1431 - Flakkað um fésbókarlendur

9Gamla myndin.
Bifrastarmynd - Svanhildur Skaptadóttir.

Þegar flakkað er um fésbókarlendur sést að eitt helsta vandamál samtímans er hvar koma skuli bensínljónunum fyrir meðan skoðaður er fótaburður fagurjóna. Þarna á ég að sjálfsögðu við bílastæðavanda knattspyrnuunnenda og einnig hef ég heyrt að áhorfendafjöldi á knattspyrnuleikjum, sé ekki sama vandamál og hann ætti að vera, af þessum sökum.

Hef sjálfur lent í svo mögnuðum bílastæðavanda að ég neyddist til að skipta um hárskera. Í trausti þess að aðrir hafi áhuga á þessu mikla vandamáli læt ég söguna flakka hér með.

Þegar ég fluttist frá Borgarnesi til Reykjavíkur gat ég semsagt ekki lengur látið Hauk rakara sjá um hausinn á mér. Á Njálsgötu fann ég þó fremur fornlega rakarastofu og vandi komur mínar þangað. Bílastæði voru sjaldan vandamál þá.

Svo kom að því að rakarastofa Leifs og Kára var lögð niður. Nú voru góð ráð dýr. Rándýr. Ég var orðinn svo vanur því að leggja bílnum mínum á Njálsgötunni eða þar í grennd að ég leitaði að rakarastofu í nágrenninu. Fann eina á Klapparstígnum og fór að venja komur mínar þangað. Svo fyrir einu eða tveimur árum fóru að birtast undarleg skilti við Njálsgötuna og víðar. Á endanum fékk ég svo sekt fyrir að leggja í gjaldskylt stæði. Skipti þá engu þó ég hefði reynt eftir megni að sjá ekki skiltin og merkingarnar.

Þetta varð til þess að ég neyddist til að finna mér hárskera í göngufæri við heimili mitt að Auðbrekku í Kópavogi. Skemmst er frá því að segja að það tókst þrátt fyrir kalt vor og miklar rigningar.

Eftir að hafa barist hetjulega við mjólkurleysi allan morguninn ákvað ég klukkan að ganga níu að skokka út í búð og kaupa mjólk. Hafið þið drukkið mjólkurlaust kaffi? Jú, ég hef gert það líka, en það er ekki nógu gott. Hafið þið borðað mjólkurlausan hafragraut? Nei, mér datt það í hug. Eftir að hafa loksins brotið tóbakshungrið á bak aftur er komið nýtt hungur. Mjólkurhungur. Ég býð ekki í það hvernig ástandið verður ef kaffið fer að verða af skornum skammti.

Hvaða æsingur er þetta? Eins og það sé ekki nóg að skrifa bara eitthvað. Koma ekki hvort eð er flestir hingað bara vegna myndanna? Ég er að meina gömlu myndanna. Það er samt svolítið gaman að fylgjast með teljaranum. Ef ég á að fílósófera um lífið og tilveruna þá verður það aðallega um blogg. Allskonar blogg. Jafnvel matarblogg og veðurblogg. Það eru svosem margir hættir að lesa blessuð bloggin og flestir hættir að skrifa þau. Samanborið við fésbókina og ýmsa fleiri netstaði sem ég kann ekki að nefna er nefnilega orðið hræðilega úrelt að blogga. Þó gera þetta sumir.

Afar interessant er að skoða gömul Moggablogg. Hef það fyrir sið að skoða listann yfir 400 vinsælustu Moggabloggin öðru hvoru og velja til skoðunar eitthvert þeirra blogga sem eru alveg að fara yfir móðuna miklu. Hvert fara eiginlega bloggin sem ekki komast inn á 400 listann? Hef lengi spekúlerað í því. Skilin eru núna við 40 eða 50. Einu sinni voru sömu skil við 360 eða 400. Langar mig til að þeir tímar komi aftur? Veit það ekki en áhugavert væri það. Ég er orðinn svo reynslumikill bloggari að ég hugsa að ég gæti forðað mér þaðan þó allt stefndi í augnalaust blogg.

Ligga ligga lí
ég er að fara í sumarfrí.
Ég er eins og jólatré
Ég er eins og Eiríkur.

En ég er ekki kominn á twitter. Á ég eitthvert erindi þangað? Sennilega ekki fyrr en það verður orðið alveg úrelt. Bið ykkur að athuga það. Fésbókin þolir samt merkilega vel að ég sé þar. 

Vorkenni næstum því Íslendingunum sem fóru til Noregs. Þó ekki. Gæti trúað að þeir hafi það á margan hátt betra þó hryðjuverkin séu komin þangað. Mér finnst að stór hluti af því sem sagt hefur verið um atburðina þar hefði betur verið ósagt. En auðvitað er líka hægt að þegja sér til skaða.

Stjórnlagaráð hefur nú lokið störfum. Verk þess eru komin í gin stjórnmálamanna og geta orðið pólitíkinni að bráð. Án þess að hafa gáð að því sérstaklega, hvort ég gæti rekið hornin í eitthvað sem þar er að finna, er ég fremur á því að drögin þurfi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en alþingi er búið að fjalla um þau.

Sú atkvæðagreiðsla yrði að sjálfsögðu ekki bindandi en gæfi til kynna hvort stuðningur er við þær breytingar sem þar eru lagðar til. Alþingi mun síðan fjalla um stjórnarskrárdrögin og endanleg  atkvæðagreiðsla um þau verða í kjölfarið.  Síðan gætu orðið alþingiskosningar og ESB-atkvæðagreiðsla svo búast má við að mikið gangi á. Með öllu er þó óljóst hver framvindan verður.

Alls ekki er víst að ný stjórnarskrá komi neinu sérstöku til leiðar. Stjórnarfar ætti þó að batna og lýðræði að aukast. Þó er ekki víst að allir mundu una glaðir við sitt frekar en verða mundi við ESB-aðild. Einhverja áhættu verður að taka.

Bæjarstjórinn á Akranesi virðist ekki ætla að standa á neinn hátt við stóru orðin sem hann lét falla í viðtali við Skessuhorn fyrir nokkru. Reyndar virðist hann hafa Skessuhorn í vasanum og svo virðist sem þeir sem þar ráða ætli að styðja hann í þöggunartilraunum sínum.

Til upplýsingar fyrir þá sem búnir eru að gleyma öllu um Sögu Akraness er rétt að rifja það upp að bæjarstjórinn hótaði að kæra Pál Baldvin Baldvinsson fyrir ritdóminn um Sögu Akraness sem birtist í Fréttatímanum. Áreiðanlega verður ekkert úr því. Einnig lítilsvirti hann og talaði illa um Hörpu Hreinsdóttur og hefur ekki fengist til að biðjast afsökunar á því né reynt á neinn hátt að finna orðum sínum stað.

IMG 6199Húsgagn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Facebook er nú að verða Public enemy number one; Þeir vilja BANNA nafnleysi á netinu. það er næsta víst að Kína og aðrir "Big Brother" scumbags er samþykkir þessu.
Ef þetta myndi ganga eftir þá geta ríkisstjórnir og aðrir sem stunda glæpi gegn fólk stundað þá í friði, það verða engir "Whistle blowers."

Þannig, hætta á Facebook Sæmi :)

DoctorE 28.7.2011 kl. 13:10

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sammála þér um það að nafnleysi getur verið nauðsylegt. Það er líka oft misnotað og þeir sem það gera eru hættulegastir því þeim er alveg sama þó nafnleysi verði ólöglegt og bannað á netinu. Þetta er mál sem þarf að leysa.

Sæmundur Bjarnason, 28.7.2011 kl. 14:01

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Rakarasagan er góð -- en vantar botninn? Eða ertu hættur að fara til klippara? Lái þér það ekki. Ég hætti fyrir 23 árum. Keypti firna góðar rafmagnsklippur og síðan hefur konan mín séð um rúninginn. Það uni ég glaður við og er laus við bílastæðisvandann.

Nafnleysi tel ég vera heigulshátt. Ef eitthvað er svo viðkvæmt eða beiskt að maður þorir ekki að leggja nafn sitt við það er sennilega líka best að þegja.

Sigurður Hreiðar, 28.7.2011 kl. 14:15

4 identicon

Sigurður er bara að opinbera það að hann býr á íslandi, þekkir ekki að um allan heim fer fram mikil mannréttindabarátta sem væri ómöguleg undir nafni.. fólk yrði hreinlega drepið.

Hann þekkir það heldur ekki að menn hafa komið upp um margvíxlega glæpi sem ekki hefði verið mögulegt undir nafni.

Það er líka ádtæða fyrir því að fólk setur ekki nafn sitt á kjörseðla...
Hugsa Sigurður, skrifa svo, or look silly

DoctorE 28.7.2011 kl. 17:36

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, Sigurður ég er ekki hættur að láta klippa mig. Frá mínum sjónarhóli er sagan ekki botnlaus.

Sæmundur Bjarnason, 28.7.2011 kl. 19:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband