Private email: rosaliagods@yahoo.com
Enn og aftur er jagast fram og aftur um verðtrygginguna. Sumir virðast álíta að hún sé eitthvað sem hægt er að hrista af sér eins og hverja aðra óværu. Svo er ekki. Verðtryggingin sjálf er hlutlaus en máli skiptir hvað er haft í vísitölugrundvellinum sem hafður er til viðmiðunar og einnig hvernig reiknað er.
Að sjálfsögðu skiptir miklu máli hvernig verðbæturnar eru reiknaðar og hvort þær eru reiknaðar af allri upphæðinni eða bara hluta hennar. Það er samt augljóst að því aðeins að núverandi aðferð íbúðalánasjóðs sé notuð næst núvirðing fjármálaskuldbindinga að mestu leyti ef verðbólga er eitthvað sem um munar.
Auðvitað er samt ekki sjálfsagt að lántakandi beri alla áhættuna af því að verðbólgan verði það mikil að verulegu máli skipti hvernig verðbæturnar eru reiknaðar. En ef lánveitendur eiga að bera a.m.k. helming þeirrar áhættu eins og hagsmunasamtök heimilanna virðast ætlast til þá er hætt við að framboð af lánsfé minnki verulega eða vextir hækki.
Athugasemdir
Glæpurinn við verðtryggingu er að bæta verðbótum við höfuðstól. Það stangast á við lög. Mjög einfalt er að reikna lánin þannig að verðtrygging greiðist jafnt og afborganir.
Þá segir mér svo hugur að á morgun fáum við skamt af sögu Hörpu og Akraness frá þér. ;)
Guðmundur Bjarnason 19.8.2011 kl. 03:18
Að mínum dómi snýst þetta ekki um lög heldur túlkun á þeim. Þegar verðbólga er mikil munar mikið um þetta, annars ekki. Ef þessi túlkun er röng sem beitt hefur verið mun margt breytast.
Efirá er þó ekki hægt að breyta verðbólgunni. Andstaðan við verðtryggð lán í mikilli verðbólgu eru kúlulánin svokölluðu. Viljum við þau?
Það er ekki hægt að ákveða 40 til 50 ár fram í tímann hver þróunin verður.
Undanfarna áratugi hefur þróun kaupmáttar verið umfram þróun verðbólgu. Hefði greiðslubyrðin af t.d. húsnæðislánum þá átt að aukast? Og hvernig?
Versta málið í þessu öllu er að vísitölugrundvöllurinn sem byggt er á er rammskakkur.
Sæmundur Bjarnason, 19.8.2011 kl. 04:49
Guðmundur, ég virðist vera svo áhrifalítill í þessu "Sögu-Akraness-máli" að ég hugsa að biðin eftir því verði lengri en til morguns. Ég er þó ekki búinn að gleyma þessu máli og mun e.t.v. ekki gera það strax.
Sæmundur Bjarnason, 19.8.2011 kl. 04:53
Hefur þú lesið bækurnar um sögu Akraness Sæmundur eða yfirhöfuð séð þær?
Gunnar Þórðarson 19.8.2011 kl. 15:53
Já, ég hef flett seinna bindinu sem komið er út og séð bæði og vegið í hendi mér. En af hverju spyrðu?
Sæmundur Bjarnason, 19.8.2011 kl. 18:34
Kynslóð okkar Sæmundar man vel þá tíma, sem leiddu af sér að stjórnvöld voru neydd til að taka upp verðtryggingu. Fram til 1970 voru lán afskaplega takmörkuð, enda fór sparnaður landsmanna hraðminnkandi, því öllum var augljóst að geymdur eyrir var alls ekki græddur heldur glataður. Menn voru því lentir í ógöngum með fjármagnskerfi þjóðfélagsins, til dæmis var illmögulegt að fá nema málamyndalán til húsbygginga almennings og fengu þau þó aðeins þeir sem voru tilteknum aðilum þóknanlegir. Árið 1970 tóku lífeyrissjóðir til starfa í kjölfar merkilegra kjarasamninga árið 1969. Þá fór að myndast sparnaður aftur í landinu í kjölfar þessa og vinstri stjórnin, sem tók við 1971, sá í hendi sér að tilvist þeirra gæti tryggt fjármögnun húsnæðislánakerfisins. Voru þeir því skyldaðir til að ávaxta nánast allt sitt fé í skuldabréfum Húsnæðismálastofnunar, sem þá hét. Þetta hefði svo sem verið hið besta mál ef efnahagsmálin hér hefðu ekki farið gjörsamlega á hliðina. Aðal ástæður þess voru olíukreppa í tengslum við styrjöld fyrir botni Miðjarðarhafsins milli Ísrael og nágranna þeirra, að því viðbættu hér á Íslandi að gosið í Vestmannaeyjum 1973 setti hér allt úr skorðum hvað fjárhag þjóðarinnar varðaði. Verðbólga, sem hafði verið talsverð allt frá lokum heimstyrjaldarinnar 1939-1945 fór nú algjörlega úr böndunum og náði að mig minnir mest 135% á tímabili. Öllum ábyrgum þjóðfélagsþegnum var ljóst, að við svo búið mátti ekki standa. Það fólk, sem stóð með pálmann í höndunum voru þau, sem höfðu tekið húsnæðislán, óverðtryggð á lágum vöxtum á árunum 1974 til 1978 sérstaklega. Lán fyrir tíma vinstri stjórnarinnar voru það lág, að þau skiptu nánast ekki máli í efnahagslegu samhengi. En hugsandi fólki og þá sér í lagi forystu verkalýðshreyfingarinnar var ljóst, að með sama áframhaldi yrðu lífeyrissjóðirnir gjaldþrota og reyndar voru margir þeirra þegar orðnir það í árslok 1978. Það er alltaf varasamt að nefna nöfn, en ég hygg að Guðmundur J. Guðmundsson hafi farið fyrir þeim einstaklingum, sem knúðu Alþingi og ríkisstjórnir til að setja lög um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Til að byrja með var verðtrygging þó eingöngu heimil á langtímaskuldbindingar og takmarkaðan hluta innlána. Grunnur verðtryggingarinnar var svonefnd lánskjaravísitala sem ætlað var að mæla þá þætti fjármálalífsins, sem leggja bæri til grundvallar við mat á verðbótum. Sú vísitala var reyndar afnumin síðar og komu þar við sögu þeir aðilar, sem stýrðu þeirri fjármálastefnu, sem leiddi síðar til hrunsins mikla árið 2008. Það er svo aftur saga, sem ástæða er til að rekja síðar, hvernig lífeyrissjóðirnir hafa verið gerendur í fjármálalífinu og líklega má ekki síst rekja áhættusækni til þeirra miklu áhrifa, sem atvinnurekendur hafa í stjórnum almennu sjóðanna. Staðan er nefnilega sú, að enn í dag eru þeir í raun ráðandi í stjórnum sjóðanna og hafa átt mestan þátt í vali þeirrar kynslóðar áhættusækinna stjórnenda, sem þar hafa valist til daglegrar forystu. Ef Guðmundur J. væri enn meðal vor, hef ég trú á að hann væri fyrir löngu búinn að afnema seturétt atvinnurekenda í stjórnum sjóðanna.
Ellismellur 19.8.2011 kl. 19:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.