8.7.2011 | 00:15
1415 - Meira um ESB
Hún er líklega tekin í skólaferðalagi fyrir 1960. Þetta var nýjasta tækni þess tíma. (Fyrir norðan). Ég hafði séð hesta teymda fram og aftur til að snúa hrærivélum en aldrei þessa aðferð. Mikil framför frá því að hræra í höndunum greinilega.
Það eru ekki vitrænar rökræður um ESB-aðild ef annar aðilinn setur reglurnar (og feitletrar) til að koma sinni predikun að. Haraldur Hansson sagðist vilja rökræða aðild að ESB en vildi svo (að mínu áliti) bara tala um það sem hann áleit vera óskert sjálfstæði. Það er samt rétt hjá Haraldi að aðildarumræður eru á villigötum ef aðeins er rætt um styrki og undanþágur. Slík umræða snertir alls ekki kjarna málsins. Kjarni málsins er aðildin sjálf. Hver þróunin verður í framtíðinni skiptir mestu máli. Ekki hvernig hlutirnir líta út akkúrat núna. Það er samt ekkert einkennilegt við það þó margir líti fyrst og fremst til veskisins og hvaða áhrif líklegt sé að aðild hafi peningalega séð í nánustu framtíð.
Í mínum huga hafa styrkirnir það markmið að jafna sem mest aðstöðu einstaklinga og auðvitað er líklegra þegar til lengdar lætur að jöfnunin verði í átt til miðjunnar en til toppsins. Við Íslendingar erum vanir að álíta okkur okkur fast við toppinn á öllum sviðum. Ég tel þó svo ekki vera.
Undanþágurnar eru til að milda áhrif þess á þjóðir að taka upp reglugerðir ESB í stað sinna eigin sem oft miða einkum að því að festa í sessi landlæga spillingu og vanþróun til að fá viðkomandi almenning til að sætta sig betur við ofurvald yfirstéttarinnar. Það er ekkert einkennilegt við það að ráðandi stétt líti hornauga allar tilraunir til að taka þetta vald af henni. Að því leyti má auðvitað segja að ESB sé fulltrúi vissrar tegundar af sósíalíseringu.
Ef því er raunverulega trúað að allar þjóðir sambandsins hafi (kannski án þess að vita það) með öllu glatað framtíðarsjálfstæði sínu og hafi enga möguleika á að endurheimta það, þá er það auðvitað rétt að skert eða óskert sjálfstæði skiptir miklu máli. Jafnvel mestu. Svo er þó alls ekki og auðvelt er að sannfærast um slíkt. Rökræður um aðild geta því aðeins haft eitthvert gildi að hægt sé að ræða allt sem hana snertir. Annar aðilinn getur ekki sett fyrirframreglur um að umræðan fari bara fram á sínum forsendum.
Nú er ég að predika og nota mér það að ég á þetta blogg. Umræður í athugasemdadálkum geta einungis farið fram í símskeytastíl. Alls ekki er hægt að koma mörgu að. Nauðsynlegt er að takmarka umræðuna þar sem mest með því að hafa athugasemdirnar stuttar. Læt ég svo útrætt um þetta mál að sinni en viðurkenni að ég var ansi stuttaralegur í svörum við Harald um daginn.
Ef ég á að halda áfram að fabúlera um ESB þá er vel hægt að líta á þá pólitísku þróun sem hefur átt sér stað. Evrópuþjóðirnar væru alls ekki það mótvægi við yfirburðaáhrif USA í heiminum sem þær þó eru ef ekki væri vegna ESB. Samvinna þjóðanna í Evrópubandalaginu hefur á öllum sviðum aukið styrk þeirra á heimsvísu.
Sú gagnrýni að ESB sé klúbbur þeirra ríku til þess að halda þeim fátæku (þróunarlöndunum) í burtu og utan við allar framfarir finnst mér miklu alvarlegri gagnrýni en að ESB leggi undir sig náttúrauðævi aðilarríkjanna og vilji öllu ráða. Auðvitað koma smáríki eins og Ísland ekki til með að ráða eins miklu og stóru ríkin í einstökum málum. Það er auðvitað fáránlegt að gera ráð fyrir því. Smáríkin geta samt á ýmsan hátt ráðið miklu um þróun bandalagsins.
Um daginn birti ég mynd af því sem ég kallaði Stonehenge hið nýja og líka mynd af leirplatta með tveimur fánum. Þetta hvorttveggja er hluti af listaverkum sem skólarnir í Kópavogi standa að og er að finna víða við göngustígana í Fífuhvammi. Fræðsla um ýmislegt sem þar er gæti vel verið hluti af þessu bloggi.
Klassiska aðferðin við að þagga niður í þeim sem eru að jagast útaf spillingu er að bjóða þeim að kjötkötlunum líka. Ekki virðist vera hægt að notast við þessa einföldu aðferð gagnvart DV og þessvegna eru menn svolítið viðkvæmir fyrir því sem þar birtist. Reyna jafnvel að réttlæta sig. Svo má líka kæra blaðamennina og sjá hvort ekki er hægt að hræða þá svolítið. Sjálfsritskoðun er nefnilega best allra ritskoðana frá sjónarmiði þeirra sem telja sig þurfa ritskoðunar við. Sumum finnst svo kannski vera farið að þrengjast við kjötkatlana eða að jagið sé ekki af réttri gerð og þá má prófa að hella sér yfir viðkomandi og skammast svolítið. Þetta þekkja allir og ég ætla ekkert að leggja meira útaf þessu.
Veðrið er svo gott núna að ekki er hægt að ætlast til að fólk lesi blogg í stórum stíll. Nóg er nú samt og blíðudagarnir hér á Íslandi eru sjaldan margir á sama sumrinu.
Hef ekki hugmynd um hversvegna þetta er gert.
Athugasemdir
Sæll Sæmundur.
Ég hef oft lesið skemmtileg og greinargóð blogg þín mér til ánægju og fróðleiks, ekki síst um lífið og tilveruna í "den"
Er reyndar alveg gáttaður á þessari ESB- trú þinni og þeirri tilhneigingu, jafn lífsreyndur og spakur maður og þú ert fyrir mér.
Ekki síst eftir að mér til mikillar undrunar að ég lagði saman 2 og 2 og komst að því að þú skulir vera stórfrændi góðvinar míns og sveitunga Bjarna Harðarssonar, hinns gallharða ESB andstæðings, sem er sennilega meira að segja einmitt skýrður eftir þínum eigin föður.
Ég ætla því ekki að segja neitt núna, því að ég tel nú góðan og vel greindan kjaftaskinn hann frænda þinn fullfæran um að "rífa kjaft við þig" og snúa þér af villu þíns vegar í þessum ESB- vitleysis farsa þínum !
Gunnlaugur Ingvaarsson 8.7.2011 kl. 00:54
Sæll Sæmi.
Mér finnst þú vera að skemma bloggið þitt með þessu ESB kjaftæði hvern einasta dag.
Kveðja,
Guðmundur Bjarnason 8.7.2011 kl. 03:11
ef ESB talið fer í taugarnar á fólki Sæmi, þá ertu að gera eitthvað rétt ;)
Óskar Þorkelsson, 8.7.2011 kl. 04:36
En samt anzi táknræn og viðeigandi myndin af steypuapparatinu, fólkið í landinu er íhlaupandi í skuldahamsturshjóli borgandi skyhigh ofurskatta í ESBruglhruna-steypuríkisstjórn
eyjaskeggi 8.7.2011 kl. 05:13
Takk Gunnlaugur fyrir góð orð um bloggið mitt. Ég hef fylgst með þróun ESB frá því 1972 þegar Danir höfðu þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Held ekki að þú ætlist í alvöru til þess að ég láti ættartengsl ráða í máli sem þessu. Auðvitað eru skiptar skoðanir. Slæmar afleiðingar óttast ég þó eingöngu ef okkur verður neitað um þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Sæmundur Bjarnason, 8.7.2011 kl. 08:35
Guðmundur ég er að sumu leyti sammála þér, en bæði er þetta þýðingarmikið mál og erfitt að komast hjá því að ræða það því áhrifin eru svo víða.
Sæmundur Bjarnason, 8.7.2011 kl. 08:38
Eyjaskeggi hinn myndfróði getur þú ekki líka sagt mér af hverju búið er að taka börkinn af trjánum á myndinni anno 2011. Tengist það ekki ESB?
Sæmundur Bjarnason, 8.7.2011 kl. 08:42
Takk Óskar. Ég er samt ekki að gera mér leik að því að fara í taugarnar á fólki.
Sæmundur Bjarnason, 8.7.2011 kl. 08:43
Börkurinn er tekin af til þess að drepa tréð og ræturnar, þetta þarf að standa svona í 1 til 2 ár og þá er maður laus við rótarskot
Samlíking við ESB gæti verið Grikkland sem fyrsti börkurinn af ESB trénu
Kv
Hilmar
Hilmar Þór Óskarsson 8.7.2011 kl. 10:18
Hilmar, ég skil vel að tréð drepist, en af hverju drepast ræturnar ef þetta er gert? Er hægt að nota þessa aðferð við allar tegundir af trjám og er þetta eitthvað betra en að höggva þau?
Sæmundur Bjarnason, 8.7.2011 kl. 11:38
Þetta er hægt að nota við öll tré, vatnið sem tréð notar er sogað upp þarna í ysta laginu þannig að þegar börkurinn er tekin í burtu allan hringin þá berst vatnið ekki upp til tréssins en það laufgast hinsvegar í allt að tvö ár af þeim safa sem er eftir í trénu. Laufblöðin verða þó minni seinna árið. Ef tréð er bara hoggið geta ræturnar skotið upp nýjum greinum, Öspin er sérstaklega dugleg við það en með þessari aðferð þurkast ræturnar upp og drepast en þetta getur tekið 2 til 3 ár eftir stærð trésins.
Hilmar Þór óskarsson 8.7.2011 kl. 11:58
Vissi þetta ekki. Hélt að þörf væri á að grafa ræturnar upp eða eitra til að vera örugglega laus við rótarskot.
Sæmundur Bjarnason, 8.7.2011 kl. 12:38
Hvernig er þetta með korktrén?
Ólafur Sveinsson 8.7.2011 kl. 15:15
SAæll aftur Sæmundur Bjarnason.
Nei auðvitað dettur mér ekki í hug að þú látir ættartengsl ráða þínum pólitísku skoðunum. Bjarni Harðar væri nú varla svona sjálfur eins og hann er ef hann hefði dansað eftir ættartrénu.
En þú ert á algerum villigötum með það að þessir styrkir frá ESB séu eitthvað til að jafna aðstöðumun og "sósálísera" þjóðfélögin.
Það er miklu frekar hægt að kalla þessa styrki og sjóðasukk ESB appartsins "Sósíalisma andskotans"
Þeir hafa sýnt sig í að skekkja samkeppnismun og mismuna gegnum klíkuskap og oft með milligöngu mútuþægra embættis og stjórnmálamanna.
Stóru fyrirtækjasamsteipurnar í Evrópu sitja um hæstu styrkina með því að vera með tugir og hundruðir lobbhista á fullum launum í Brussel við að reyna með löglegum og ólöglegum ráðum að hafa áhrif á embættisklíkurnar og valdaelíturnar sem úthluta styrkjunum.
Spilling og sóun fylgir þessu kerfi hvert fótmál. Hinir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátækari.
Veistu kannski að ársreikningar ESB hafa ekki fengist undirritaðir og samþykktir af löggilltum endurskoðendum samfleytt s.l. 16 ár.
Afhverju, jú af því að þeir telja að yfir 50 milljarðar Evra árlega misfarist í meðförum embættisaðalsins !
Ég held að þú værir ekki sá maður sem styddir svona sóðalegt styrkja- og millifærslukerfi ef að þú bara skoðaðir þessi mál dýpra.
Gunnlaugur Ingvarsson 8.7.2011 kl. 15:43
Ég er kjaft stopp. Á öfga liðið, sem vill koma í veg fyrir, að við fáum að kjósa um ESB, nauðga síðunni þinni?
Ólafur Sveinsson 8.7.2011 kl. 17:58
Hvort ertu Sæmundur KRingur eða Valsar eða hvort ertu Íslendungur eða Evrópusinni. Þú getur bara tekið eina afstöðu. með eða móti. Ég er á móti vegna þess að ég vil ekkert hafa með ESB. Ég er ekki að bíða eftir hæsta tilboði frá ESB og ég hef engan áhuga fyrir EES né EFTA. Ekki áhuga fyrir evru né dollurum og ekkert nema okkar krónu.
Valdimar Samúelsson, 8.7.2011 kl. 18:59
@ Ólafur Sveinsson -
Með fullri virðingu fyrir síðuhaldara og þér.
Þá er það svo að þó svo að ég sé algerlega andsnúinn ESB aðild þá vil ég alls ekki stöðva þetta vitleysis ferli úr því sem komið er.
Það væri beinlínis rangt og færði aðeins ESB sinnum vopn í hendur sem þeir myndu aldrei hætta að nota gegn landi okkar og þjóð og þar með halda áfram sundurlyndisfjandanum sem hefur unnið þjóðinni meira ógagn en flestar náttúruhamfarir.
Þvert á móti þá vil ég klára þetta ferli sem allra fyrst því að ég er algerlega sannfærður um að þjóðin mun kjósa ESB helsið af sér, með gríðarlega miklum mun !
Hvort sem þú þá kallar þjóðina þína þá öfga þjóð eða ekki !
Gunnlaugur Ingvarsson 8.7.2011 kl. 21:47
Gunnlaugur I. Ef þessi ferill er kláraður þ.e. bara ESB hliðin þá erum við komnir með áheyrnafulltrúa inn á ESB þing áður en við erum búinn að samþykkja. Þar sitja þeir árum saman eða þar til við klárum ferilinn hér heima.
Sjáðu Blogg mitt í dag. http://skolli.blog.is/admin/blog/?blog_id=13791
Valdimar Samúelsson, 8.7.2011 kl. 21:56
Það hefur ekki komið fram hvort ég mundi kjósa já eða nei. Það sem ég er að benda á, að ég er mótfallinn því að menn út í bæ, ákveði fyrir mig, hvort hvort ég fái að kjósa eður ei.
Ólafur Sveinsson 8.7.2011 kl. 22:10
Valdemar er komin á eftirlaun svo honum er skítsama um afkomendur sína.. því hann hefur það fínt ;) ekta afturhaldsgaur
Óskar Þorkelsson, 9.7.2011 kl. 09:57
Þessi steypuhrærivél er tær snilld. Ekki hefur þó verið hrærð í henni nein ESB steypa.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 11.7.2011 kl. 14:40
Takk, Ólafur. Sé að þú hefur reynt að halda uppi mínu merki meðan ég var fjarverandi.
Sæmundur Bjarnason, 12.7.2011 kl. 23:39
Gunnlaugur, bara ein spurning. Hvaða sósíalismi er ekki "sósíalismi andskotans" að þínum skilningi?
Sæmundur Bjarnason, 12.7.2011 kl. 23:45
Valdimar, ég er hvorki KR-ingur né Valsari. Meira að segja hvorki Manchester United aðdáandi né púlari. Evrópumaður og Íslendingur. Varðandi ESB-aðild eru fleiri möguleikar en að segja já eða nei. Það getur líka skipt miklu máli hvernig sú spurning verður orðuð sem lögð verður fyrir þjóðina í ESB-atkvæðagreiðslunni. Þegar hætt verður að nota íslensku krónuna hugsa ég að þú getir fengið hana og áheyrnarfulltrúi Norðmanna er víst ósýnilegur.
Sæmundur Bjarnason, 12.7.2011 kl. 23:53
Axel, já mér fannst steypuhrærivélin mjög góð uppfinning á sínum tíma. Ég hugsa samt að hún hafi verið orðin ónýt eða a.m.k. hætt að nota hana áður um nokkrum datt í hug að gera ESB-steypu, eða and-ESB-steypu.
Sæmundur Bjarnason, 12.7.2011 kl. 23:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.