17.7.2011 | 00:08
1420 - ESB, NATO, stjórnarskárdrög og þessháttar
Þessi mynd er sennilega tekin uppi á Reykjum.
Sé að ég hef ekki fengið Fréttatímann um þessa helgi. Þarf eiginlega að kvarta. Þetta er að verða ágætisblað. Auðvitað má samt skoða það á netinu ef vilji er fyrir hendi.
Vel getur svo farið að þetta blogg verði í styttra lagi. Þó er allsekki víst að svo verði þó mér finnist það núna.
Bragð er að þá barnið finnur, segir máltækið. Arnþór Helgason bloggaði svo fyrir nokkru:
Bilið vex millum alþýðu og yfirvalda
Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, er mikill ræðuskörungur og hefur einwstakt lag á að finna réttum orðum stað á réttum tíma. Við hjónin ætluðum að hlýða prédíkun hans í morgun, en svo varð ekki.
Undanfarin ár höfum við verið viðstödd athöfn á Austurvelli þann 17. júní og haldið þaðan í Dómkirkjuna í Reykjavík að hlýða messu. Í morgun brá svo við, að lögregluþjónar stöðvuðu okkur og greindu frá því að kirkjan væri einungis opin öðrum en almenningi.
Þegar svo er komið að höfuðkirkja landsins er einungis opin boðsgestum á þjóðhátíðardegi landsins, er hæpið að hægt sé að tala um þjóðkirkju. Skiptir þá engu hvort þeir, sem ætla sér að hlýða messu séu utan eður innan þjóðkirkjunnar. Kirkja, sem hýsir einungis valda boðsgesti, er ekki framar kirkja almennings heldur yfirvaldanna.
Þannig endar klausan sem ég tók frá Arnþóri Helgasyni.
Biskupinn hefur sætt nokkru ámæli að undanförnu, en nú virðist hann vera að bíða eftir að öldurnar lægi. Kannski tekst honum að hanga í embættinu eitthvað áfram.
Stjórnarskrárráðsmönnum hefur verið legið á hálsi fyrir að gefa eftir í þjóðkirkjulegum efnum samkvæmt þeim drögum sem þeir virðast ætla að leggja fram. Ekki vilja þeir viðurkenna það, en svo virðist sem samkomulag sé um að deila ekki um það innan stjórnarskárráðsins.
Ég hef áður sagt að nokkrum af heitustu ágreiningsatriðunum varðandi nýja stjórnarskrá þurfi að vísa sérstaklega í þjóðaratkvæðagreiðslu. Með hvaða hætti það er gert þarf ekki að skipta neinu höfuðmáli.
Illugi Jökulsson birtir á sínu bloggi allan stjórnarskrártexta þann sem ráðið er núna að velta fyrir sér. Ég pældi í gegnum hann mestallan og finnst hann of langur og undantekningasamur. Stjórnlagaráðið hefur gengið ansi langt í því að verða sammála. Endanleg gerð textans kann þó að verða þannig að greinileg bót sé að. Um áhrif nýrrar stjórnarskár má deila. Hætt er við að þau verði ekki mikil. Aðskilnaður ríkis og kirkju, þjóðaratkvæðagreiðslur og skiljanlegt kosningafyrirkomulag, sem tryggir sæmilega jafnan kosningarétt, held ég að sé það sem flestir vonast eftir. Ef uppkastið verður ekki samþykkt með verulegum meirihluta mun Alþingi reyna að koma umfangsmiklum breytingum að og þar með er hætt við endalausum pólitískum deilum um málið og alls ekki víst að því ljúki nokkurntíma.
Það sem mér sýnist geta orðið heitasta deilumálið í sambandi við stjórnarskrána er hvort ráðinu muni takast að koma uppkastinu í þjóðaratkvæðagreiðslu án þess að Alþingi krukki í það fyrst.
Ekki heyrist mikið um Sögu Akraness um þessar mundir. Það eru eðlileg viðbrögð hjá bæjarstjóranum að reyna að þegja málið í hel. Óþarfi er hinsvegar að láta hann komast upp með það. Ég á heldur ekki von á að þeir sem hann hefur ráðist á taki því þegjandi hvernig hann hefur látið.
ESB-málin þvælast fyrir mörgum og er það að vonum. Andstæðingar aðildar beita þjóðernislegum rökum og er lítið við því að segja. Það er litlum vanda bundið að halda því fram að betra sé að vera sjálfstæður í kröm og aumingjaskap en að auðgast á því að viðurkenna aðra og eiga samstarf við þá.
Það er samt þreytandi að lesa sífelldar ýkjur og rangfærslur andstæðinga ESB um eignarhald á auðlindum, hernaðaranda og stórríkistilhneigingar, en þeim finnst greinilega þörf á slíku. Á sínum tíma var töluverð andstaða meðal Íslendinga við inngönguna í hernaðarbandalagið NATO og svo er eftilvill ennþá. Sjálfur set ég mörkin við sameiginlegan her og sameiginlega lögreglu ESB-ríkja. Ef í raun og veru stefnir í slíkt innan Efnahagsbandalagsins er mínum stuðningi við aðild lokið.
Já, en þá kynni það að vera orðið of seint, gæti margur sagt. Það er auðvitað alveg rétt, en án áhættu af einhverju tagi er ekkert líf. Stuðningsmenn NATO hafa áreiðanlega ekki reiknað með lögregluhlutverki bandalagsins í fjarlægum heimsálfum, á sínum tíma, eins og nú er orðin raunin. Samt virðist engin hreyfing vera í áttina til sjálfstæðrar fordæmingar á morðæði þess.
Ásmundi dalakút virðist líða svo vel í framsóknarflokknum að ekki heyrist múkk frá honum. Hann er þó vafalaust enn á móti aðild Íslands að ESB. Munurinn er einkum sá að ekki er víst að bændur treysti honum lengur. Aðrir virðast vera farnir að stjórna Heimssýn þó Ásmundur sé formaður að nafninu til ennþá.
Athugasemdir
ESB er að verða nýtt USSR !
Horfðu endilega á fyrrum Sovéska andófsmanninn Vladimir Bukovsky bera saman þessi tvö miðstýrðu og ólýðræðislegu embættis- og stjórnsýsluapparöt!
Hérna talar maður af þinni kynslóð Sæmundur, af mikilli reynslu og þekkingu á báðum kerfunum.
Gaman væri að fá comment frá þér á það sem Bukovsky hefur að segja um þessi mál.
Hér er slóðin á youtube, ég skora á þig að hlusta á þetta Sæmundur:
http://www.youtube.com/watch?v=bM2Ql3wOGcU
Gunnlaugur Ingvarsson 17.7.2011 kl. 10:00
Jú, ég hlustaði á Bukovsky. Hann er nokkuð sannfærandi, en það eru flestir. Hann sleppti samt mörgu og aðalgallinn er sá að ef talað er nógu fallega þá freistast maður oft til að trúa þeim sem maður hlustaði seinast á, einkum ef maður er sammála honum í grundvallaratriðum.
Sæmundur Bjarnason, 17.7.2011 kl. 10:21
svolítið magnað að menn skuli vera að líkja ESB saman við sovét.. sem sýnir í raun hversu heilalaus málflutningur Nei manna getur orðið.
Óskar Þorkelsson, 17.7.2011 kl. 10:48
Gott hjá þér og mjög gott að þú ert sammála honum í grunninn.
Það gæti orðið til þess að þú færir að efast meira um ESB en þú gerir.
@ Óskar. Mér er nú nokk sama þó svo að þú viljir telja mig og þá mikinn meirihluta þjóðarinnar heilalausa.
En vísindamaðurinn og andófsmaðurinn Vladimir Bukovski er ekki heilalaus og hann talar af mikilli reynslu og þekkingu um þessi mál.
Gunnlaugur Ingvarsson 17.7.2011 kl. 12:28
Grundvallaratriði og grundvallaratriði. Það er nú hægt að skilgreina þau mismunandi. Ég sagðist ekkert endilega vera sammála Bukovsky í grundvallaratriðum, en er það kannski í einhverjum þeirra.
Sæmundur Bjarnason, 17.7.2011 kl. 13:36
Útflutningur á lambakjöti.
Heirðu Sæmundur. Mér finnst Bændasamtökin eins og einstefnuloki.
Ólafur Sveinsson 17.7.2011 kl. 15:58
Sé að við deilum áhyggjum af nýja stjórnarskráruppkastinu. Stjórnlagaráðið virðist ekki ætla að taka Alþingi fram í málamiðlunum, sem gera skrána nánast ónothæfa. Tvennt virðist mér einkenna þessa niðurstöðu ráðsins. Í fyrsta lagi hefur ráðið freistað þess að ná samkomulagi innan þess um alla hluti, sem leiðir af sér að alls kyns undantekningar og málalengingar sem gera hana erfiða í notkun sem grundvöll undir lagasetningu samfélagsins. Stjórnarskrá þarf að taka með skýrum hætti á grundvallaratriðum, ekki koma í staðinn fyrir sértæk lög. Í öðru lagi óttast ég að stjórnlyndi margra ráðsmeðlima kristallist í tillögunni, þ.e. að í stað þess, eins og hér að framan segir sé skráin grunnur undir öll önnur lög og einskonar umferðarreglur þingræðis og lýðræðis, sé verið að reyna að láta hana taka á öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum, sem kunni að koma upp. Vonandi hef ég rangt fyrir mér.
Ellismellur 17.7.2011 kl. 18:59
Ólafur, þetta með einstefnulokann er ágæt samlíking hjá þér. Þjóðremban og sjálfsvorkunin virðist eiga greiðan aðgang að bændum. Milliliðirnir eru líka búnir að stela svo lengi frá þeim að þeir eru afar íhaldssamir og vilja helst engu breyta.
Sæmundur Bjarnason, 17.7.2011 kl. 22:40
Já, Ellismellur það er þetta með stjórnlagaráðið. Ég er að komast á þá skoðun að verði tækifæri til þess þurfi að samþykkja næstum hvaða vitleysu sem frá því kemur til að losna sem mest við afskipti stjórnmálaflokkanna af stjórnskipaninni. Hún kemur þeim eiginlega ekkert við. Ef hægt er að halda ákvörðunum um stjórnskipun að sem mestu leyti frá stjórnmálamönnunum og stjórnmálaflokkunum er það til bóta finnst mér.
Sæmundur Bjarnason, 17.7.2011 kl. 22:48
Ég hef samúð með sauðfjárbændum á vissan hátt. Með þessari verðlagningu verða menn að koma sér upp risa búum t.þ.a. eiga sæmilega útkomu. Þeir selja nú út á þokkalegu verði og villja þess vegna hærra verð innanlands. en alls engan innflutning. (Einstefnulokinn)
Ólafur Sveinsson 18.7.2011 kl. 00:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.