27.7.2011 | 00:22
1430 - Hinir einu og sönnu "hinir"
Gamla myndin.
Bifrastarmynd. - Már Hallgrímsson.
Var að enda við að lesa grein Guðmundar Andra Thorssonar á Vísi.is, sem Baldur Kristjánsson benti á í fésbókarinnleggi. Lokaorð Guðmundar eru eitthvað um hina einu og sönnu hina. Það er alveg rétt hjá Guðmundi að í grunninn snýst öll pólitík um þetta við og hinir. Spurningin er bara hvernig við skilgreinum okkur og hina , hverjum við samsömum okkur og hvaða eiginleika við gefum hinum.
Annars eru bloggin hjá mér farin að lengjast dálítið. Ég verð að gera eitthvað í þessu. Hvað er nærtækast að gera? Nú, auðvitað að skrifa minna.
Ég er alltaf að bíða eftir því að einhver hafi orð á því hvað ég sé góður bloggari. Kannski er það eina ráðið til að bremsa mig af. En svo gæti það virkað þveröfugt. Ég gæti færst allur í aukana.
Eins og ég hef áður sagt þá skrifa ég best á morgnana. Snemma á morgnana. Læt það sem mér dettur í hug síðan gerjast allan daginn og venjulega finnst mér mest af því harla gott þegar miðnættið kemur og minn tími.
Eftir því sem Jóhannes Laxdal Baldvinsson segir þá skortir mig hæversku. Það er líklega rétt hjá honum. Blogghæversku skortir mig alveg. Enda er ekki víst að aðrir sæu hve ógeðslega góður bloggari ég er ef ég benti ekki á það sjálfur.
Til að vera almennilega marktækur þarf ég að hafa stjórnmálaskoðanirnar í lagi. Verst hvað ég er vinstri-sinnaður. Slíkir menn eru ekki vel séðir á Moggablogginu. Til að bæta svolítið úr því fór ég á bókasafnið í dag. Bókasafn Kópavogs vel að merkja. Bókin sem ég er að byrja á núna og fékk lánaða þar heitir Runukrossar. Hún gerist árið 2141 og þá eru Múhameðstrúarmenn að sjálfsögðu búnir að ná völdum hér á landi. Höfuðborgin heitir Hella og íbúarnir eru um 40 þúsund.
Kannski er ekki viðeigandi að lesa svona bók núna á þessum síðustu og verstu tímum. Hugsanlega fæ ég samt eitthvað af hægri-sinnuðum viðhorfum í blóðið ef mér tekst að klára hana.
Samkvæmt fréttum dugar sumum ekki að rífast á netinu. Í Grindavík fór víst maður í heimsókn um miðja nótt af því að hann gat ekki lamið mann í gegnum fésbókina. Þetta er ískyggilegt. Líklega er best að gæta sín vel.
Kannski eru örsögur minn stíll. Passa líka ágætlega í bloggið. Er með eina núna. Hún er svona:
Jón stóra í Krókshjáleigu hafði lengi langað til að míga utaní rabbarbarann hennar Hönnu. Nú var rétta tækifærið. Honum var mátulega mál og myrkrið var hæfilegt. Helst var það að hundspottið var eitthvað að dandalast niður með heimreiðinni.
Ekki verður þó á allt kosið þegar svona tækifæri bjóðast. Jón gekk hægum skrefum niður að rabbarbaranum, tók hann út á sér og lét byrja að buna sæll á svip.
Hundspottið trompaðist.
Já, hann kom beinlínis eins og byssubrenndur, stökk á Jón og reyndi að bíta í besefann á honum.
Eðlilega brá Jóni og bunan fór útum allt. Sumt á hundspottið (sem betur fór), sumt á skóna og sumt á buxurnar.
Tennur hundsins fóru aðallega í hendina á Jóni. Handarbakið og þumalinn. Af einhverjum ástæðum missti hundurinn takið í lok árásarinnar og Jón var ekki seinn á sér að sparka duglega í kviðinn á honum.
Hundurinn kveinkaði sér. Vældi ámátlega og bar sig illa.
Já, þér var nær að láta svona, sagði Jón og hélt áfram að pissa. Það blæddi lítið eitt úr hendinni en Jón var ekki vanur að láta smámuni á sig fá. Rabbarbarinn fékk sitt steypibað.
Öll árásargirni var nú horfin úr kjölturakkanum. Hann kom skríðandi til Jóns í leit að uppörvun og huggun.
Jón lauk við að míga í rólegheitum. Setti hann inn, lokaði buxnaklaufinni og hossaði sér svolítið í hnjánum um leið. Leit á seppa og síðan á hendina á sér.
Bölvuð læti eru alltaf í þér, hundfjandi. Maður getur ekki migið í friði. Ekki veit ég hvað hún Hanna gerir ef ég segi henni hvernig þú lætur.
Hugsaði sig svo aðeins um og bætti við. Annars segi ég henni kannski ekkert frá þessu.
Jón fór nú inn í fjós og opnaði sjúkrakassann sem þar var. Hundurinn elti. Jón tók úr kassanum skæri, plástur og sáravatn. Hreinsaði sárið á hendinni og setti plástur á það. Lallaði svo heim á leið.
Um leið og hann opnaði útidyrnar kallaði konan hans til hans: Jón minn, náðu í svolítið af rabbarbara. Ég er að hugsa um að gera graut úr honum.
Ha?
Já, það er best að brosa bara að þessu öllu saman.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.