1448 - Saga Akraness (einu sinni enn)

111Gamla myndin.
Þetta er Björgvin bróðir á hlaðinu heima. Skúrinn okkar í baksýn.

Samkvæmt skoðanakönnunum er David Cameron forsætisráðherra Breta ekki álitinn hafa höndlað rósturnar í Bretlandi nógu vel. Þetta kemur ekki á óvart. Mér fannst hann ósköp Pútín-legur í sjónvarpinu og gera lítið annað en að hóta og hóta. Mér finnst furðulegt ef bresk stjórnvöld halda í alvöru að svarið sé að loka farsímanetum og trufla sem mest allskyns samskiptasíður á netinu. Þetta er alveg úreltur hugsunarháttur. Vitanlega er það rétt að glæpahyski notfærir sér nýjustu tækni en það er ekkert nýtt. Þannig hefur það alltaf verið. Lýðræðislegir stjórnarhættir ættu þó að geta sannfært menn um að endalaus bönn virka engan vegin á svona lagað í löndum sem Bretlandi.

Sögu Akraness-málið virðist ætla að halda eitthvað áfram. Harpa heldur áfram að blogga svolítið um málið: http://harpa.blogg.is/ og ég hvet alla sem áhuga hafa á þessu að kynna sér það. Hinsvegar fékk ég bara villu þegar ég ætlaði að skoða Skessuhornsvefinn svo ég læt það bíða. Hornið hefur það sér til afsökunar að kannski er ekki hægt að ætlast til að þeir birti allt sem þeim berst. Bæjarstjórinn hefur enga slíka afsökun fyrir að svara Hörpu ekki og er hann í mínum augum (og eflaust margra annarra) bara minni maður á eftir. Sú þöggun, sem virðist eiga að beita Hörpu í þessu máli, má ekki takast.

Undarleg vitleysa er það sem móðurmálarar Mjólkursamsölunnar bjóða stundum uppá. Sagan af Jóni Straumbreyti er í miklu uppáhaldi hjá pökkunarmeisturunum þar um þessar mundir. Eflaust er átt við Jón Árnason þegar talað er um Jón sem straumbreyti í söfnun þjóðsagna. En Jón var einmitt enginn straumbreytir. Það voru aðrir sem beindu honum í þessa átt. Hann var að vísu mjög mikilvirkur og stóð sig vel í útgáfu þjóðsagna en varla réttlætir það að kalla hann straumbreyti. Sá móðurmálari sem fann upp á þessu segir eflaust að ekki sé verið að vekja athygli á þjóðsagnasöfnun sem slíkri heldur nýyrðinu sem notað er í staðinn fyrir brautryðjandi. Það kann að vera rétt, en upplagt væri þó að hugsa aðeins um nöfnin sem notuð eru.

Skrapp til Hveragerðis í dag enda er nokkurskonar þjóðhátíð þar núna. Hef aldrei séð svona margt fólk í Hveragerði. Löbbuðum svolítið um en vonlaust var að komast í ókeypis ísinn svo við slepptum því alveg. Skoðuðum Eden-rústirnar og fengum okkur alvöru kjötsúpu í Litlu Kaffistofunni á bakaleiðinni. Sluppum að mestu leyti við umferðarteppu, því við fórum það snemma heimleiðis.

IMG 6307Til að laða að ferðamenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

saga Akranes er ekki áhugaverð í minum huga, en atgangurinn vegna sögunnar er hinsvegar áhugaverður :) ekki orð um ESB í þessum pistli .. en slæmt þetta með ísinn fría :(

Óskar Þorkelsson, 14.8.2011 kl. 07:57

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Óskar, Saga Akraness er áhugaverð fyrir Skagamenn. Bæði bókin sjálf og ekki síst kostnaðurinn við hana. ESB sér um sig sjálft. Þetta með ísinn var fyrirsjáanlegt og alls ekki ástæðan fyrir heimsókninni, súpan var ágæt samt.

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2011 kl. 08:23

3 identicon

Saga Sögu Akraness er virkilega áhugaverð hvað sem mönnum kann að finnast um Sögu Akraness Gunnlaugs Haraldssonar. (Raunar eru titlarnir sjálfir, Saga Akraness I og Saga Akraness II  í eigu erfingja Ólafs B. Björnssonar skv. höfundalögum og ekki leitaði Akraneskaupstaður leyfis frá þeim til að nota þá á "stórvirkið" ....)

Hægt er að fara á skessuhorn.is og neðst í horninu vinstra megin eru aðsendar greinar, þ.á.m. grein Jóns Torfasonar.

Harpa Hreinsdóttir 14.8.2011 kl. 11:14

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk, Harpa. Ég næ sambandi við skessuhorn núna. Jón Torfason segir að Gunnlaugur hafi sætt ámæli í óvönduðum dagblöðum!!. Ég veit ekki til þess að Fréttatíminn sé dagblað. Fleira er hægt að finna til í grein Jóns sem er greinilega einskonar varnarrit fyrir Sögu Akraness þó í dulbúningi sé.

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2011 kl. 12:31

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Getur verið að deilur um bókina Saga Akreness séu að einhverju leyti pólitískar og persónubundnar? Svipað og þegar Hannes Hólmsteinn skrifaði Laxness bækurnar. Þá var hann ekki talinn „rétti“ maðurinn til að fjalla um skáldið og bækurnar voru eiginlega dæmdar úr leik fyrirfram og umræðan endaði í gæsalappastríði.

Sjálfsagt hefur kostnaðurinn við Sögu Akraness verið of mikill og útkoman hefði kannski getað verið betri. En ég velti þó þessari pólitísku hlið fyrir mér.

Emil Hannes Valgeirsson, 14.8.2011 kl. 13:23

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er vel hugsanlegt að þú hafir að einhverju leyti rétt fyrir þér þarna, Emil Hannes. Ég held þó að peningamálin séu fyrirferðarmest í rauninni og svo hafi pólitík og persónur einhver áhrif líka.

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2011 kl. 14:08

7 identicon

Ráðning Gunnlaugs Haraldssonar á sínum tíma (1997) var nánast örugglega pólitísk vinaredding Alþýðubandalagsmanna og fólks sem tengdist þeim fjölskylduböndum. En í áranna rás hafa allir flokkar flækst inn í þetta mál og þeir þrír karlar sem hafa líklega haft mest áhrif í fjáraustrinum (og setið í bæjarstjórn síðan 1994) eru hver í sínum flokknum. Sukkið gengur því þvert á flokka þótt fyrstu árin megi að mestu kenna það meintum "vinum alþýðunnar".  Núna einkennist það aðallega af botnlausum klíkuskap svokallaðrar "Ráðhúsklíku", sem gömlu karlarnir stýra, einna mest núverandi Samfylkingarmaður og gamall samherji sagnaritans úr Alþýðubandalaginu. . 

Harpa Hreinsdóttir 14.8.2011 kl. 19:45

8 identicon

Gunnlaugur hefur ekki búið á Akranesi síðan 2003 og er ekki Akurnesingur. Hann snérist sjálfur til vinstri-grænna. Í ritnefndinni sitja hins vegar þrír sjálfstæðismenn um þessar mundir.

Jóni Torfasyni gekk eflaust gott til enda vandaður maður. En vankunnátta hans í hvernig vísa skal í heimildir á Vefnum er átakanleg og svo virðist sem hann hafi takmarkaða þekkingu á því fyrirbæri.

Harpa Hreinsdóttir 14.8.2011 kl. 19:46

9 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég endurtek bara "Þessi þöggunartilraun má ekki ná fram að ganga". Þessi bæjarstjóri á Akranesi ætlar sér kannski ekki að vera lengur bæjarstjóri en til loka kjörtímabilsins, en mér finnst að reyna eigi að koma honum úr embætti strax.

Sæmundur Bjarnason, 14.8.2011 kl. 20:00

10 identicon

Það merkilegasta er kannski að bæjarstjórinn, Árni Múli, er einna saklausastur af þessum makalausa fjáraustri og tilurð "stórvirkisins" því það er svo stutt síðan hann tók við starfinu. Því er illskiljanlegt af hverju hann tekur að sér það hlutverk að básúna ágæti verksins og hóta lögsókn þeim sem benda á hneykslanleg vinnubrögð í rituninni. En áframhaldandi hvatvísi, ekki bara í þessu máli,  kostar hann sjálfsagt starfið. 

Harpa Hreinsdóttir 14.8.2011 kl. 22:13

11 identicon

Að mínu mati er mun mikilvægara að losna við Svein Kristinsson forseta bæjarstjórnar sem fyrst heldur en Árna Múla, vilji menn stöðva milljónaaustur í sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar. Og auðvitað ætti ritnefndin að vera búin að segja af sér, það er ekki spurning. En nefndarmenn virðast því miður hafa litla sómakennd. Og vasapeningar fyrir fundarsetur koma kannski einhverjum vel.

Harpa Hreinsdóttir 14.8.2011 kl. 22:15

12 identicon

Frá mínum bæjarhóli séð þykir mér lakast að hafa ekki ráð á að kaupa þessa Akranesbók til að geta mótað mér skoðun um það hvernig til hefur tekist. Verð þó reyndar að taka fram líka, að líklega veit maður of lítið um viðfangsefnið til að geta fellt dóma. En svona rit hafa tilhneigingu til að verða dýr, það þekkir fólk í öðrum byggðarlögum, sem hafa ráðist í ámóta verkefni. Mann grunar þó, eins og einhverjir geta sér til um hér að ofan, að þarna hafi aðrir þættir en sagnfræðilegir einhver áhrif líka.

Ellismellur 15.8.2011 kl. 10:03

13 identicon

Ellismellur: Ég hugsa að það sé auðvelt að fá Sögu Akraness lánaða á bókasafni, bæði bindin. En athugaðu að þau eru ansi þung :)

Harpa Hreinsdóttir 15.8.2011 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband