1419 - Áfram Akranes

Untitled Scanned 56Gamla myndin.
Plantað út salati uppi á Reykjum. Ábyggilega er myndin tekin fyrir 1960. Gæti verið ég sem er að henda plöntunum á sinn stað og Gústi langi sem er að bogra við að planta þeim.

Sá eini sem andmælt hefur því sem ég hef skrifað um Sögu Akraness er Jón Valur Jensson og hann vísar allsekki neitt í bókina heldur eingöngu í kynni sín af höfundinum. Gagnrýni mín hefur ekki beinst að höfundinum heldur einkum að bæjarstjórninni og ritnefndinni. Harpa Hreinsdóttir hefur aftur á móti í umfjöllun sinni um verkið gagnrýnt höfundinn fyrir skort á fagmennsku m.a.

Samkvæmt Pressunni eru Gunnlaugur Haraldsson og Páll Baldvin Baldvinsson víst báðir sannir vesturbæingar. Hættir að berjast með trésverðum og farnir að segja „urrdan bíttann“ við lögguna. Hvar endar þetta eiginlega? Verður slagur?

Í Skessuhorni er nú nýlega birt bréf frá tveimur kennurum við Brekkubæjarskóla og Sveinn Kristinsson gagnrýndur sérstaklega. Svo vill til að ég þekki Svein persónulega síðan hann var skólastjóri við Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi. Í pólitík veit ég að hann er talsvert vinstrisinnaður og ef til vill hefur það áhrif á skoðanir mínar á bréfi kennaranna. Ég get nefnilega ekki að því gert að mér finnst gagnrýni þeirra á Svein heldur lítilvæg og bréfið alls ekki nógu vel skrifað og fullt af allskyns getsökum. Ég veit ekki hvernig þetta mál fer en reikna með að Sveinn hafi sitt fram.

Það var Harpa Hreinsdóttir sem vísaði mér á bréf kennaranna (á fésbókinni að sjálfsögðu) og ég held að hún sé þeim sammála og hefur e.t.v. meiri þekkingu á því sem þarna er um rætt en ég. Það er alls ekki svo að eðlilegt sé að launþegar hafi ávallt allan rétt sín megin, en vinnuveitendur engan. Þarna þarf að vera jafnvægi á og á endanum er það almenningsálitið sem ræður og ákveður hvað er eðlilegt og sanngjarnt.

Það mál sem kennararnir tveir ræða í bréfinu í Skessuhorni þekki ég alls ekki nógu vel. Er þó hræddur um að pólitík spili þarna inn í og spilli málum ásamt ýmsu sem ekki er sagt frá.

Lögreglan á fésbókinni. DV segir að lögreglan hafi keypt ellefu ipad tölvur og sendi upplýsingar sem óðast á fésbókina. DV hneykslast svolítið á þessu en vel getur þetta orðið til þess að upplýsingar komist hraðar og betur til almennings. Eflaust er líka hægt að misnota þetta og vonandi fylgist DV vel með því.

Í bloggi er oft rætt um tjáningarfrelsi, þöggun, dómsmorð, þrælahald og margt fleira. Þarna eru álitamálin mörg og flestir kjósa að einbeita sér að ákveðnum málum. Fjölmiðlar gera það sama og reyna einkum að hafa áhrif á hugsanir fólks. Almennar skoðanakannanir eru yfirleitt besta ráðið til að komast að því hvernig almenningur hugsar. Margt má að sjálfsögðu um skoðanakannanir segja. Þó er undarlegt hve oft þær dæma hlutina rétt. Í stjórnmálum er þetta afar viðkvæmt mál og flokkarnir reyna eftir mætti að hafa áhrif á hugsanir fólks í stjórnmálalegum efnum.

Nú er Sævar Ciesielski farinn yfir móðuna miklu og Geirfinnsmálið verður eflaust rifjað upp í öllu sínu veldi. Um það má fræðast nokkuð á síðunni mal214.com og krafan um  endurupptöku er komin fram og verður jafnvel fylgt eftir. Yfirvöld bæði þá og nú hafa mikla tilhneigingu til að sópa óþægilegum málum undir teppið sé þess nokkur kostur.

Kommur eru leiðinlegar. Sigurður Hreiðar ráðlagði mér einu sinni að setja frekar punkt ef í vafa. Það geri ég nú orðið. Svikalaust.

Margir eru fréttasjúkir og horfa sér til óbóta á fréttatíma ljósvakamiðlanna. Oftast má gera ráð fyrir að þar sé sagt satt. Samt er þagað yfir mörgu.

Gaman er að afbaka málshætti og talvenjur ýmiss konar. Hér eru nokkur sýnishorn sem ég fann í gömlu bloggskjali. Kannski hef ég birt þetta allt áður.

Hann kom eins og þjófur úr heiðskíru lofti.
Hann lenti milli steins og steggja.
Róm var ekki byggð á einni nóttu.
Það er ekki hundur í hættunni.
Betra er að hafa vaðið fyrir ofan sig.
Þar kom horn úr hljóði.
Þegar í harðfennið slær.
Þetta er nú ekkert til að hlaupa húrra yfir.
Þið eruð eitthvað svo spænskir á svipinn.
Ekki fyrr en eftir djúpan disk.
Láttu ekki slá um þig. Þú gætir forskalast.
Hann steig ekki feilnótu í leiknum.
Það þýðir ekkert að efna og efna, en lofa svo aldrei neinu.
Að hellast úr lestinni.
Svo lengist lærið sem lífið.
Að bera í blindfullan lækinn.
Að slá tvö högg með einni flugu.
Hann sendi mér augnatotur.
Sjaldan launar kálfur ofbeldið.
Að slá sjö flugur í sama höfuðið.
Fyrir neðan allan þjófabálk.
Illt er að kenna gömlum hundi að skíta.
Punktur og pasta.
Fátt er svo með öllu illt að ekki geti versnað.
Að hafa vaðið fyrir neðan nefið.
Það verður að taka þetta með almennilegum vettlingatökum.
Það er ekki hægt að koma þessum ketti í nös.
Staður konunnar er á bak við eldavélina.
Að láta ekki deigið síga.
Oft má saltkjöt liggja.
Nú er komið annað hljóð í skrokkinn.
Öl er annar maður.
Gera býflugu úr úlvalda.
Ég er ekkert að tvítóla við þetta.

Að hlaupa upp milli handa og fóta 
Hann birtist eins og skrattinn úr sauðalæknum.
Samvinnuháskólinn hefur ætið verið í takt við tímas tönn.
Jakki er ekki frakki nema síður sé.
Stúlka bað mann að vera sér innan fótar.
Sjá sína sæng útbreidda.
Mjúkt er meyjarbróstið, nema harðbrjósta sé.
Eftir limnum dansa karlarnir
Þetta er alveg út í Hróa Hött.
Þegar ein báran rís er önnur stök.
Hríðin var svo dimm að það sást ekki milli augna.
Talaðu við mig milli tveggja augna.
Hann gekk á milli Pontíusar og Pílatusar
Að berjast í bönkum.
Að skjóta stelk í bringu.
Árunni kennir illur ræðari.
Fyrr má nú rota en skjóta.

Margir fara yfir strikið í Kaupmannahöfn.
Oft slettist uppá vínskápinn,

Konur geta verið ísmeygilegar árennilegar og áferðarfallegar.

Já, ég var að taka til og læt margt flakka, en nú er ég hættur.

IMG 6051Tvö ljón gæta mikilfenglegrar byggingar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta með kommuna er gott ráð. hjá Sigurði Hreiðari.

Ólafur Sveinsson 16.7.2011 kl. 00:24

2 identicon

Er þetta Kvistaland þarna á myndinni eða ætli það hafi verið kvistur í blýanti arkitektsins?

Svei mér ef þetta er ekki ofkvistað.

 

Guðmundur Bjarnason 16.7.2011 kl. 14:02

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þessi bygging minnir mig að standi við Kársnesveg (nr. 9). Að mörgu leyti þótti mér meira til ljónanna koma og ég hugsa að það hafi verið meira þeirra vegna sem ég tók myndina.

Sæmundur Bjarnason, 16.7.2011 kl. 17:29

4 identicon

Það er rétt hjá þér, Sæmundur, að aðgerðir Sveins Kristinssonar eru miklu grófari en virðist af bréfi kennaranna. Sveinn er forseti bæjarstjórnar. Yfirmaður kennaranna er skólastjóri Brekkubæjarskóla, sem braut stjórnsýslulög sl. vor í mannaráðningum. Næsti toppur þar fyrir ofan er Helga Gunnarsdóttir, framkv.stjóri Fjölskyldustofu en undir þá stofnun heyra skólamál. Hún og Sveinn eru systkinabörn.

Harpa Hreinsdóttir 17.7.2011 kl. 20:38

5 identicon

 

Harpa Hreinsdóttir 17.7.2011 kl. 20:49

6 identicon

Fyndist fólki eðlilegt að Dagur Eggertsson tæki kennara í Austurbæjarskóla á teppið fyrir að hafa tekið út of stóran skerf af sínum veikindadögum? Eða segði slíkum kennara að ónefnt fólk úr 107 hefði hringt í sig og sagt að kennarinn talaði illa um skólann?

Harpa Hreinsdóttir 17.7.2011 kl. 20:49

7 identicon

Sá Sveinn sem þú eitt sinn þekktir er líklega ólíkur þeim heimaríka Sveini Kristinssyni sem hefur setið í bæjarstjórn Akraness frá 1994 og verið heimaríkur forseti þeirrar bæjarstjórnar alltof lengi. Menn breytast.

Harpa Hreinsdóttir 17.7.2011 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband