1412 - Donald Tusk (forsætisráðherra Póllands)

Untitled Scanned 43Gamla myndin.
Hér er enn ein myndin af Bjössa bróðir.

Datt í hug saga þegar ég var að setja inn myndina af Byggingunni í gær. Einu sinni var kirkja á Reykjum. Kirkjuklukkan (sem enn var til) var fest utan á Bygginguna. Að vísu hinum megin miðað við myndina. Klukkan tólf og klukkan sex á hverjum virkum degi var þeirri klukku hringt og heyrðist hringingin um allt Hveragerði.

En þetta var ekki sagan sem ég ætlaði að segja. Á efri hæðinni í Byggingunni var kaffistofa við hliðina á rannsóknarstofunni hans Axels. Þangað fórum við í kaffitímanum á morgnana og í eftirmiðdaginn. Man að eitt sinn var ég ásamt Ingibjörgu systur minni, Smalla og einhverjum fleirum að vinna þarna. Hlass af mómold var í stóra húsinu. Við Ingibjörg tókum einn móköggul og kveiktum í honum. Það logaði lengi í honum en ekki með neinum látum. Þegar kaffitíminn kom tókum við logandi móköggulinn með okkur og settum á hillu undir einu borðanna á kaffistofunni.

Kenndum svo Smalla um reykjarlyktina og bræluna sem af þessu hlaust. Hann sagðist hafa verið að sjóða (hita mold með sjóðandi vatni og drepa þannig allt kvikt í henni) og vel gæti verið að reykurinn (gufan) væri frá honum. Fór síðan úr stígvélunum og henti þeim fram á gang.

Man líka að ég var talsvert impóneraður yfir tækjunum á rannsóknarstofunni við hliðina á kaffistofunni. Þar var m.a. vikt sem var svo nákvæm að hafa þurfti glerhjálm yfir henni. Það fannst mér merkilegt.

Orð forsætisráðherra Póllands, Donald Tusk, um ESB eru orð í tíma töluð. Hann setti í rauninni ofan í við Merkel, Sarkozy, Cameroun og aðra valdamenn helstu ESB-ríkjanna. Eðlilegt er að Merkel og þau þykist öllu ráða innan ESB. Samt er það að mörgu leyti rétt hjá Tusk að þau hugsa of mikið um eigin pólitískan hag heimafyrir í öllu sem snertir ESB. Gagnrýni á ESB, þjóðrembuháttur og útlendingahatur fer vaxandi um alla Evrópu. Danir og fleiri íhaldssamar ESB-þjóðir grípa fegins hendi tækifærið sem býðst vegna ástandsins í Norður-Afríku til að taka upp landamæraeftirlit að nýju.

Ég fer ekkert ofan af því að vöxtur og viðgangur ESB er það besta sem komið hefur fyrir Evrópu. Það er til siðs í Bretlandi að gagnrýna allt sem ESB tengist. Þó hvarflar ekki að stjórnmálamönnum þar að ganga úr sambandinu. Þegar Bandríkjamenn nenntu ekki lengur að sinna okkur Íslendingum var eðlilegt (og í raun óhjákvæmilegt) fyrir okkur að athuga með stuðning frá ESB. Sumir mæltu reyndar frekar með Rússlandi, Kína, Kanada, Noregi eða bara einhverju til rugla fólk ef hægt væri.

Þrátt fyrir allt er sá möguleiki fyrir hendi að samningur sá sem væntanlega næst milli Íslands og ESB verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Evrópubandalagið er á margan hátt í vandræðum nú í kreppunni sem skekur vestræn fjármálakerfi. Alls ekki er hægt að gera ráð fyrir að vestrænar þjóðir nái sér fljótlega eftir hana. Útþensla bandalagsin hefur verið hröð undanfarið. Líklega of hröð. Ef Íslendingar hafna aðild kann að líða á löngu áður en reynt verður aftur.

Ekki er útilokað að Norðmenn sæki þá um aðild eftir fá ár. Áhrif höfnunar munu ekki síður en aðild hafa mikil áhrif á alla þróun á Íslandi. Þeir sem þykjast sjá allt fyrir í þeirri þróun eru yfirleitt að ljúga. Einnig er lítið að marka spádóma um framtíðarþróun ESB. Andstæðingar aðildar þreytast þó seint á að spá þróun í átt til stórríkis á borð við USA, þó þeir hafi ekkert fyrir sér í því.

IMG 5913Ekki veit ég hvað þessi áletrun þýðir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Isl=Kos hlýtur að hafa eitthvað með Ísland og Kósóvó að gera. Kósóvóbúar vilja margir kenna sig við Albaníu og þarna er því eitthvað sem líkist tvíhöfða drekanum í Albanska fánanum. Kannski er til eitthvað sem heitir Vináttufélag Íslands og Kósóvó.

Emil Hannes Valgeirsson, 6.7.2011 kl. 00:49

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ég komst eiginlega að svipaðri niðurstöðu þegar ég fór að íhuga málið nánar. Þekki samt ekki neitt þennan tvíhöfða dreka. Þetta er úr einskonar vörðu sem gerð er úr litlum leirmyndum sem e.t.v. eru eftir börn.

Sæmundur Bjarnason, 6.7.2011 kl. 09:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband