17.8.2011 | 00:04
1451 - Árni Múli Jónasson
Björgvin Árnason. Hótel Hveragerði í baksýn.
Það eru nokkur atriði sem ég er sífellt að hamra á í mínu bloggi. Eitt er það að ég er sífellt að skora á bæjarstjórann á Akranesi að láta nú svo lítið að svara Hörpu Hreinsdóttur sem er af eðlilegum ástæðum dálítið sár yfir því hvað hann gerði lítið úr blogghæfileikum hennar í Skessuhorni um daginn.
Reyndar er þetta úrdráttur hjá mér (hver er annars munurinn á útdrætti og úrdrætti?) því ég hef m.a. farið fram á að nefndur bæjarstjóri verði hrakinn úr embætti. Harpa sjálf segir að Sveinn Kristinsson sé verri en ég veit litlar sönnur á því. Veit bara að Árni Múli var áður fiskistofustjóri og að hann var tekinn fram yfir meira en 40 umsækjendur sem sóttu einnig um stöðu bæjarstjóra á Akranesi í fyrra. Meðal umsækjenda var Steinunn Valdís Óskarsdóttir fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík.
Hitt er að ég er í þeim góða félagsskap sem finnur Jóni Bjarnasyni landbúnaðarráðherra flest til foráttu. Já, ég er á móti karlanganum þó hann hafi verið svo montinn fyrst eftir að hann var gerður að ráðherra að hann lengdist um hálfan metra.
Hann gengur lengra í að verja ímyndaða hagsmuni íslenskra bænda á kostnað neytenda en fyrirrennarar hans. Þar að auki kemur hann fram við fréttamenn af dæmafáu yfirlæti og hroka og ætti að skammast sín.
Að mörgu leyti er eðli mitt tvíþætt. Ég þykist alltaf vita best en skynja þó vel vanmátt minn í ýmsum málum (jafnvel flestum). Eftirfarandi húsgangur lýsir sálarástandi mínu allvel:
Oft er mínum innri strák
ofraun þar af sprottin.
Í mér tefla einatt skák
andskotinn og Drottinn.
Þetta með Drottinn er kannski ekki bókstaflega meint, því mér finnst á engan hátt meira til um kristna trú en aðra. Ekki trúi ég heldur á andskotann. Er sennilega trúleysingi inn við beinið. Þykir þó að menn eigi að geta haft sína trú í friði ef þeir vilja.
Fór áðan út að ganga og var að hugsa um hve skemmtilegt orðalag væri að segja að einhver væri á stangli. Þetta var skammt frá Sæbólsbrautinni og fljólega varð til vísa:
Við Sæbólsbraut var brjálað naut
berskjaldað á stangli.
Einhver skaut. Það byssu braut
og brosti að því dangli.
Sumir kynnu að velta fyrir sér nautsbrosi en aðrir mundu sjá strax hverslags vitleysa þetta er. Stundum velti ég því fyrir mér hvort margir atburðir sem ort hefur verið um, hafi e.t.v. aldrei átt sér stað.
ESB-andstæðingar eins og Pétur Gunnlaugsson á útvarpi Sögu ræða oft um fæðuöryggi. Allt sem ekki kemur frá Íslandi á að vera baneitrað er nýjasta kenningin. Ef við opnuðum markaðinn hér þá mundi allt fyllast af ódýrum matvörum frá þriðja heiminum. Svona áróður finnst mér skelfing barnalegur. Rétt væri að spyrja hvernig standi á því að allir íbúar í ESB-löndum séu ekki löngu dauðir því ódýrar (og eitraðar) matvörur hafi flætt þar yfir áratugum saman.
Baðvogin sem ég fjárfesti í fyrir einu eða tveimur árum bilaði sem betur fór fljótlega. Þessvegna var sjálfhætt við megrunarkúrinn sem ég ætlaði í. Nú hef ég frestað því alllengi að kaupa nýja baðvog en get það varla mikið lengur. Því miður gæti það þýtt að ég þyrfti að sjá af ístrunni sjálfri, eins og ég er búinn að hafa mikið fyrir því að koma henni upp. Nei, annars það er létt verk og löðurmannlegt. Jafnvel skemmtilegt stundum.
Hringleikahúsið mikla á Akureyri.
Athugasemdir
Nei, nei, ég er ekkert sár. Enda sé ég sjálf að ég skrifa miklu betri texta en það sem rennur upp úr Árna Múla. Mér fannst (og finnst) bara engin ástæða til að maðurinn komist upp með að kalla færslurnar mínar þrugl, ekki hvað síst eftir að hafa heyrt hann segja í útvarpsviðtali daginn eftir að hann hefði alls ekki lesið þær: "Þetta er nú ansi langt", sagð'ann. (Og ekki ætla ég að blogga myndasögur handa Árna Múla eða stutt-texta, ef það er það eina sem hann getur lesið ...)
Harpa Hreinsdóttir 17.8.2011 kl. 10:55
Úrdráttur er þegar eitthvað er dregið úr texta en útdráttur þegar eitthvað er dregið út, t.d. númer í happadrætti.
Ég las bloggfærslur Hörpu og þær eru eins skýrar og skilmerkilegar og þær gátu orðið. Skil ekki vinnubrögðin í bæjarstjórninni og því síður þennan bæjarstjóra, Vonandi víkur hann sem fyrst enda bara í einhverjum persónulegum hefndarhug.
Óli minn, 17.8.2011 kl. 21:56
Takk Óli minn.
Sæmundur Bjarnason, 18.8.2011 kl. 00:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.