30.7.2011 | 00:39
1433 - Stjórnlagaráð
Gamla myndin.
Gunnar Hallgrímsson. (sennilega á toppi Baulu.)
Þegar við vitum betur hvernig alþingi tekur nýju stjórnarskrártillögunum er hægt að fara að velta fyrir sér framhaldinu. Sé ekki betur en þessar tillögur séu markviss gagnrýni á alþingi og störf þess.
Heigulsháttur þess og þjónkun við sérhagsmunina mun fljótlega koma í ljós. T.d. eru þónokkrir þingmenn sem þrýstihópar eiga. Engin hætta er á öðru en að þeir muni reyna að gæta hagsmuna sinna eigenda. Hvernig þeir hyggjast gera það er síður vitað. Allt snýst þetta á endanum um atkvæði í næstu alþingiskosningum.
Með því að samþykkja stjórnarskrádrögin 25:0 setti ráðsfólkið talsverða pressu á alþingi.
Jón Valur Jensson segir að Pétri Gunnlaugssyni hafi tekist á síðustu metrunum að halda málskotsrétti forsetans inni. Það er sennilega sú leið sem ESB-andstæðingar ætla að nota ef á þarf að halda til að koma ESB-málinu í þjóðaratkvæði. Gott hjá Pétri. Kannski er þó ekki þörf á þessu. 10 % ákvæði er ansi rúmt. Gæti dregið úr stuðningi við stjórnarskrárdrögin.
Sigurður Hreiðar og DoctorE deila einu sinni enn í athugasemdum hjá mér um nafnbirtingar. Mér finnst það góð tilfinning að menn með svo gjörólíkar skoðanir á þessu máli geti deilt um efnið hjá mér án þess að missa sig í persónulegar blammeringar.
Þetta er vandmeðfarið efni. Nafnleynd er nauðsynleg í einstöku tilfellum. Hún er samt alltof mikið notuð hér á landi og skemmir fyrir þeim sem kunna að hafa eðlilegar ástæður fyrir leyndinni. Margir nota nafnleyndina til persónulegra árása á hina og þessa. Mér finnst ábyrgð þeirra vinsælu fjölmiðla sem leyfa slíkt vera mikil. Hótunum um málaferli vegna óviðurkvæmilegra skrifa fer fjölgandi. Sem betur fer verður sjaldnast mikið úr slíku. Þó mér finnist þeir sem stjórna Moggablogginu hafa farið offari þegar þeir útilokuðu DoctorE frá því að blogga hér er ekki þar með sagt að ég sé á móti öllu sem þeir gera.
Nú síðast skilst mér að þeir hafi beðið Jóhannes Ragnarsson frá Ólafsvík að fjarlægja skrif um Heimdall og SUS. Skrif sem Jóhannes áleit fyndin en Heimdellingar ekki.
Eva Hauksdóttir sem vill kalla sig norn bloggar um það að konur séu ekki eins vinsælir bloggarar og karlar. Mér finnst feministaþefur að þessu. Konur skrifa ekkert verr en karlar. Þær skrifa kannski minna og hafa lengi gert. Ég veit ekki til þess að neinsstaðar sé reynt að halda þeim niðri sem bloggurum. Kannski eru þær stundum dómharðari. Líta margar niður á bloggið og finnst það fyrir neðan sína virðingu að fást við svo fáfengilega iðju, sem að blogga. Þegar farið er að aðgreina kynin með þessum hætti er alltaf stutt í fordómana. Líklega lesa þær samt ekki síður blogg en karlar. Veit ekki til að slíkt hafi verið rannsakað.
Kleinur og skrautlegar muffins-kökur eru mikið í fréttum núna. AMX-menn virðast sannfærðir um að það sé ESB að kenna að farið er að amast við góðgerðasölu á heimalöguðum mat af ýmsu tagi. Ekki er ég sannfærður um að það sé rétt. Trúi AMX helst ekki. Geri ráð fyrir að þetta sé hluti af baráttunni gegn ESB. Gott að það skuli gert svona klaufalega.
Nú er farið að fyrnast svolítið yfir ódæðisverkin í Noregi. A.m.k. hér heim á Fróni. Norðmenn eru eflaust enn að hugsa mikið um þetta. Langtímaáhrifin held ég að verði einkum þau að eftirlit með sölu á tilbúnum áburði verði stórlega aukið. Sprengimáttur hans hefur þó lengi verið kunnur. Máttur skotvopna einnig. Aðgengileiki þessara hluta ræður nokkru um það hve auðvelt menn á borð við þann norska eiga með að dylja fyrirætlanir sínar.
Athugasemdir
Ég skil ekkert í því að stjórnlagaráðið skuli hafa samþykkt þessi 10%. Á tímum fésbókarlýðræðis er ekkert mál að safna upp í þessa tölu til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi tala hefði kannski verið raunhæf þegar undirskriftir voru undirskriftir á pappír.
Emil Hannes Valgeirsson, 30.7.2011 kl. 01:07
Já, ég segi sama. Hef þó ekki lesið neina greinargerð fyrir þessu og það getur verið að einhver ástæða sé til staðar.
Sæmundur Bjarnason, 30.7.2011 kl. 07:26
10% = 23.000, 15% = 35.000.
Líklega hefði 15% gengið upp sem málamiðlun í ráðinu gegn því að takmörkunum á hvaða mál væru tæk í þjóðaratkvæðagreiðslu væru fjarlægð.
Axel Þór Kolbeinsson, 30.7.2011 kl. 10:04
Það kann að vera að þetta sé eitt af þeim atriðum sem rifist verður um. Mér finnst þó að ekki sé hægt að vera á móti drögunum útaf þessu einu.
Sæmundur Bjarnason, 30.7.2011 kl. 10:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.